19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 1463 í B-deild Alþingistíðinda. (3315)

1. mál, fjárlög 1937

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég hefi ekki nema 15 mínútna ræðutíma og get því ekki svarað nema litlu af því, sem fram hefir komið í ræðum hv. stjórnarandstæðinga. Ég ætla að byrja á að svara nokkrum atriðum í ræðu síðasta ræðumanns. hv. 10. landsk. Hann valdi sér það hlutskipti, sem honum var líkast, að flytja eina þá óheiðarlegustu ræðu, sem ég hefi heyrt fram koma innan þessara veggja. Hv. þm. vildi láta líta svo út og var að læða um það dylgjum til útvarpshlustenda, að aðstaðan til áfengismálanna skipti stefnum á milli stjórnmálaflokkanna í landinu. — að stjórnarflokkarnir hefðu innleitt sterku drykkina í landið og vildu ausa brennivíni til almennings, en andstöðuflokkar stjórnarinnar hefðu verið því andvígir. Ég hygg, að það verði tæplega lengra komizt í fláttskap í málaflutningi en hér er gert.

Eins og allir vita, þá voru bannlögin afnumin samkv. þjóðaratkvæðagreiðslu og sterku drykkjunum veitt inn í landið. Og hafi sá meiri hl. kjósenda, sem ákvað að gera þetta, tilheyrt einhverri sérstakri pólitískri stefnu annari fremur, þá hefir hann að miklu leyti verið skipaður úr andstöðuflokkum stjórnarinnar. Mér er ekki heldur kunnugt um, að hv. 10. landsk. hafi, þegar hann var í stjórninni, klígjað við að taka á móti tekjum of ágóða áfengiseinkasölunnar, heldur þvert á móti, þó að hann fyllist nú heilagri vandlætingu og ætli næstum því að tapa sér af reiði og öfundsýki út af því, að fjárhagsútkoma ríkissjóðs skuli þó vera eins góð og ég lýsti eftir síðastl. ár.

Þá fjasaði hv. þm. mikið um það, að fjárlagafrv. væri nú stórum hærra en áður. En af hverju stafar það? Vill hv. þm. halda því fram, að það sé vegna aukinnar eyðslu við rekstur ríkisins, og að framlög til verklegra framkvæmda séu nú minni en áður, þegar hann var í stjórninni? Hann var eitthvað að dylgja um, að framlög til verklegra framkvæmd, væru nú lækkuð í þessu fjárlagafrv. Þannig er málflutningur þeirra manna, sem byggjast að fleyta sér á blekkingunum.

Í fyrri hluta ræðu sinnar réðst hv. þm. á stjórnina fyrir það, að í fjárlagafrv. væru lækkuð framlög til verklegra framkvæmda, en síðar í ræðu sinni ásakar hann stjórnina fyrir, að hún hafi ekki lækkað útgjöld ríkissjóðs. En hvaða gjaldaliði vill hv. þm. lækka? Hann hefir ekki getað bent á nokkurn lið í útgjöldum ríkissjóðs, sem fært væri að lækka. — Andstöðuflokkar stj. hafa aldrei borið fram nýtilega till. um lækkun á beinum rekstrarkostnaði ríkisins. Ágreiningurinn er ekki um það, hvort fé ríkissjóðs skuli varið í sukk og óþarfa, heldur um hitt, hversu mikið skuli veitt til verklegra framkvæmda.

Hv. 10. landsk. sagði — og lagði áherzlu á orðin —, að ríkisstj. hefði tekizt að „skríða yfir metið“. En af hverju eru útgjöld fjárlagafrv. hærri nú en á síðustu fjárl.? Meðal annars og einkum fyrir það, að þessi hv. þm. tók, þegar hann var í stjórninni, stórlán til akvega og brúargerða, án þess að fyrir því væri séð, hvernig þau yrðu greidd. Vegna afborgana af þessum lánum varð eigi hjá því komizt að hækka útgjaldaáætlunina. Á fjárlagafrv. hefir því orðið að áætla 230 þús. krónur til afborgunar á þessum lánum, en þeirri upphæð hefði annars mátt bæta við framlög til verklegra framkvæmda, ef hv. 10. landsk. hefði ekki verið búinn að taka þessi lán. Og svo leyfir þessi hv. þm. sér að koma hér fram með ásakanir til stj. fyrir það, að hún skuli gera ráðstafanir til að greiða þær skuldir, sem hann hafði sjálfur til stofnað sem ráðherra.

Þá var hv. þm. V.-Húnv. að finna að fjár lagafrv. og saknaði þar m. a. 3000 kr. tillags til Vesturhópsvegar. Ég býst ekki við, að hv. þm. verði nein skotaskuld að bæta úr því; hann hefir áður gert „kontant“-verzlun við sósíalista um þann veg, og geri ég ráð fyrir, að hann víli ekki fyrir sér að reyna það aftur.

Ég vil þá víkja nokkrum orðum að hv. 1. þm. Skagf. Hann hélt því fram, að hækkun sú, sem orðið hefir á tekju- og eignarskattinum, kæmi eingöngu niður á atvinnuvegunum. En þetta er algerlega rangt hjá hv. þm. Ágreiningurinn á milli flokkanna í skattamálum er um það, að hve miklu leyti eigi að afla ríkissjóði tekna með beinum sköttum og hvernig beri að leggja, þá á skattþegna ríkisins. Ég álít, að stefna stjórnarflokkanna í því efni sé heppilegri fyrir framleiðendur í landinu heldur en stefna stjórnarandstæðinga.

Hv. þm. sagði, að skattahækkunin kæmi öll að lokum niður á framleiðslunni; en það er ekkert annað en blekking. Skattar koma niður á öllum landsmönnum yfirleitt, og ekki síður á þá, sem búa í kaupstöðum, en hina, sem í sveitum búa. Eða dettur nokkrum manni í hug, að hækkunin á tekjuskattinum, sem lendir einkum á launamönnunum í landinu, komi tilfinnanlega niður á bændum? Það er algerlega rangt hjá hv. þm., að hækkun tekjuskattsins komi niður á framleiðendum, eins og högum þeirra er nú háttað hér á landi.

Þá talaði hv. 1. þm. Skagf. um það, að útgjaldahlið fjárl. færi sífellt hækkandi. En það var mjög eftirtektarvert, að hann gekk algerlega framhjá þeim upplýsingum, sem ég gaf til samanburðar um meðaltal á niðurstöðum landsreikninganna og áætlun fjárlaga síðastl. 5 ár. En samkv. þeim samanburði er gjaldaáætlun fjárlagafrv. ekki hærri en útgjöldin hafa orðið til jafnaðar á þessum árum. Hv. þm. sneiðir algerlega hjá þessu, en ber þetta fjárlagafrv. hinsvegar saman við fjárlagafrumvörp fyrri ára. Slíkur samanburður á engan rétt á sér, því að í fjárlagafrumvörpum fyrir árin 1936 og 1937 eru hinar ólögbundnu greiðslur ríkissjóðs áreiðanlega ríflegar áætlaðar og nær því raunverulega en áður tíðkaðist. Og það verða mér mikil vonbrigði, ef mismunur á fjárlögum og landsreikningi reynist ekki til muna minni nú en áður. Ég vil því skjóta því til hv. þm., að hann láti þennan samanburð sinn bíða þangað til reynslan hefir skorið úr í þessu efni. Annars legg ég ekki mikið upp úr því, sem hv. þm. sagði um það, að útgjöld fjárlagafrv. væru áætluð 15,4 millj. kr., því að þar telur hann með 1 millj. kr. rekstrarhagnað, sem færður er með gjöldum. Meðan hv. þm. vandar ekki málflutning sinn betur en svo, að hann álítur það boðlegt útvarpshlustendum að telja rekstrarhagnaðinn á fjárlagafrv. 1937 með útgjöldum, þá getur hann ekki vænzt þess að vera tekinn alvarlega af þeim, sem hafa lesið frv.

Hv. þm. talaði mikið um, að starf innflutnings- og gjaldeyrisnefndar hefði ekki borið mikinn árangur, þar sem vöruinnflutningur á árinn 1935 hefði orðið nokkru meiri en 1932. Það er að vísu rétt, að innflutningurinn var meiri síðastl. ár, en það raskar ekki því, sem ég hefi haldið fram, að árangur innflutningshaftanna síðastl. ár var góður. Það er ekki sanngjarnt að bera saman vöruinnflutninginn 1935 og l932. vegna þess að í ársbyrjun 1932 voru margfalt meiri vörubirgðir í landinu heldur en í ársbyrjun 1935. Af þeirri ástæðu var miklu auðveldara að draga úr innflutningnum 1932. — Í öðru lagi verður að benda á það, sem síðar gefst kostur á að upplýsa nánar, að innflutningur á vélum til iðnaðar og atvinnufyrirtækja og byggingarefni hefir farið ört vaxandi síðan 1932. Þess vegna þurfti nú miklu meira átak til þess að halda vöruinnflutningnum niðri síðastl. ár til jafns við það, sem hann var 1932 og 1933. Auk þess er vöruverðið á erlendum markaði hærra nú en þá, m. a. af því, að við erum nú neyddir með samningum til þess að kaupa vörur frá Miðjarðarhafslöndunum með óhagstæðum kjörum.

Þá vildi hv. 1. þm. Skagf. færast undan því að bera ábyrgð á afkomu ársins 1934, og hélt því fram, að núv. stjórn bæri ábyrgð á því ári. Ég ætla ekki að fara langt út í að svara honum nú, en ég vil þó benda á, að þetta er ekki rétt. Þó að núv. stjórn. eins og ég sýndi fram á í síðustu fjárlagaræðu minni, beri ábyrgð á vissum liðum landsreikningsins 1934, raskar það í engu því, sem ég sagði áðan. Það er vitanlegt, að í byrjun árs eru jafnan ráðin þau ráð, sem mest áhrif hafa á fjárhagsafkomu ársins. Ég held, að engum hafi dottið í hug að neita því, að íhaldsstjórnin hafi borið ábyrgð á fjárhag ríkisins árið 1927. — Að vísu legg ég ekki mikið kapp á að þræta um þetta, en vil aðeins benda á, að það er rétt að gera samanburð við árið 1934. Þá sést, hvernig fjárhagsafkoman og viðskiptajöfnuðurinn var í ársbyrjun 1935, og hversu miklu hefir verið áorkað um takmörkun innflutnings á því ári.