08.05.1936
Neðri deild: 68. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 222 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

116. mál, uppsögn viðskiptasamnings við Noreg

*Pétur Halldórsson:

Mér skildist á hæstv. atvmrh., að hann þættist frá sæti sínu vera að gefa yfirlýsingu um það fyrir Sjálfstfl., að meiri hl. hans mundi óska eftir því, að samningnum væri ekki sagt upp. Mér finnst ekki, að hann geti borið neitt slíkt fyrir sig. Hann er enginn framkvæmdarstjóri fyrir Sjálfstfl., og það er þess vegna engin ástæða til þess fyrir hann að bera fram afstöðu þess flokks. Það, sem hæstv. ráðh. hefir hér til að glíma við, er hans eigin fortíð, sem ætti að gera honum ósætt í því sæti, sem hann nú er í. Það dugir ekkert að tala um, að meiri hl. þings vilji, að samningarnir gildi áfram, enda ekkert um það vitað.

Hann tekur við stjórn á þeim grundvelli, að sá samningur var gildandi, sem hann hafði kallað landráðasamning, og hann hafði nítt svo þá menn, sem að þessum samningi stóðu, að það vakti furðu. Það er þess vegna enn furðulegra, að hann skuli nú ekki gera allt, sem í hans valdi stendur, til þess að losa þjóðina við þennan landráðasamning, án tillits til meiri hl. þings. Þegar hæstv. ráðh. ber það fram sem afsökum í þessu máli, að samvinnuflokkur þeirra vilji engu breyta, þá er það algerlega fánýtt, vegna þeirra stóru orða, sem hann og flokksmenn hans höfðu áður um þetta mál.

Þegar hæstv. ráðh. segir, að það sé til margskonar löggjöf í landinu, sem hann vildi hrinda, ef hann fengi að ráða, þá má benda honum á, að mikið af þeirri löggjöf, sem sett hefir verið nú á síðustu árum, er sett í anda sósíalista, og mun mörgum finnast svo, að það séu sósíalistar, sem hafi farið með völdin í landinu, og að þeir hafi komið í gegn lögum, sem Framsfl. þó var andvígur. Það er þess vegna fánýtt að bera það fyrir sig, að samstarfsflokkurinn hafi ekki viljað fylgja þeim að þessu máli. Eins og þeir hafa getað þröngvað Framsókn til að veita sér lið til að koma á þeirri sósíalistísku löggjöf, sem sett hefir verið síðan þessi samsteypustj. tók völd, eins, og engu síður, hefðu þeir getað þröngvað þeim til samvinnu um að segja upp þessum landráðasamningi, sem þeir nefndu svo, ef þeir hefðu lagt kapp á það. Þetta eru því allt fánýtar viðbárur, og það er sýnt og sannað, að hæstv. ráðh. og hans flokksbræður hafa með framkvæmdum sínum — eða framkvæmdaleysi — á þeim árum, sem þeir nú hafa setið að völdum, afsannað það, að nokkur alvara hafi fylgt ummælum þeirra um norsku samningana, þegar þeir voru gerðir. Þess vegna væri hæstv. ráðh. nú rétt að gera bót þeim mönnum, sem hann réðst að og níddi, og viðurkenna nú, að allt það, sem hann þá sagði, hefði verið rangmæli og pólitísk ofsókn.

Ég hefi ekki lýst afstöðu minni til samninganna og sé enga ástæðu til að gera það. En mér finnst þetta sérstaklega greinilegt dæmi um það, hve lítil sannfæring og alvara er á bak við stóryrði og illyrði þessara manna. Það mætti ætla, að sá flokkur, sem hefir talað svo hátt, mundi ekki bregðast, þegar hann kemst í valdaaðstöðu. En það hefir nú sannazt í þessu máli, að þeir hafa etið ofan í sig öll stóru orðin, og það mun sannast á fleiri sviðum, og því gleggra sem lengur líður.