05.05.1936
Neðri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í D-deild Alþingistíðinda. (3212)

77. mál, síldveiði í Faxaflóa og fyrir suðurströnd landsins

*Flm. (Ólafur Thors):

Ég skal standa við það, sem ég lofaði hæstv. forseta, að vera ekki margorður um þessa till.; þarf ég þess líka síður í frumræðu, vegna þess að grg. segir í sjálfu sér velflest það, sem segja þarf.

Það er farið fram á í till. annarsvegar, að nokkur hluti þeirra síldarsöltunarleyfa, sem væntanlega verður úthlutað á þessu ári, falli í skaut sunnanmanna, við Faxaflóa og fyrir suðurströndinni, og hinsvegar, að rannsókn verði framkvæmd á því, á hvern hátt bezt verði að hagnýta þá síldveiðamöguleika, sem eru í Faxaflóa og fyrir suðurströnd landsins. Ég viðurkenni, að það kann að vera nokkuð sterkt í ár tekið með a-lið till., að fara fram á, að 1/3 þeirra verkunarleyfa, sem úthlutað verður til matjessöltunar. falli í skaut sunnanmönnum, enda hygg ég, að við flm. þessarar till. séum reiðubúnir að semja um einhverja niðurfærslu.

Till. þessi er fram borin annarsvegar vegna þess, að aflabrestur á þessari vertíð þrengir ákaflega mikið að verstöðvunum kringum Faxaflóa, — og svo hinsvegar af því, að vegna brestandi síldarafla á Norðurlandi í fyrrasumar voru gerðar alveg óvenjulega víðtækar tilraunir um síldveiðar hér sunnanlands, sem stóðu allt fram undir áramót. En venjan á undanförnum árum hefir verið sú, að síldveiðar eru stundaðar svona til ágústloka. Og þá hefir aðallega og nær eingöngu verið veidd síld í Faxaflóa með það fyrir augum að fullnægja beituþörf mótorbátaflotans hér sunnanlands. Þessi reynsla, sem fékkst í fyrra, — sem ég náttúrlega fúslega viðurkenni, að er ekki óyggjandi, — bendir með allsterkum rökum til þess, að það geti gefið góðan arð að stunda slíkar veiðar hér í Faxaflóa í allt öðrum og miklu ríkari mæli en venja hefir verið. Við flm. báðir viðurkennum, að það muni ekki vera á það hættandi að salta þessa Faxaflóasíld eða verka hana í venjulega söltun, til þess að ætla sér að framleiða jafngóða vöru og Norðurlandssíldina. Þetta mun vera dómur þeirra, sem bezt þekkja í þeim efnum, að þar standist Faxaflóasíldin engan samanburð. Þess vegna sé ekki rétt að verka hana á þann hátt, nema um algeran aflabrest norðanlands sé að ræða.

Hinsvegar hefi ég í höndum skjallegar sannanir fyrir því, að þessi síld reynist ágætlega vel sem matjessíld, eins og nánar er vikið að í grg. Mér þykir ekki ástæða til að fara að lesa hér upp sönnunargögn fyrir þessu, nema því aðeins, að það verði véfengt, sem má gera ráð fyrir frá einhverjum þingmönnum. (FJ: Það er véfengt). Af hverjum? (FJ: Af mér!). Ekki öðrum? Það er nú ekki mikið! En ég get náttúrlega trúað, að það verði aðrir menn í hv. d. glöggari en hv. þm. Ísaf., eins og t. d. hv. þm. Ak. Ég mun þá ræða við hann, ef honum þykir ástæða til að bera brigður á þetta. En ég skal viðurkenna, að nokkur hætta er á, að sínum augum líti hver á silfrið og þingmenn hafi nokkra tilhneigingu í þessu máli til að draga fram hagsmuni sinna kjósenda. En ég stend á því alveg föstu, að það liggja fyrir sönnunargögn um þetta, að til matjessöltunar hefir þessi síld reynzt ágætlega.

Ég held það liggi einnig fyrir upplýsingar um það, að það megi hagnýta Faxaflóasíldina með ýmsum öðrum hætti, t. d. með því að kryddsalta hana og eins með því að reykja hana. Og ég teldi vel farið, ef þessi till. gæti orðið til þess, að athygli yrði beint að því, hvort ekki yrði hægt að gera síldveiði í Faxaflóa að arðsömum atvinnurekstri, árlegum rekstri og þannig til frambúðar. Og á því leikur enginn vafi, að þótt mönnum kunni að þykja orka tvímælis, hvort þessi síld gæti sem matjessíld, kryddsöltuð og til reykingar staðið fullkomlega jafnfætis norðansíld, þá liggur þó allmikið öryggi fyrir Íslendinga almennt að byggja ekki eingöngu síldarsölu á Norðurlandssíldveiðum. Reynslan síðastl. ár ber þess órækt vitni. Á síðasta hausti var verkað samtals við Faxaflóa 52 þús. tonn síldar, sem seld var fyrir 2½ millj. kr. Og í fátækt okkar nú á þessum síðustu og verstu tímum er það feiknamikils virði fyrir þjóðina að fá slíkan pening upp í hendur. Og þó að við getum ekki allir lifað og nærzt á því, sem til fellst með þessari veiði, þá mundi margur maður finna til, ef þessi veiði hefði ekki verið rekin frá Faxaflóa.

Ég vísa að öðru leyti til grg., til þess þá líka að efna heit mitt við hæstv. forseta að vera ekki margorður. Við flm. höfum átt samtal um þær brtt., sem liggja fyrir, annarsvegar frá hv. þm. Snæf. á þskj. 211, og erum þeim sammála. Hinsvegar ekki brtt. á þskj. 170, frá hv. þm. Ak. og fleirum, af eðlilegum ástæðum, sem ekki þarf að skýra.