31.03.1936
Sameinað þing: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 170 í D-deild Alþingistíðinda. (3184)

76. mál, landhelgisgæzla á Faxaflóa og Snæfellsnesi

*Flm. (Pétur Ottesen):

Ég vil þá undirstrika það, sem hæstv. forsrh. sagði, að það hafi þegar verið fastákveðið að byggja strandvarnabát, sem eigi að annast landhelgisgæzlu á Faxaflóa, og mér þykir mjög gott að fá viðurkenning hæstv. forsrh. — og þá líka væntanlega þingsins — fyrir því, að þeirri miklu og auðsæju þörf, sem er að láta þá fyrstu framkvæmd, sem gerð verður í þessu efni, miðast við þá sérstöku þörf, sem er á umbótum á landhelgis- og veiðarfæraverndun hér á Faxaflóa. Ég vil undirstrika þetta og vænti þess, að það dragist ekki lengi, að bót verði á þessu ráðin á þessum grundvelli.

Ég hefi nú séð það í blöðum, að boðið hefir verið út til samkeppni um gerð og útbúnað slíkra báta, og við því er náttúrlega ekkert nema gott að segja, því sjálfsagt er að vanda sem allra bezt til þessara báta. En við flm. höfum ekki orðið varir við, þegar við fluttum þessa till., neina tilkynningu um það frá ríkisstj., að nokkuð væri farið að hefjast handa, og það er fyrst eftir að till. okkar er útbýtt hér á þingi, að fram kemur í blöðum tilkynning um það, að farið sé að hefja undirbúning að þessu starfi. En það er þá gott, að það fellur saman vilji og þörf þeirra manna, sem við Faxaflóa búa, og þeirra, sem þar stunda fiskveiðar, við áform hæstv. ríkisstj. um framkvæmdir í þessu máli.

Út af ummælum hæstv. ráðh. um samstarf í þessu efni er það að segja, að verði málið nú sett á þann grundvöll, gæti vel leitt af því einhvern drátt á framkvæmd þess, en þetta mál þolir enga bið, svo að enginn dráttur má verða á því, hvorki af þessum ástæðum né öðrum. Ef þeir, sem standa að Slysavarnafélaginu, treysta sér til þess að halda uppi sinni loflegu starfsemi út af fyrir sig með frjálsum samskotum, þá þeir um það. En enginn dráttur má verða á því að fylla það skarð, sem varð í strandvarnirnar við sölu Óðins. — Hæstv. ráðh. upplýsti, að varðbátur hefði verið nú á vertíðinni á Faxaflóa. Þetta er rétt, en þrátt fyrir það hafa fiskimenn borið sig mjög aumlega í vetur yfir tjóni á veiðarfærum af völdum togara. Möguleikar þessa báts eru ekki miklir, enda hefir starfsemi hans ekki komið að miklu gagni. Svo hefir hagað til í vetur, að bátar hafa orðið að sigla til fiskjar allt að því 2 klst. lengur en venja er til og orðið að sækja á þau mið, sem togarar eru yfirleitt á, og því orðið meir fyrir barðinu á þeim nú en nokkru sinni fyrr. Eftir þeim umkvörtunum að dæma, sem borizt hafa frá þessum fiskibátum í vetur, virðist tiltölulega lítið gagn hafa leitt af varðbátnum, í hverju sem það liggur. En bátur, sem byggður væri með slíka gæzlu fyrir augum, ætti að geta orðið til mikils trausts, og því má ekki verða á því nema sem allra minnstur dráttur.

Ég vona, að þörf fiskimannanna verði hér fyrst og fremst höfð að leiðarstjörnu, en vafasamir samningar við Slysavarnafélagið verði ekki látnir tefja málið. Þetta er eindregin krafa sjómannanna.

Veiðarfæratjón þeirra í vetur er þeim mun tilfinnanlegra, sem þeir bera minna úr býtum og hafa því minni getu til að standa undir slíku tjóni.