09.05.1936
Sameinað þing: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í D-deild Alþingistíðinda. (3264)

119. mál, lax- og silungsveiði

3264Flm. (Pétur Magnússon):

Það varð að samkomulagi hjá okkur flm. þessarar þáltill., að vekja eigi umr. um málið, í þeirri von, að það slyppi þá við að daga uppi. En úr því að till. nú hefir sætt gagnrýni frá hv. þm. Borgf., skal ég með fám orðum gera grein fyrir, hvað fyrir okkur vakti með flutningi hennar.

Sú reynsla, sem fengin er af laxveiðilöggjöfinni frá 1932, er að vísu ekki löng. Ég hygg þó, að hún sé nægjanlega löng til að skera úr um það, að hún nái ekki þeim tilgangi, sem henni án efa var fyrst og fremst ætlað, sem sé að auka laxmergðina í ánum. Stafar þetta af því, að þó allmiklar hömlur séu lagðar á ósaveiðina, og yfirleitt á veiðina í stóránum, þá er á engan hátt girt fyrir, að laxinn sé óskynsamlega veiddur, þegar hann kemur upp í bergvatnsárnar, þar sem yfirleitt er auðveldast að ná honum. Í framkvæmdinni verða þær hömlur, sem á ádráttarveiðina eru lagðar, lítils eða einskis virði. Ef laxveiðilöggjöfin á að ná tilgangi sínum, þarf hún fyrst og fremst að uppfylla tvö skilyrði. Annarsvegar þarf hún að miða að því, að laxmergðin aukist í veiðiánum. Hinsvegar þarf hún að koma í veg fyrir, að óskynsamlegar veiðiaðferðir séu viðhafðar. Ef þetta hvorttveggja lánast, má telja alveg öruggt, að heildararður laxveiðanna gæti vaxið stórkostlega frá því, sem nú er.

Við hv. 4. landsk. erum þeirrar skoðunar, að líklegasta leiðin til þess, að þessu takmarki verði náð, sé sú, að flokka árnar og ákveða eitt skipti fyrir öll, hverja veiðiaðferð megi nota í hverjum flokki. Að okkar áliti er það aðallega tvennskonar veiðiaðferð, sem til greina kemur. Í stóránum, sérstaklega jökulánum, er vafalaust réttmætt að stunda veiði með netum eða girðingum. Sú veiði á að fara fram svo nærri ósunum, að laxinn sé óskemmd verzlunarvara og útflutningshæf. Í smáánum — bergvatnsánum — teljum við hinsvegar, að yfirleitt eigi ekki að nota aðra veiðiaðferð en stangarveiði.

Það á að reyna að láta löggjöfina miða að því, að það miklu af laxi sé sleppt upp í bergvatnsárnar, hvort sem þær renna í stórár eða til sjávar, að hægt verði að fá sæmilegt verð fyrir þær til stangarveiði. Það er sannfæring okkar flm., að með því að stunda veiðina á þennan tvennan hátt verði heildararðurinn af laxveiðinni miklu meiri heldur en hann er nú. Það er engin skynsemi í því að varna mönnum við ósana að veiða laxinn meðan hann er verðmæt verzlunarvara, ef svo er leyft að sópa honum upp úr bergvatnsánum með ádráttarnetum, þegar bann er orðinn mjög lítils virði. Þetta er svo slæm „Okonomi“, að það er ekki verjandi að láta löggjöfina styðja að því, að laxveiðin sé stunduð á þann hátt.

Það hefir komið í ljós alstaðar þar, sem laxveiði er stunduð af nokkurri skynsemi, að smáárnar gefa mestan orð með því að nota þær til stangarveiði, og það fæst mest fyrir laxinn, sem í þeim veiðist á þann hátt.

Hv. þm. Borgf. sagði, að menn væru að fá skilning á því, að stangarveiði mundi vera heppileg veiðiaðferð í bergvatnsánum. Það kann að vera, og væri óskandi, að skilningur manna væri að aukast í því efni, en sannast sagt hefir þessa skilnings lítið gætt í framkvæmdinni ennþá. Ég vil ekki segja, að hans hafi að engu gætt.

Það færi betur, að augu manna færu að opnast fyrir því, að það sé ekki rétt aðferð að draga laxinn upp úr ánum kolsvartan í september- eða októbermánuði. (JÁJ: Hvar gera þeir það?). Svo að segja um allt land. Það mætti t. d. spyrja hv. 1. þm. Árn., sem var að kveðja sér hljóðs, um það, hvort hann þekkti ekki til þess, að laxinn sé veiddur í septembermánuði. En ef skilningur manna er að vaxa á þessu, þá er heldur engin hætta að setja löggjöf, sem fer í þá átt, sem við hv. 4. landsk. höfum verið að stinga upp á.

Ég verð hinsvegar að segja það, að ég tek ekki hv. þm. Borgf. trúanlegan um það, að menn almennt séu að komast í skilning um það, að veiðin sé rekin á svo heimskulegan hátt, að naumast er samboðið menningarþjóð og verður að teljast hreinasti skrælingjaháttur.