22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

21. mál, botnvörpuveiðar

Flm. (Finnur Jónsson):

Ég get fullvissað hv. þm. Borgf. um það, að ég hefi engu síður en hann mikinn áhuga fyrir því, að landhelgin sé varin og friðaður þar sá nytjafiskur, sem þjóðin hingað til hefir haft sína aðalatvinnu af. Hinsvegar vil ég ekki loka augunum fyrir þörfinni á að koma hér á ýmiskonar nýbreytni í veiðiskap. Ég tók það fram í upphafi, að ég væri í rauninni ekki viss um, hvort ástæða væri til að flytja þetta frv., en ég taldi fulla nauðsyn á að fá úr því skorið af Alþingi, og í þeim tilgangi er frv. flutt. Ég væri alveg jafnánægður með það, ef Alþingi gerði ályktun um, að þessi veiði kæmi ekki í bága við l. um bann gegn botnvörpuveiði, eins og að fá undanþáguna samþykkta. En hvort sem heldur er, tel ég mjög mikla nauðsyn á að fá úr þessu skorið, þannig að þeir, sem veiði þessa stunda, geti gert það í fullu öryggi, án þess að eiga á hættu að málaferli verði úr. Ég skal taka það fram, að sú tilraun, sem búið er að gera með þessa veiði, fór fram innfirðis, á firði, sem gengur inn úr Ísafjarðardjúpi, þar sem enginn annar veiðiskapur er stundaður. Eftir þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið hér við land, eru þessar skepnur víða við strendurnar, m. a. í firði einum hér nærlendis, þar sem ég veit ekki til, að neinn veiðiskapur sé stundaður, Hvalfirði. Væri ekki óhugsandi, ef hv. d. sýndist svo, að binda þessa undanþágu við einhver viss svæði og vissa stærð báta.

Ég hefi hér fyrir mér álit fiskifræðingsins dr. Hjort í Norsk fiskeritidende 1929, þar sem hann fullyrðir, að þessi veiðarfæri geti alls ekki spillt annari fiskveiði. Ég veit, að hv. þm. Borgf. telur sig mjög fróðan í öllu, sem að fiskveiðum lýtur, og að álit hans á þeim efnum kemur að mörgu leyti í bága við skoðanir annara fiskifræðinga. En meðan hann ekki sýnir yfirburði sína yfir þá fiskifræðinga, sem hann greinir á við, verð ég að leyfa mér að leggja meira upp úr því, sem þeir segja um þessi efni, heldur en hann.

Ég sé ekki ástæðu til að vekja sérstakar deilur um þetta mál nú; það gefst væntanlega tími til að ræða það nánar við 2. og 3. umr. Vil ég aðeins endurtaka þá ósk, að frv. verði vísað til sjútvn. Ég álit hér um merkilegt mál að ræða, sem geti orðið mörgum sjómönnum og smábátaeigendum til hagsbóta.