08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í D-deild Alþingistíðinda. (3306)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Ólafur Thors:

Ég get að mestu leyti látið nægja að vísa til þess, sem ég hefi áður sagt, því að eftir mínum skilningi hefir hæstv. ráðh. eiginlega ekki gert tilraun til að vísa á bug þeim meginárásum, sem ég hefi gert á hann í þessu máli. Það stendur óhaggað, að ef hæstv. ráðh. hefir meint eitthvað með sínum fyrri fullyrðingum, þá ber honum að leita álits þingsins um, hvort hann mætti segja upp þeim samningi, sem hann hvað eftir annað hefir kallað landráðasamning.

Hann hefir skýrt frá því, að Framsfl. hafi gert honum þau ófrávíkjanlegu skilyrði fyrir því, að hann fengi að sitja í stj., að samningnum yrði ekki sagt upp. Mér dettur ekki í hug að véfengja það, sem hæstv. ráðh. segir um það, en sé svo, þá er hæstv. ráðh. lítilþægari í þeim kröfum, sem hann gerir, heldur en Framsfl. Ég sýndi fram á það í ræðu minni áðan, að annarsvegar væri um að ræða fríðindi bændum til handa, fríðindi, sem ég tel nokkurs virði, en þeir gætu vel verið án, a. m. k. ef eitthvað er til í því, sem form. Alþfl. sagði 1933, að bændur kærðu sig alls ekki um þetta, en hinsvegar er um það að ræða, hvort hæstv. ráðh. telur sig geta hafzt við í ráðherrastólnum vitandi það, að hann samkv. embættisskyldu sinni á að segja upp þeim samningi, sem hann hefir talið landráðasamning, og vitandi það, að með hverju ári, sem líður, verður þessi samningur minna virði en hann var, þegar hæstv. ráðh. réðst á hann og var að sýna fram á, hversu stórhættulegur hann væri Íslendingum.

Mér dettur ekki í hug að andmæla því, að Framsfl. hafi gert þessa kröfu á hendur hæstv. ráðh., en það er þá af því, að Framsfl. metur metorðagirnd og sómatilfinningu hæstv. ráðh. nægilega hátt. Ég ætla að vísu ekki að skrá þessa sómatilfinningu í gullgengi, en mér þætti hart í hans sporum að láta minn samvinnuflokk hér á þingi setja mér þau skilyrði, sem fullkomleg, blettuðu mig sem stjórnmálamann. Það er ómögulegt að komast undan því, að það er ákaflega leiður blettur á hæstv. ráðh. og hans flokki, sérstaklega þó form. flokksins og hv. 2. þm. Reykv., — það er ákaflega leiður blettur, sem hann setur á hann með því að krefjast þess, að hann segi ekki upp þessum samningi.

Ég efa ekki, að fjöldi laga er í gildi, sem Alþfl. er andvígur og vill fá numin úr gildi, en það fer saman við það, sem ég hefi sagt, að ég tel, að hæstv. ráðh. sé vel vært í ráðherrasæti og flokknum í valdasæti, þó að þeir geti ekki einir öllu ráðið um löggjöf þá, sem sett er undir sameiginlegri stj. þessara tveggja flokka. En einhversstaðar verður að draga línuna, og mér er ómögulegt að skilja, að hann þurfi að neita sér um að losa þjóðina við samning, sem hann vill telja landráðasamning. Mér er ómögulegt að skilja, að það sé hægt fyrir stjórnmálaflokk, sem leggur nokkuð upp úr velsæmi og virðingu, að sætta sig við slíkt. Ég skil það ekki.

Ég mun ekki — enda hefi ég ekki rétt til þess — fara fleiri orðum um þetta mál, nema sérstakt tilefni gefist til þess, en ég vil ljúka mínu máli með því, að ég kýs mér ekki hlutskipti hæstv. ráðh. í þessu máli, og ég hefði satt að segja, þrátt fyrir ósanngjarna framkomu hans í þessu máli, unnað honum skárra hlutskiptis en þessa.