08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í D-deild Alþingistíðinda. (3304)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Ólafur Thors:

Ég vil vekja athygli á því, hve ríka áherzlu hæstv. ráðh. leggur á það, hvað eftir annað, að ég hafi gefið yfirlýsingu fyrir Sjálfstfl. um afstöðu hans í þessu máli. Ég hefi ekkert sagt annað en það, að ég persónulega, sem gerði samninginn, er einhuga á móti því, að honum sé sagt upp, — ekki eitt einasta orð um það, hvorumegin flokkurinn er í þessu máli. Hér hefir annar hv. þm. úr Sjálfstfl. talað og lýst því yfir fyrir sitt leyti, að hann væri því mjög meðmæltur, að samningnum væri sagt upp, og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það eru mjög margir menn í Sjálfstfl., sem hafa sömu afstöðu. Það er því ekki hægt fyrir hæstv. ráðh. að hafa mín ummæli sér að skildi. Mér dettur ekki í hug að gefa yfirlýsingu f. h. Sjálfstfl. um það, að hann sé mótfallinn uppsögn þessa samnings, blátt áfram af því, að ég hefi ekki umboð til þess, og ég veit meira að segja, að ýmsir innan flokksins vilja láta segja samningnum upp, jafnvel sumir þeirra, sem á sínum tíma voru honum samþykkir, m. a. af því, að þau fríðindi, sem Íslendingar öðluðust með samningnum, eru nú miklu minni en þau voru þegar samningurinn var gerður. Líka er það kunnugt, að Þjóðverjar hafa gert kröfu á hendur Íslendingum í skjóli þess, að Norðmenn hefðu með þessum samningi meiri rétt en þeir. Þetta nægir til þess, að ýmsir sjálfstæðismenn, sem áður voru því samþykkir, að samningurinn væri gerður, eru nú með því, að samningnum verði sagt upp. Hæstv. ráðh. verður því að fara eitthvað annað til þess að leita sjálfum sér og sinni fortíð og sinn ömurlega ástandi skjóls heldur en í mínum ummælum og afstöðu Sjálfstfl.

Ég lýsi því yfir skýrt og skorinort, að enda þótt ég persónulega sé mótfallinn uppsögn samningsins, þá er mér kunnugt um marga þm. innan Sjálfstfl., sem eru samþ. því, að samningnum sé sagt upp. Hæstv. ráðh. segir út frá þessum röngu forsendum — og við skulum hugsa okkur eitt augnablik, að þær séu réttar —, að Sjálfstfl. sem heild sé á móti samningnum, og Framsfl. sé það einnig. Hæstv. ráðh. segir, að enginn ráðh. geti tekið sér vald til að segja upp milliríkjasamningi, ef meiri hl. þings sé á móti því. Ég álít líka, að það sé tæplega hægt, en ef hæstv. ráðh. hefir nokkuð meint með öllum sínum fyrri stóryrðum um þennan samning, þá á hann að bera fram till. um að segja upp þessum landráðasamningi, sem hann nefnir svo, og ef sú till. verður ekki samþ., þá á hann að fara. Það er ekkert þingræðislegt velsæmi að sitja í ráðherrastóli og láta vera í gildi landráðasamning, þar sem hagsmunir Íslendinga hafa verið ofurseldir erlendri þjóð, og síðan vegna þessa samnings afhenda annari miklu stærri þjóð samskonar hagsmuni, þegar þar á ofan þau fríðindi, sem Íslendingar fá eftir þessum samningi, eru miklu minni en áður. Hafi hann nokkuð meint með sínum fyrri fullyrðingum, á hann að leita heimildar Alþingis um að fá samningnum sagt upp. Fái hann ekki þá heimild, á hann að fara úr ráðherrastólnum. Það er ekki nema eðlilegt, að þegar tveir flokkar vinna saman, þurfi þeir oft að beygja sig til samkomulags. En hér er ekki um neitt smámál að ræða, heldur blátt áfram landráð. Og þegar annarsvegar standa bændur, sem að dómi formanns Alþfl. kæra sig ekki um samninginn, og hinsvegar standa þeir, sem telja samninginn landráð, þá sé ég ekki, að hæstv. ráðh. geti sóma síns vegna setið í ráðherrastóli án þess svo mikið sem reyna til þess að fá heimild Alþingis til að segja honum upp. Einhversstaðar verður að draga markalínuna. Það er ekki hægt að vera pólitísk lausaleikskona til þess eins að geta búið í valdasessinum með öðrum flokki, og ætla þó að halda sinni pólitísku virðingu. Það er ómögulegt. Og þetta mál er þannig vaxið og eins og hæstv. ráðh. og flokkur hans hafa talað um það, að þar er ekki nema um tvennt að ræða: Annaðhvort að lýsa því yfir, að hann hafi ekkert meint með öllum sínum fyrri fullyrðingum, eða að taka afleiðingunum af sínum orðum, bera fram till. um að segja upp samningnum og segja af sér, ef till. yrði ekki samþ.

Hæstv. ráðh. spyr: Hverju er bættara, þó að ég, Haraldur Guðmundsson, neiti að vera í stj. með framsóknarmönnum, ef norska samningnum verður ekki sagt upp? Ég er a. m. k. sjálfur alveg viss um, að hann veit það sjálfur. Ég leyfi mér að staðhæfa, að hann væri miklu betur kominn, ef hann gerði það að fráfararatriði úr ráðherrastólnum, ef samningnum fengist ekki sagt upp. Og ef við í alvöru hugleiðum líkurnar fyrir því, hvaða afleiðingar slík framkoma hæstv. ráðh. hefði haft á Framsfl., þá er alveg útilokað, að niðurstaðan af þessum kröfum hæstv. ráðh. hefði getað orðið meiri. Ég fullyrði það, og ég veit, að allir hv. þdm. samsinna það með mér, að ef hæstv. ráðh. hefði staðið upp og sagt: Ég get ekki æru minnar og sóma míns vegna unnið með ykkur framsóknarmönnum, ef þið neitið mér um heimild til að segja þessum samningi upp, — þá er ég í engum vafa um, að í dag hefði Framsfl. fremur gengið inn á þetta en að slíta samvinnunni. Það hljóta allir að skilja, að það hefði verið auðveldari aðstaða fyrir Framsfl. til að beygja sig heldur en fyrir hæstv. ráðh. Annarsvegar verður hæstv. ráðh. að fórna því, sem hann hefir talið landráð. Hann verður með þögn og athafnaleysi að sætta sig við, að íslenzk þjóðréttindi séu ofurseld stórveldi ofan á það, sem gert hefir verið með norska samningnum, og hann verður með athafnaleysi að sætta sig við það, að til þess að viðhalda þessari samvinnu stjórnarflokkanna verði hann sem ráðh. að svipta óteljandi verkamenn atvinnu. Þetta er það hlutverk, sem hæstv. ráðh. ætlar að sætta sig við. Það er ekki björgulegt hlutverk.

Á hinn bóginn standa svo kröfur Framsfl., að bændur verði ekki sviptir þeim fríðindum, sem þeir fá með þessum samningi, sem eru í ár ekki meiri en það, að mega selja í Noregi 6000 kjöttunnur, að mig minnir, en skal þó ekki fullyrða það. En þegar hæstv. ráðh. barðist fastast á móti þessum samningi, voru fríðindin þó það mikil, að heimilt var að selja 13500 frekar en 15000 tunnur. Hljóta allir að sjá, að þótt ég fyrir mitt leyti sé í engum vafa um, að ekki sé ástæða til að fara fram á að svipta bændur þessum fríðindum, að jafnvel sá hluti stj., sem læzt vilja bera hagsmuni bænda fyrir brjósti, á miklu auðveldara með að ganga að því að afsala bændum þessum fríðindum heldur en hæstv. ráðh. og flokkur hans á með að renna niður öllum sínum fullyrðingum um landráð og atvinnusviptingu til handa óteljandi verkamönnum á þessu landi.

Það er sama, hvernig þessu er velt fyrir sér og frá hvaða sjónarmiði það er skoðað; það er ómögulegt að finna nein frambærileg rök til að leiða svo mikið sem líkur að því, að það geti sameinazt pólitísku velsæmi að breyta eins og hæstv. ráðh. gerir og halda því jafnframt fram, að hann hafi meint eitthvað með því, sem hann sagði á þinginu 1933. Það er ómögulegt.

Ég vil að lokum segja það, að hæstv. ráðh. hefir ekki í mínum orðum neina vissu, hann hefir ekki einu sinni allra minnstu líkur fyrir því, að Sjálfstfl. sem heild standi gegn uppsögn þessa samnings. Ég hefi meira að segja persónulega ekki sagt annað en að ég sé andvígur því, að samningnum sé sagt upp, en ég hefi ekki sagt það, sem hæstv. ráðh. vildi láta skína í, að ekki einu sinni menn í Sjálfstfl., heldur flokkurinn í heild legði ákaflega ríka áherzlu á, að samningurinn væri látinn haldast í gildi framvegis. Ég, sem átti þátt í, að samningurinn var gerður, og taldi rétt að gera hann, þegar við fengum þar með leyfi til þess að selja 13500 kjöttunnur í Noregi, ég er ekki viss um, að ég hefði verið með því, ef fríðindin okkur til handa hefðu verið aðeins leyfi til að selja 6000 kjöttunnur, eins og það er nú. Og þó að ég telji ekki rétt að segja samningnum upp, þá tel ég samt fjarstæðu að leggja ákaflega ríka áherzlu á, að það sé ekki gert.

Hæstv. ráðh. verður að álykta út frá því, að innan Sjálfstfl. sé nokkuð stór hópur, — ég viðurkenni, að mér er persónulega ekki kunnugt um, hvað stór hann er, því að það hefir ekki verið leitað atkv. um það innan Sjálfstfl., en tvímælalaust eru þar allmargir þm., sem vilja, að samningnum sé sagt upp, og mér er ekki kunnugt um neinn þm. innan flokksins, sem leggur ákaflega ríka áherzlu á, að samningnum sé ekki sagt upp, — og út frá því verður hæstv. ráðh. að álykta, og ef hann tekur til máls oftar, verður hann að reyna að þvo hendur sínar. Hann getur reynt að gera það, en hann getur aldrei gert það. Hann getur aldrei komizt framhjá þessu máli þannig, að hann verði ekki annaðhvort að neita fortíð sinni eða nútíð.