18.04.1936
Neðri deild: 51. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í D-deild Alþingistíðinda. (3227)

89. mál, eftirlit með skipum

Páll Þorbjörnsson:

Það er upplýst af hv. frsm. og eins af grg. þeirri, sem fylgir þessari till., að hún er flutt samkvæmt ósk h/f Skallagríms, sem nú heldur uppi ferðum milli Reykjavíkur, Akraness og Borgarness, og ástæðan til þess, að félagið óskar eftir því, að þessi þáltill. sé flutt, er sú, að það telur sig hafa nokkurn aukakostnað við útgerð skipsins, af því að þessar ferðir heyri ekki undir innfjarðasiglingar. — Ég vil nú leyfa mér að upplýsa það, hvaða kostnaður það er, sem félagið hyggur, að verði lægri, ef þessi breyt. fæst.

Það er þannig, að í samningum þeim, sem stýrimenn og vélstjórar hafa gert, er þeim yfirmönnum ætluð nokkur uppbót, sem stunda strandsiglingar. Eins og kunnugt er, er langt frá því, að yfirmenn á þeim skipum, sem sigla með ströndum fram, geti haldið föstum vöktum, vegna þess hvað skipin koma með stuttu millibili í hafnir, svo að það þarf á öllum mannskapnum að halda. Í samningum hásetanna er þeim ákveðin aukagreiðsla fyrir eftirvinnu, og er í samræmi við það ákveðin 10% launauppbót fyrir þetta starf í samningnnm við vélstjóra og stýrimenn. Nú er það meiningin hjá þessum útgerðarmönnum, sem hér eiga hlut að máli, að snuða 3 sjómenn um 1500 kr. á ári alls, og held ég, að varla hafi fráleitara og hlálegra mál komið fyrir þingið en að bera fram tillögu um að snuða þrjá íslenzka sjómenn um nokkrar krónur. Mér þykir rétt að geta þess, að ég hefi átt tal við forráðamenn Stýrimannafélags Íslands, og þeir hafa tjáð mér, að þessi breyt., sem hér um ræðir, muni ekki koma að þeim notum, sem ætlazt er til, því að Stýrimannafélag Íslands mun segja upp samningi við þetta útgerðarfélag og taka upp nýjan samning á þeim grundvelli, að þetta nái ekki fram að ganga.

En svo er annað atriði, sem vert er að athuga í þessu sambandi, og það er ég hræddur um, að hv. samgmn. hafi ekki gert sér ljóst, en það er það, að á þeim skipum, sem sigla í svokallaðri innfjarðasiglingu, eru gerðar minni kröfur til öryggis heldur en á þeim, sem sigla í strandsiglingu. Ég hefi snúið mér til skipaskoðunarstjóra til þess að fá það skjalfest, hvaða áhrif þetta hefir á farþegaflutningum á þessu skipi, sem hér um ræðir, Laxfossi, og hann upplýsti það, að eins og sakir standa má skipið flytja 249 farþega, en ef þessi breyt. verður gerð, þá má það flytja 330 farþega. Nú er það svo um þetta skip, þótt það hafi ekki enn komið hér fram á þinginu, þótt full ástæða væri til, að það er langt frá því, að þessi fleyta sé svo mikið fyrirmyndarskip, að ástæða sé til þess að leyfa því að flytja fleiri farþega en það flytur nú, þegar jafnframt er dregið úr því öryggi, sem skipið nú hefir.

Í öðru lagi má benda á það, að það stendur til, eftir upplýsingum frá skipaskoðunarstjóra, að fram fari endurskoðun á þessari tilskipun nú á þessu ári, og hann hefir getið um það í bréfi til mín, að ákvæðið um innfjarðasiglingu verði að sjálfsögðu tekið til yfirvegunar jafnframt þessu. Ef hnigið verður að því ráði að fara að breyta þeirri línu, sem segir til um, hvað teljast skuli innfjarðasigling, þá er ekki hægt að búast við öðru en því, að sömu kröfur komi annarstaðar frá; mér þykir t. d. ekki ólíklegt, að næsta krafan verði t. d., að innfjarðasigling skuli teljast frá Horni til Rifstanga. Á öllu þessu svæði ganga flóabátar, og það er mjög líklegt, að krafa komi frá þeim, svo framarlega sem gengið verður inn á þessa mjög svo fráleitu kröfu frá þessu útgerðarfélagi, sem hér um ræðir.

Hv. frsm. benti á það til stuðnings sínu máli, að innfjarðasigling á Breiðafirði væri línan Stykkishólmur—Flatey—Lambanes. Þetta mun vera rétt, en þó vil ég benda á það, að það er öðru máli að gegna um Breiðafjörð í þessu sambandi; ég hygg, að það sé mjög hliðstætt, sem talið er innfjarðasigling á Breiðafirði og nú er talið á Faxaflóa, en eins og kunnugt er, þá er langt frá því, að sjóleiðin héðan til Borgarness sé góð að vetri til, en hinsvegar má telja leiðina frá Stykkishólmi til Lambaness sæmilega góða, en auk þess er farþegaflutningurinn ólíkur á þessum tveimur leiðum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta að þessu sinni. Ég hefi bent á þá annmarka, sem mér finnst vera á því að samþ. þetta. — Þar sem aðeins ein umr. hefir verið ákveðin um þetta mál, en þetta mál er hinsvegar töluvert umfangsmeira en hv. frsm. lét uppi, þá vil ég óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu verði vísað til þeirrar n., sem að undanförnu hefir haft til meðferðar hliðstæð mál, sem sé sjútvn.