08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (3303)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Mér sýnist eftir ræðu hv. form. Sjálfstfl. naumast tilefni fyrir mig að segja nokkuð um þetta. –Hann hóf ræðu sína og endaði hana með þeirri yfirlýsingu, að hann óskaði ekki eftir, að norsku samningunum væri sagt upp. Hann er form. fjölmennasta þingflokksins, flokks, sem á 20 sæti á Alþingi, þó ekki séu taldir með þeirra fylgifiskar, ef svo má segja.

Það liggur fyrir yfirlýsing um það frá Framsfl., að hann er á móti því, að samningnum sé sagt upp. Það er vitað, að Framsfl. hefir lagt svo mikla áherzlu á þetta mál, að það hefði valdið samvinnuslitum milli stjórnarflokkanna, ef það hefði verið sett fram gegn vilja þeirra framsóknarmanna, sem að stjórn standa, að segja samningnum upp. (PHalld: Það mátti ekki hugsa sér!).

Nú spyr ég: Getur nokkur hv. þm. hugsað sér það, að einn ráðh. af þremur leyfi sér að taka sér það vald að segja upp samningum við erlenda þjóð, samningum, sem hafa verið lögfestir af Alþingi, án þess að það sé vitað, að meiri hl. þings sé þeirri ráðstöfun fylgjandi? Ég vil fullyrða, að enginn ráðh. hefði gert það. Hv. þm. G.-K. orðaði það svo, að ég mundi sækjast svo mikið eftir sætleika valdanna, að ég af þeirri ástæðu kysi fremur að hanga í ráðherrastóli en að hegða mér eins og drenglyndur maður — skildist mér hann meina. En ég spyr hann: Hver væri bættari, þótt ég og Alþfl.menn aðrir hefðu neitað að taka sæti í stjórn, neitað að taka samvinnu við Framsfl. vegna þess að norsku samningunum var ekki sagt upp? (PHalld: Öll þjóðin). Það getur verið, að þeir líti svo á, sem fylla Sjálfstfl., af því að það hefði skapað möguleika fyrir þá til að taka völdin í sínar hendur, en ekki gátu þeir burt tekið það óhappaverk, sem gert var með samningunum, eftir yfirlýsingu Sjálfstfl. um það, að hann sé því andvígur, að þessum samningum sé sagt upp. Ég veit, að skoðun Alþfl. er óbreytt. Þegar samband var gert við Framsfl. og stjórnin var mynduð, þá var leitað samkomulags við Framsfl. um að segja samningunum upp, en um það náðist ekki samkomulag. Þegar leið á haustið 193.í og talað var um að ákveða, hvort samningunum skyldi sagt upp svo snemma, að við gætum losnað við Norðmenn á því ári, var komin fram yfirlýsing frá stjórn Framsfl. um það, að flokkurinn gæti ekki sætt sig við slíkar ráðstafanir og að þær hlytu að valda samvinnuslitum. Við þóttumst vita vilja Sjálfstfl. — mótflokksins —, og honum hefir nú verið lýst yfir af form. flokksins, svo þótt við hefðum slitið samvinnu við Framsókn, þá hefði engum verið gert gagn: það hefði aðeins verið til að skemmta skrattanum. Ekki hefði norsku samningunum verið sagt upp af þeim sökum, eftir yfirlýsingu form. Sjálfstfl. að dæma.

Ég er sömu skoðunar og ég var (PHalld: Um landráðin?), að það sé nauðsyn fyrir okkur, að norsku samningunum sé sagt upp, en það er engin trygging fyrir því, að það sé gert — nema síður sé —. ef Alþfl. af þeim sökum tekur sinn ráðh. úr stjórninni og skapar möguleika fyrir hv. þm. G.-K. eða aðra menn sama sinnis og hann til að taka við sama sæti og hann hafði í stjórninni.

Hv. 5. þm. Reykv. sagði margsinnis, að Alþfl. hefði tekið völdin í landinu og nú réði hann öllum málum. En hv. þm. ætti að vera þess minnugur, að þessi flokkur hefir ekki nema 10 þm. af 49 og ræður sem því svarar, og ekki meiru, og ræður aðeins í þeim málum, sem ágreiningur er um á milli Sjálfstfl. og Framsfl.

Ég skal bæta einu við þetta, sem lýtur að úrlausn málsins. Sú leið var að sjálfsögðu opin, að flytja till. á þingi um það, að norsku samningunum skyldi sagt upp. — Eins og ég sagði áðan, mundi engin stjórn hafa leyft sér að segja samningnum upp án þess að þekkja vilja meiri hl. þingsins. Sú leið var til fyrir okkur Alþýðuflokksmenn að leggja málið fyrir þing í tillöguformi. Um þetta var rætt og það athugað af okkur, og mér þykir rétt, úr því að umræður teygjast, að gera grein fyrir, hvernig þetta stendur.

Það er vitað, að Framsfl. er því andvígur, að samningnum sé sagt upp, og telur það mikið tap vegna kjötsölunnar. Ef þessi till. hefði verið borin fram og rædd hér á þingi, þá var tvennt til. Annað það, að till. hefði orðið samþ., en við þær umr. hefði komið fram, að allmikill hluti þm. lagði ákaflega mikið kapp á að halda tollkjörunum með því fyrirkomulagi, sem þau nú eru í Noregi, og þannig var orðin opinber afstaða þingsins og vitað um, hvernig þm. skiptust í þessu máli, og aðstaða okkar þá miklum mun erfiðari til að ganga til nýrra samninga. Þetta er í því tilfelli, að till. hefði fengizt samþ., en á því þóttu engar líkur. Enda eftir yfirlýsingu hv. form. Sjálfstfl. vitað, að slíkur meiri hl. var ekki til. Hitt var sennilegra, eins og fram hefir komið, að till. yrði drepin á þingi, og þar með fengin yfirlýsing til Norðmanna, í annað sinn, að meiri hl. Alþ. líti svo á, að þau fríðindi, sem þeir telja, að Íslendingum séu veitt með norsku samningunum, séu svo mikils virði, að hann telji ekki gerlegt að leggja þau í hættu. Í báðum tilfellum hlaut að fara svo, að afstaða okkar til að taka upp samninga við Norðmenn væri erfiðari eftir en áður.