28.04.1936
Neðri deild: 58. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (320)

5. mál, ríkisútgáfa námsbóka

*Eiríkur Einarsson:

Meðnm. minn, hv. 5. þm. Reykv., sem var ákveðinn frsm. minni hl., er ekki viðstaddur, svo að ég vil í hans fjarveru láta nokkur orð fylgja frv.

Ég get tekið undir það með hv. 9. landsk., að ég sé ekki ástæðu til að rifja upp með mjög löngu máli þau rök, sem hér liggja fyrir. Á síðasta þingi var þetta frv. rætt allmikið, en að taka upp þau hjaðningavíg, eins og hv. þm. orðaði það, sé ég ekki ástæðu til. Ég vil aðeins taka það fram á sama hátt og þá, að ég hefi ekki séð mér annað fært en að vera andvígur frv. eins og það liggur fyrir.

Ef beitzt er fyrir því af alúð, að börn fái sem ódýrastar skólabækur, sem ég tel bæði rétt og nauðsynlegt, álít ég, að hægt sé að ná þeim tilgangi á annan veg á frjálsari menningarinnar vettvangi en frv. ætlast til. Langréttast og þægilegast væri, að fræðslumálastjóri ákvæði og samþykkti hámark útsöluverðsins, eins og bækurnar sjálfar. Þessi lausn væri í alla staði hin bezta, því að með henni væri komizt hjá annmörkum frv., en haldið kostum þess, þeim, að bókaútgefendur hafi ekki ágóða, þar sem sízt skyldi, á kostnað barnanna og fátækra foreldra.

Ég vil ekki fara að vekja umr. um málið á ný. En ég verð að láta þá skoðun mína í ljós, að ritnefnd sú, sem á að hafa yfirstjórn kennslubókanna á hendi, verði ekki annað en ný skriffinnskustofnun, og fræðslumálastjórnin sé fullkomlega fær um að hafa yfirstjórn og eftirlit útgáfunnar á hendi vegna aðstöðu, kunnáttu og vilja. Mér finnst þessi nýja ritnefnd lykta af því nýja bitlingakerfi, sem sífellt hefir verið að færast í aukana hin síðari árin.

Ég hefi sagt það, og endurtek það, að nauðsynlegt er, að við samningu og val kennslubókanna gildi eins mikið frjálslyndi og unnt er, og að þeir verði styrktir til samningar bókanna, sem þeim vanda eru vaxnir en fræðslumálastjórn ráði því hinsvegar, hvað borið er á borð fyrir börnin. En þetta er ekki aðferð frv.

Mér hefði þótt gaman að minnast á ýmsa einstaka liði frv., en verð að sleppa því að mestu.

Þó get ég ekki stillt mig um að minnast á einn. Í frv. er lagt blátt bann við því, nema með leyfi ráðh., að skólabækur gangi kaupum og sölum. Ég minnist þess nú um sjálfan mig, þegar ég var félítill nemandi í menntaskólanum, að mér þótti oft gott að geta fengið keyptar bækur af eldri skólabræðrum mínum með vægu verði. Ég trúi því varla, að það sé tilgangur frv. að banna slík viðskipti milli eldri og yngri barna, en ef svo er, þá svei því! En ef átt er við það, að ekki megi pranga með þessar bækur, á þetta ákvæði auðvitað rétt á sér. Hitt er heimskulega einhliða, að fyrirskipa, að bækurnar skuli vera séreign hvers barns, sem það megi ekki láta af hendi, nema sem gjöf, nema leyfi ráðh. komi til.

Ég hefi nú gert grein fyrir því, að ég tel það höfuðatriði, að í þessum efnum verði allt svo frjálst sem unnt er, svo allir þeir geti spreytt sig við samningu bókanna, sem þess eru um komnir, og að rétt sé og eðlilegt, að settur verði hámarkstaxti á verð bókanna, svo að ekki sé fé haft af börnunum eða foreldrum þeirra með óhæfilegri álagningu. Ég er þess fullviss, að foreldrum úti um sveitir landsins fellur sú tilhögun betur heldur en að þetta sé allt bundið og hafi jafnframt í för með sér nýtt lögtaksgjald eins og ákveðið mun vera í þessum lögum.