22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 380 í B-deild Alþingistíðinda. (346)

21. mál, botnvörpuveiðar

*Pétur Ottesen:

Ég vildi gera þá fyrirspurn til hv. flm., hvort þær kampalampaveiðar eða rækjuveiðar, sem byrjað var á hér á síðastliðnu ári, hafa ekki verið stundaðar með slíkri botnvörpu, sem hér er um að ræða, og hvort nokkuð hefir verið gert af hálfu þeirra stjórnarvalda, sem líta eiga eftir, að lögunum sé framfylgt, til þess að stöðva þessar veiðar, því ef þær koma í bága við gildandi lög, virðist hér hafa verið um lagabrot að ræða, og finnst mér ástæðulaust að fara til Alþingis með þetta mál áður heldur en fengizt hefir úr því skorið, hvort svo sé. Hafi veiðin verið framkvæmd á þann hátt, sem meiningin er eftirleiðis, virðist yfirvaldið á staðnum a. m. k. álíta, að hún komi ekki í bága við l. um bann gegn botnvörpuveiði, því ella hefði hann gert ráðstafanir til að hefta það, að l. væru brotin á þann hátt.

Um gagnsemina af notkun þessarar vörpu eða þau áhrif, sem hún kann að hafa gagnvart öðrum fiski, og þá sérstaklega ungviði nytjafiskjarins, skal ég náttúrlega ekkert segja. Hv. flm. frv. minntist á álit fiskifræðinga í því efni og að þeir litu svo á, að af þessu gæti engin hætta stafað fyrir nytjafiskana eða ungviði þeirra. Nú er það alkunnugt hér á landi, að a. m. k. álit annars af þeim tveimur fiskifræðingum sem hér hafa fengið viðurkenningu sem slíkir, að því, er snertir notkun hinna alkunnu dragnóta hefir rekizt ákaflega ónotalega á við álit sjómanna víðsvegar með ströndum landsins, sem byggt er á reynslu þeirra í þessu efni um langt skeið. En ég þekki ekkert það veiðarfæri, sem hér er um að ræða, og skal engan dóm á það leggja. Að sjálfsögðu gerir n., sem fær þetta mál til meðferðar, sér fulla grein fyrir því, hvort hér er um árekstur við l. um bann gegn botnvörpuveiðum að ræða, og ef svo álízt vera, hvort af notkun þessa veiðarfæris getur ekki stafað nein hætta fyrir ungviði nytjafiskjarins. Ef hér er um að ræða atvinnurekstur, sem getur fært landsmönnum nokkrar tekjur, þá er sjálfsagt að hlynna að því á allan hátt, en þó svo, að ekki sé fyrirfarið e. t. v. öðru eins eða meira verðmæti heldur en menn geta gert sér vonir um að fá í aðra hönd.