28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 372 í B-deild Alþingistíðinda. (319)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Frsm. meiri hl. (Sigurður Einarsson):

Eins og hv. þdm. sjá, liggja hér fyrir nál. frá meiri og minni hl. menntmn. um frv. til l. um ríkisútgáfu námsbóka. Þessi nál. eru stuttorð og gagnorð. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ., minni hl. leggur jafngagngert til, að það verði fellt.

Það er bezt að segja hverja sögu eins og hún gengur. Ég get ekki sagt, að mikil samvinna hafi orðið í n. um rannsókn á þessu máli eða möguleikar á því að ná nokkru samkomulagi.

Það virðist hafa verið svo, þegar þetta mál hefir legið fyrir undanfarið, að menn hafi þar skipzt mjög gagngert í tvo hópa, annarsvegar hafa þeir verið, sem hafa talið þetta skipulag til bóta, en hinsvegar þeir, sem hafa talið það gagnslaust og jafnvel skaðsamlegt.

Að svo miklu leyti, sem þetta mál var rætt í n., kom greinilega fram sami greinarmunur. Við meirihl.-menn erum, eins og kom greinilega fram á síðasta þingi, þeirrar trúar, að þetta frv. horfi til mikilla bóta og stuðli mjög að því að sjá börnum fyrir hentugum, ódýrum og endingargóðum námsbókum, og ennfremur að það sjái börnum fyrir hentugra og aðgengilegra lesefni en börn eiga aðgang að nú.

Ég geri ráð fyrir, að andstæðingar okkar geri grein fyrir, af hverju andstaða þeirra við frv. er sprottin, en ég sé ekki ástæðu til að taka upp frekari umr. um málið, þar sem það var svo rækilega rætt á síðasta þingi. En ef einhverja hv. þdm. fýsir að vekja upp þau hjaðningavíg að nýju, þá er ekkert við því að segja, að um málið sé fjallað að nýju, ef það mætti verða til þess að sannfæra menn um nytsemi þess.