08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (3309)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég hefi engu við það að bæta, sem hæstv. fjmrh. sagði um afstöðu Framsfl. til samningsins. Sú samþykkt, sem Framsfl. gerði á síðasta hausti, er bundin við þann tíma, en ekki gerð til lengri tíma, svo það er enn alveg óvíst, hvað gert verður fyrir lok næstk. nóvembermánaðar.

Sjálfstæðismenn mega bera mér á brýn yfirlæti, yfirdrepskap og metorðagirnd; ég tek mér það ekki nærri. Það er svo um þessa menn, að ég tel mér meiri feng í lasti þeirra en lofi.

Að því er ummæli mín um samninginn snertir get ég vísað til fyrri ummæla minna nú. En vilji hv. 6. þm. Reykv. og aðrir flokksbræður hans vita dóm fleiri manna um þennan samning, þá er gott fyrir hann að lesa ræðu þá, sem Jón Þorláksson, fyrrv. form. Sjálfstæðisfl., flutti í Ed. þegar hann var þar til umræðu. Þótt hv. þm. leggi ekki mikið upp úr orðum okkar Alþýðuflokksmanna, þá ætti hann að telja ummæli þessa manns nokkurs virði, og í þessari ræðu getur hann séð dóm um störf þeirra manna, sem að samningnum stóðu.