31.03.1936
Sameinað þing: 9. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í D-deild Alþingistíðinda. (3185)

76. mál, landhelgisgæzla á Faxaflóa og Snæfellsnesi

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil benda á það, þótt ég sé þessari till. engan veginn andstæður, að ekki er síður þörf fyrir slíka gæzlu á Vestfjörðum en á Faxaflóa. Þar eru engu síður uppeldisstöðvar fiskjarins, og þar eru einnig veiðar stundaðar af smáum skipum, sem allt veltur á fyrir, að veiðarfærum þeirra og fiski sé ekki spillt.

Undanfarið hefir gæzlan verið svo frámunalega slæleg, að togararnir voru í september í fyrra tugum saman uppi undir Ísafjarðarkaupstað og gersópuðu upp ýsuaflann, sem fiskimenn hefðu ella getað haft mikið upp úr. Það er því auðsætt, að ekki er síður þörf á að vernda fiskimiðin á Ísafjarðardjúpi en á Faxaflóa fyrir ágangi togara, auk þess sem á það má benda, að uppeldisstöðvar fiskjar eru sízt minni í Ísafjarðardjúpi og Arnarfirði en í Faxaflóa.

Frá október og fram í febrúar eru þarna vestra stundaðar lúðuveiðar í háskammdeginu, og verður að sækja á haf út, sumpart af því, hve gæzlan á nærmiðum er léleg. Ef þarna væri góður varðbátur, gæti hann oft orðið til þess að bjarga lífi og limum manna, þegar þess er gætt, að langtíðasta orsökin til slysa er vélabilun. En það segir fátt af einum, einnig þegar bátur með bilaða vél á heim að sækja 30 sjómílur í versta veðri í skammdeginu.

Ég vona því, að hæstv. stjórn sjái, að þörfin er ekki minni hér vestra, og láti því byggja annan bát til gæzlu hér um leið og Faxaflóabátinn, þegar uppdrættir eru til.

Þrátt fyrir það, þótt þáltill. hafi verið flutt um þetta á hverju þingi, hefi ég samt ekki flutt brtt. við þáltill. hv. þm. Borgf. nú,í von um að þessu verði sinnt, og það því fremur, sem Óðinn var seldur með því skilyrði, eins og hv. flm. sagði, að andvirði hans yrði varið til aukinnar strandgæzlu, en ekki gert að eyðslufé.