31.03.1936
Sameinað þing: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í D-deild Alþingistíðinda. (3183)

76. mál, landhelgisgæzla á Faxaflóa og Snæfellsnesi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Ég hefi ekkert á móti því, að þessi till. frá hv. þm. Borgf. og hv. þm. G.-K. sé samþ. En ég vil samt sem áður ekki láta samþ. hana án þess að það komi fram, að það, sem hér er verið að skora á ríkisstj. að gera og láta undirbúa, það hefir stj. nú þegar undirbúið í raun og veru. Það hefir verið nú þegar boðin út og heitið verðlaunum fyrir teikningu á fyrsta strandvarnarbátunum — nú fyrir talsverðu síðan —, þannig að hafinn er undirbúningur á verki því, sem hér er skorað á stj. að framkvæma.

Ég vil ekki draga dul á það, að einmitt það atriði, sem hv. þm. Borgf. minntist á — sameining á landhelgisgæzlu og björgunarstarfsemi — gæti á einhvern hátt tafið fyrir framkvæmdum þessa máls, því það er sýnt mál, að reynt verður til þrautar að ná samkomulagi einmitt um þessa sameiningu strandvarna og björgunarstarfsemi, og það er rík skoðun margra, sem þessum málum eru kunnugir, að slík sameining sé æskileg. — Það hefir sem sagt verið hafizt handa um undirbúning framkvæmda á fyrsta lið þessarar till.

Viðvíkjandi 2. lið till. er það að segja, að einmitt nú á ræðan ekki hefir verið keyptur bátur hefir stöðugt verið bátur hér á Faxaflóa — milli Reykjaness og Snæfellsness. Hann hefir verið þarna til taks alla vertíðina og verður til loka, svo að síðari liðurinn hefir líka verið framkvæmdur. En þessi þáltill. og í sjálfu sér ummæli hv. þm. geta gefið tilefni til þess, að Alþ. álíti, að þessu væri ekki þannig varið, og þess vegna vildi ég taka þetta fram.