05.05.1936
Neðri deild: 63. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 187 í D-deild Alþingistíðinda. (3217)

77. mál, síldveiði í Faxaflóa og fyrir suðurströnd landsins

*Finnur Jónsson:

Ég skal ekki misnota þessa góðvild hæstv. forseta með því að vera langorður. — Hv. þm. G.-K. vildi fullyrða, að þessi skýrsla væri sérstaklega samin með það fyrir augum að fá það versta út, sem hægt væri um Faxaflóasíldina. Ég verð að mótmæla þessu sem algerlega röngu. Magnús Vagnsson segir í skýrslu sinni, að hann hafi gert sér far um eftir beztu getu að athuga möguleika fyrir Faxaflóasíldina í framtíðinni. Og það er fjarri því, að það sé nokkur snefill af sannleika í því, sem hv. þm. G.-K. sagði, að trúnaðarmaður síldarútvegsnefndar hefði fyrst farið á þá staði, sem hann hefði búizt við, að hann gæti fengið slæmar upplýsingar um þessa vörutegund, því hann byrjaði á því að fara til Englands og vera þar í 10 daga til þess að kynna sér allt, sem lýtur að meðferð og sölu ísaðrar síldar, einmitt í því skyni að finna þar markað fyrir Faxaflóasíldina. Þessi maður hefir haft talsverðan áhuga á því að reyna að koma á útflutningí ísaðrar síldar, og stóð þess vegna betur að vígi heldur en margur annar um að fá nauðsynlegar upplýsingar í þessum efnum.

Ég tók það fram í minni fyrri ræðu, að Faxaflóasíldin væri að áliti flestra mjög vel fallin til reykingar, og það er þess vegna skiljanlegt, að þeir, sem hafa fengið síldina nógu vel aðgreinda og ætlað hana til reykingar, hafi ekki verið eins óánægðir eins og aðrir, sem ætluðu hana til annara nota. En út af umsögn, sem hv. þm. G.-K. kom hér með, þá vil ég taka það fram — með allri virðingu fyrir umsögn Gísla Vilhjálmssonar —, að Magnús Vagnsson hafði leitað til þeirra manna, sem keyptu síld af Gísla Vilhjálmssyni, og það er umsögn kaupendanna sjálfra, sem ég hefi lesið unn úr skýrslu Magnúsar Vagnssonar. (ÓTh: Gísli Vilhjálmsson tekur það fram í bréfi sínu, að það sé umsögn kaupendanna, sem hann styðjist við). Ég veit ekki, hvaða tækifæri Gísli Vilhjálmsson hefir haft til þess að fá þær, en ég veit, að Magnús Vagnsson gerði sér ferð til allra stærstu síldarkaupenda í Svíþjóð, þar á meðal vitanlega þeirra, sem Gísli Vilhjálmsson keypti síld fyrir. Og einn þeirra er sá, sem lagt hefir mesta áherzlu á, að varlega þyrfti að fara í að verka Faxaflóasíldina og alls ekki mætti bjóða hana í Svíþjóð á þeim markaði, sem Íslandssíld er seld.

Ég skal ekki fara mikið út í þessa umsögn að öðru leyti. En ég vil þó taka það fram, að það, sem haft er eftir hinum látna vini mínum, Mr. Duncan, er rangt. Við fengum sendar til Siglufjarðar 2–3 tunnur af Faxaflóasíld, sem átti að vera mjög vel aðgreind. Við tókum þessa síld og meðhöndluðum hana að öllu leyti eins og farið er með matjessíld. Og ég skal geta þess, að Mr. Duncan leizt ekki illa á síldina í fyrsta skipti, sem hann sá hana. Við létum svo síldina liggja í 4–5 vikur í tunnum og athuguðum hana svo að þeim tíma liðnum. En þá kvað Mr. Duncan upp þann dóm um þessa síld, að hún væri miklu bragðverri heldur en Norðurlandssíldin, og þó að stærðin væri að ýmsu leyti heppileg, þá passaði þessi síld alls ekki fyrir Ameríku. Og sönnunin fyrir því, að Mr. Duncan hafði þetta álit á síldinni, er sú, að eftir að búið var að gera ítrekaðar tilraunir af síldarútvegsnefnd til þess að fá Mr. Duncan til þess að taka Faxaflóasíldina að einhverju leyti upp í samninga og flytja eitthvað af henni til Ameríku, þá þverneitaði hann að taka það í mál. Hann sagðist ekki vilja spilla þeim markaði, sem þegar væri búið að vinna fyrir íslenzka matjessíld í Ameríku, með því að flytja þessa síld þangað. Og það má nærri geta, að ef Mr. Duncan — jafnslyngur verzlunarmaður og hann var — hefði álitið, að þessa síld væri hægt að nota sem matjessíld í Ameríku, hvort hann hefði ekki gert það.

Þá las hv. þm. G.-K. upp ummæli eftir Mr. Durno, sem Magnús Andrésson hefir að undanförnu haft sem sérfræðing við síldarverkun hér á landi. Í því sambandi vil ég geta þess, að Magnús Andrésson, sem sjálfur hefir mjög gott vit á matjessíld, saltaði ekki nema nokkur hundruð tunnur af matjessíld á þessu sumri, þrátt fyrir það, að honum stæði miklu meiri síld til boða heldur en hann gat komizt yfir að láta salta. Og ástæðan til þess var sú, að honum var það ljóst, eins og bæði mér og öðrum, sem vit hafa á þessum málum, að það er ekki hægt að bjóða út svilfulla og nýgotna síld sem matjessíld. Það er vitanlega hægt að verka þessa síld á svipaðan hátt og matjessíld með því að setja í hana meira af salti, en það er ekki hægt að selja hana sem matjessíld. Það eru vörusvik.

Ég hefi aldrei sagt, að Faxaflóasíldin væri ekki markaðsvara. En ég hefi bent á þá hættu, sem er í því fólgin að bjóða út þessa vöru undir tegundarheiti annarar betri vöru. Ég hefi einnig bent á þá möguleika, sem fyrir hendi eru, að nota þessa síldveiði að lokinni síldveiðinni fyrir Norðurlandi, og ég treysti því fullkomlega, að ef framhald verður á síldveiðunum í Faxaflóa, þá verði þeir möguleikar notaðir þegar á þessu ári.