19.02.1936
Sameinað þing: 3. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, fjárlög 1937

Magnús Guðmundsson:

Eins og nærri má geta, dettur mér ekki í hug á þeim hálftíma, sem ég hefi til umráða, að gagnrýna í öllum atriðum ræðu þá, sem hæstv. fjmrh. nú flutti.

Hún var, eins og ræður um þetta efni hljóta að vera, með fjölda talna, sem engin leið er að festa sér í minni til hlítar, þótt maður heyri þær lesnar upp einu sinni í flýti.

Það, sem ég ætla mér að gera í þetta skipti. er að leiða athygli í stórum dráttum að fjármálastefnu hæstv. stj., eins og hún kemur mér fyrir sjónir.

Þetta fjárlfrv. fyrir árið 1937, sem hér liggur fyrir, er 3. fjárlfrv., er núverandi hæstv. fjm.-rh., leggur fyrir Alþingi. Hið fyrsta þeirra var fyrir árið 1935 og þá voru áætlaðar 12,5 millj. kr. til rekstrarútgjalda ríkisins, annað þeirra frumv. var fyrir árið 1936, og þá áætlaði hæstv. ráðh. þessi gjöld um 13.8 millj. kr., hið þriðja er það frumv., sem hér er til meðferðar fyrir árið 1937. Í því gerir ráðh. ráð fyrir rekstrarútgjöldum að upphæð um 15,4 millj., að meðtöldum rekstrarafgangi, sem ég nefni síðar. Í fjárlagafrv. fyrrv. stj. fyrir árið 1934 voru þessi gjöld áætluð hér um bil11,3 millj. kr. Hækkun rekstrarútgjaldanna eftir áætlunum í þingbyrjun hefir því síðan hæstv. núv. stj. tók við orðið sem næst 4,1 millj. kr. eða um 40 kr. á hvert mannsbarn í landinu, að meðtöldu barninu í vöggunni og öldungnum á grafarbakkanum. Þetta verða um 200 kr. á 5 manna fjölskyldu. Þar við bætast svo stórkostlegu aukin gjöld almennings til bæjar- og sveitarþarfa. Útsvörin alls á landinu munu vera upp undir 7 millj. kr. Öll útgjöld til hins opinbera munu ekki vera mikið undir 25 millj. kr. á ári, eða að meðaltoll yfir 700 kr. á 5 manna fjölskyldu.

Nú er það vitað og viðurkennt að að lokum verður framleiðsla landsmanna að greiða þessa háu fjárhæð, ef ekki á að eyða af höfuðstóli eða stofna skuldir. Að sönnu er mikið af þessum gjöldum lagt á ýmsa, sem ekki framleiða neitt. en peningarnir, sem þeir borga með, hljóta beinlínis eða eftir krókaleiðum að vera komnir frá framleiðslu landsmanna, eða þeir eru teknir af eignum gjaldanda, eignum, sem hafa skapazt af óeyddum arði af framleiðslu fyrri ára.

Ef það nú er haft í huga, að framleiðsla í einhverri mynd, framleiðsla fyrri ára eða framleiðsla hvers yfirstandandi árs, verður að standa undir skattþunganum, þá blasir sú spurning við, hvort framleiðsla landsmanna þoli þennan þunga allan, eða með öðrum orðum: Eru atvinnuvegir landsmanna nú svo arðvænlegir, að þeir geti staðið undir þessum þunga bagga?

Ég býst við, að enginn treystist til að halda því fram. Ég býst við, að allir játi það, að öll aðalframleiðslustarfsemi hér á landi sé rekin með tapi og hafi verið það á undanförnum árum. Ég býst við, að flestum komi saman um, að sparnaður arður undanfarinn, góðæra sé upp etinn, hafi gengið til að borga framleiðsluhalla og skatta undanfarandi ára.

Til þess að fyrirbyggja misskilning skal ég hér taka það fram, að frá skattabyrði þeirri, sem framleiðsla landsmanna verður að standa undir, má og á að sjálfsögðu að draga þann hluta skattanna, sem varið er til að létta undir með atvinnuvegum landsmanna. Sú upphæð er talsverð, segjum allt að 5 millj. kr. Þá eru samt eftir um 20 millj. kr. samkv. því, sem ég áður sagði, er framleiðslan verður að standa undir: Hvar á að taka þá gífurlegu fjárhæð?

Í venjulegum árum á að taka hana af gróða á framleiðslunni, en þegar svo er sem nú, að framleiðslan gefur lítinn arð, engan arð eða jafnvel tap, hvar á þá að taka féð. Ef um sparnað arð fyrri ára væri að ræða,mætti taka hann, en því er ekki að heilsa. Hann er horfinn, eins og ég tók fram áður. Þá var ekki nema ein leið til, og hún er sú að taka, lán, stofna til nýrra skulda. Hvar fást þau lán? Ekki erlendis. Einstakir menn eða félög fá þar varla lán til lengri tíma, þegar vitað er að ríkissjóður hefir orðið að skuldbinda sig til að taka ekki lán erlendis fyrst um sinn.

Framleiðendum stendur því sú ein leið opin að fá lán innanlands hjá bönkum eða sparisjóð um. En verði framleiðslan áfram rekin með tapi eða tekjur og gjöld standast á, geta þeir ekki endurborgað þessi hin, og þá er aðeins stutt tímaspursmál þar til engin frekari lán er að fá, og sú framleiðsla, sem rekin er með lánsfé, og það er mestur hluti okkar framleiðslustarfsemi, verður að hætta. — Skuldir banka, og sparisjóða tapast, en það þýðir að sparisjóðsfé landsmanna tapast og gengisfall stórum stíl óhjákvæmilegt.

Ég hefi reynt að rekja þessa sorglegu keðju lið fyrir lið, og handleikið hvern hlekk. Mér skilst, að svo hljóti að fara sem ég fyrr sagði nema ýtrustu varkárni sé gætt eða verð á framleiðsluvörum okkar erlendis hækki, svo að framleiðslan gefi arð, en fyrir því eru litlar líku eins og nú stendur.

Hitt sýnist frekar blasa við, að mjög erfitt verði að selja, aðalframleiðslu vora, fiskinn, erlendis, þar til útvegaðir hafa verið nýir markaðsstaðir, en það tekur sennilega talsverðan tíma.

Að athuguðu þessu ástandi, sem ég hefi nú lýst, virðist mér heilbrigð skynsemi hrópa hárri röddu um það að gæta hófs gagnvart atvinnu vegum landsmanna. Þessa hófs þarf að gæta bæði um álögur ríkissjóðs, bæjar- og sveitar félaga.

Ég get hér skotið því inn í, að ég sé oft í blöðum stj. að meiri hl. bæjarstjórnar Reykjavíkur, sem er skipaður sjálfstæðismönnum, er atyrtur fyrir það, að hann hækki stöðugt út gjöld bæjarins og fari þannig í bága við þá stefnu, sem Sjálfstfl. telji sig fylgja.

Það er rétt, að útsvörin hafa hækkað hér hin síðustu ár mjög mikið. En af hverju? Af því að löggjafarvaldið hleður stöðugt nýjum gjöldum á. Annaðhvort verður því að hækka gjöldin eða brjóta fyrirskipanir löggjafarvaldsins. og sjálfstæðismönnum verður ekki með réttu álasað fyrir það þótt þeir hlýði lögum meðan kostur er.

Ég gat þess í byrjun máls míns, að áætlanir stj. yfir rekstrarkostnað ríkisins árin 1934–1937 hefðu verið eins og hér segir:

1934 ............. 11,3 millj. kr.

1935 .............. 12,8 — —

1936 .... 13,8 — —

1937 ........... 15,4 — —

Í meðförum þingsins breyttust þessar áætlanir þannig, að þær urðu fyrir

1934 ........... 11.0 millj. kr.

1935 ............... 13,8 — —

1936 .............. 15,3 — —

Þessar tölur sýna fyrst og fremst, að hæstv. fjmrh. hækkar árlega áætlanir sínar, það er að segja heimtar alltaf meira og meira fé til ríkisrekstrarins. Hækkun hans till. frá ári til árs er aldrei undir millj. kr. og nú síðast yfir 1½ millj. kr.

Í öðru lagi sýna þessar tölur, að í meðförum þingsins hafa áætlanir stj. hækkað fyrir árið 1935 um 1 millj. kr. og fyrir 1936 um 1½ millj. kr.

Hvort þetta frv., sem hér liggur fyrir, á eftir að hækka eins mikið og verið hefir undanfarið, skal ég engu spá um, en verði svo, verða rekstrarútgjöldin fyrir 1937 upp undir 113 millj kr.

Þessi stöðuga hækkun á rekstrarútgjöldum ríkissjóðs líkist mest hreinu uppboði, þar sem fjmrh. og stjórnarflokkarnir bjóða í kapp. Fyrst kemur fjmrh. á haustþinginu 1934 með yfirboð, er nemur 1,8 millj. kr., en þá hækka stjórnarflokkarnir þetta enn um 1 millj. kr. á því þingi. Svo á næsta þingi (1935) hugsar hæstv. ráðh., að nú skuli hann koma með mjög lágt yfirboð, og hann gerir það, en stjórnarflokkarnir voru þá ekki feimnari en það, að þeir gerðu 1½ millj. kr. yfirboð. Og uppboðið heldur enn áfram. síðasta boð frá hæstv. fjmrh. er enn hækkun í frv. því, sem hér liggur fyrir.

Við sjálfstæðismenn hér á þingi horfum undrandi á þennan léttúðarfulla leik, stundum gerum við líka boð, stundum til hækkunar, oftast viljum við lækka, en hvorugu er anzað, öll slík boð strádrepin.

Af því, sem hér hefir verið bent á, er það augljóst, að fjármálastefna hæstv. fjmrh. og hinna ráðandi flokka er sífelld hækkun gjaldanna og sífelld hækkun skattanna. Hæstv. fjmrh. hefir beinlinis lýst því yfir, að eftir því, sem kreppan harðni, verði að hækka skafta. Það verði að flytja til kaupgetuna, eins og hann orðar það, en hann gætir þess ekki, að með þessu er hann að kippa stoðunum undan framleiðslumöguleikum landsmanna.

Þegar skattahækkanirnar voru til umr. á síðasta þingi viðurkenndi hæstv. ráðh., að aðalatvinnuvegir landsmanna væru reknir með tapi, og hann notaði það sem sönnun fyrir því, að tekjuskattshækkun gerði þessum atvinnuvegum ekkert til, því að þeir þyrftu engan tekjuskatt að greiða, en í þessu er mikill misskilningur.

Allir auknir skattar koma niður á atvinnuvegunum beint eða óbeint á einn eða annan hátt, því að framleiðslan verður að síðustu að fæða alla og klæða. Eftir því sem hærri skattkröfur eru gerðar til þeirra, er beint eða óbeint vinna að framleiðslu, eftir því verða þeir að gera hærri kröfur gagnvart framleiðendum.

Ég man eftir því, að í góðærunum 1927–1930, þegar sömu flokkar fóru með völd og nú, þá var því af þeirra hálfu haldið fram, að einmitt í góðærunum ætti að auka útgjöld og hækka skatta, því að þá þyldu gjaldþegnarnir það. Nú mun enginn halda því fram, að vel ári fyrir atvinnuvegum landsmanna, en samt er því haldið fram, að hækka eigi skatta og gjöld.

Niðurstaðan hjá hinum núv. stjórnarflokkum virðist því vera sú, að bæði í góðum árum og vondum eigi að hækka skatta og gjöld enda hafa þeir sýnt það í verkinu.

Sjálfstfl. hefir jafnan haldið því fram, að í góðærum mætti hækka skatta, ef þeir væru hóflegir undir, en ekki til þess að eyða allri hækkuninni, heldur til þess að geyma hana eða hluta af henni til vondu áranna, til þess að geta þá haldlið í horfinu og þurfa ekki að eiga á hættu, að atvinnuvegir landsins grotni niður.

Hæstv. fjmrh. hefir hvað eftir annað hér á þingi haldið því fram, að það mætti ekki einblína á það, að áætlanir fjárlaganna hækkuðu. Það stoði ekkert að áætla lágt, því svo komi landsreikningurinn og hann sýni miklu hærri gjöld í mörgum greinum.

Til þess að finna þessari staðhæfingu stað, hefir hæstv. ráðh. jafnan vitnað í það, að útgjöld ársins 1934 hafi farið stórlega fram úr áætlun, og slíkt vilji hann ekki láta henda sig. Hann hefir hvað eftir annað hér á þingi látið lita svo út, að samsteypustjórnin, sem sat að völdum frá miðju ári 1932 til miðs ársins 1934, eigi sök á þessu, en hann gleymir að geta þess, að hann sat sjálfur að völdum nærri hálft árið 1934, og útkoma þess árs er honum því ekki óviðkomandi. Þegar hæstv. ráðh. vill gera samanburð milli sín og annara, þá má hann vitaskuld ekki taka niðurstöðu árs, sem hann hefir ráðið því nær jafnt og aðrir. Hann getur ekki, er hann ber sig saman við aðra, tekið sjálfan sig til samanburðar. Þetta munu allir skilja.

En ef hæstv. ráðh. vill bera sig saman við samsteypustjórnina 1932–1934, þá verður hann að taka eina heila árið, sem hún sat að völdum, árið 1933, og ég er mjög fús til að gera þann samanburð.

Landsreikningurinn fyrir árið 1933 liggur nú fyrir prentaður, undirritaður af núv. hæstv. ráðh. og samþ. af Alþingi, svo að um ekkert getur verið að villast og engar getgátur komast þar að. Hvað segir þá þessi landsreikningur?

Hann segir, að rekstrarútgjöld ríkissjóðs árið 1933 hafi verið 13,6 millj. kr. Þessi sömu útgjöld eru nú af hæstv. ráðh. í fjárlagafrv. fyrir 1937 áætluð 15,4 millj. kr. eða nærri 2 millj. kr. hærri en þau reyndust 1933. Undan þessum samanburði getur hæstv. ráðh. ekki kvartað, hann er honum þvert á móti mjög hagstæður. því að annarsvegar eru staðreyndir frá l933, sem ekki geta breytzt hér eftir, en hinsvegar er aðeins áætlun ráðh. sjálfs, sem eftir venju er hækkuð á þinginu.

Enginn þarf heldur að imynda sér, að ekki falli á yms ófyrirsjáanleg útgjöld frá þessum tíma til áramóta 1937–1938, og allt slíkt kemur á landsreikninginn á sínum tíma. — Hvað þessi útgjöld verða þá há, veit hvorki hæstv. ráðh. eða ég, en hitt vitum við báðir, og það er, að það hefir aldrei enn komið fyrir, að gjöld þessi hafi ekki reynzt stórum hærri en áætlað var. Og skýrsla sú, sem hæstv. ráðh. gaf hér um árið 1935, er um það engin undantekning. Ef ég hefi skilið þá skýrslu rétt, þá ber hún með sér að gjöldin hafi farið mikið fram úr áætlun, eða á 3. millj. kr., og þó hafði hæstv. ráðh. búið þá áætlun til sjálfur. Og hæstv. ráðh. verður sannarlega ekki hart úti í þessum samanburði, þótt ég í honum láti þær rúmar 900 þús. kr., sem eru áætlaðar rekstrarafgangur í frv., koma á móti væntanlegri hækkun þingsins og umframgreiðslum á árinu 1937. því að þessar 900 þús. kr. eru ekki helmingur þess, sem eyðzt hefir umfram áætlun 1935. — Skýrsla ársins 1935, sem hæstv. ráðh. hefir nú gefið, sýnir, að á árinu 1935 hefði orðið gífurlega mikill tekjuhalli, ef honum hefði ekki viljað til það fjármálalega happ — ég segi fjármálalega happ af því, að ég er ekki viss um, að það hafi verið happ að öðru leyti — að bannlögin eða það, sem eftir var af þeim, var afnumið.

Þetta ætti að geta sýnt hæstv. fjmrh. það að það er allt annað að búa til áætlun eða fá hana til að standast reynsluna.

Hann talaði borginmannlega meðan engin reynsla var komin á áætlanir hans, en nú býst ég við, að hann verði að viðurkenna, breyskleika sinn.

Síðan kreppan sú hin þráláta byrjaði, sem nú stendur yfir, höfum við sjálfstæðismenn reynt hér á þingi að stöðva æði skattahækkananna, og höfum flutt ýmsar till. til lækkana, en meiri hl. hefir algerlega virt það að vettugi.

Á fyrsta þinginu, sem núverandi stj. sat, þinginu 1934, var þetta svo áberandi, að í þeirri n. þingsins, fjvn., sem er falið að undirbúa fjárl. samkv. þingsköpum, var í rauninni engin ákvörðun tekin, heldur var allt ákveðið á sameiginleg- um fundum stjórnarliða.

Þegar sjálfstæðismennirnir í n. urðu þessa varir, slitu þeir þeirri málamyndasamvinnu, sem verið hafði, báru fram háar lækkunartill., sem allar voru skornar niður við trog. Eftir að þessi aðferð stjórnarliða, sem ég tel algert brot á þingræðisreglum — en út í það hefi ég ekki neinn tíma til að fara nánar — þá ákváðum við sjálfstæðismenn, að hver og einn væri sjálfráður um, hvaða till. hann bæri fram, því að við vissum, að allt sem frá okkur kom, átti að drepa, og það var gert rækilega.

Svona var aðferðin á þinginu 1934.

Á þinginu 1935 skipti mikið um til hins betra að því, er snerti samstarf í fjvn. Ég vil minnast þess með þakklæti, þó að ekkert væri þar gert umfram það, sem skylda og sanngirni bauð, að n. vann í sameiningu að ýmsum leiðréttingum og endurbótum á fjárlagafrumv. Og það, sem meira var, n. vann saman að niðurfærslu ýmsra gjaldaliða frumv. og kom sér saman um niðurfærslu, er nam um 1 millj. kr. Buðum við sjálfstæðismennirnir í n. samvinnu um frekari niðurfærslu, en undir það var ekki tekið, enda þótti sumum stjórnarstuðningsmönnum fulllangt gengið í lækkunum í sumum atriðum.

En er mjög langt var komið störfum n., þá sprakk bomba. Þá kom það í ljós eða varð hljóðbært, að lengi þings hafði í fullkominni leynd fyrir okkur sjálfstæðismönnum starfað n. til þess að semja um ýms ágreiningsatriði milli stjórnarflokkanna, og niðurstaða þeirrar sáttarnefndar varð sú, að dembt skyldi á þjóðina á aðra millj. kr. í nýjum sköttum og gjöldum.

Með þessu var sparnaðarstarfsemi fjvn. þurrkuð út og meira til. Okkar atkvæði, 20 sjálfstæðismannanna, megnuðu ekkert til að hamla móti þessu. Allt var auðvitað samþ. svo sem meiri hl. vildi.

Ég hefi viljað segja frá þessu bæði af því, að málefni eins og þetta varðar alþjóð mjög og einnig af því, að í fjárlagafrumv. 1935 fólust viðurkenndir lækkunarmöguleikar, svo að ekki er hægt að halda því fram, að hvergi hafi verið hægt að lækka.

Af því, sem hér hefir sagt verið, vænti ég að komi í ljós stefnumunurinn milli sjálfstæðismanna annarsvegar og stjórnarflokkanna hinsvegar.

Stjórnarflokkarnir leggja aðaláherzluna á að ná inn sem mestu í sköttum og dreifa þeim út eftir ýmsum leiðum, sumum þörfum, sumum óþörfum.

Sjálfstfl. telur, að allt hið óþarfa eigi að falla burtu og sumt af því nauðsynlega verði að bíða og þoka til fyrir þeirri þjóðarnauðsyn að halda uppi framleiðslu landsmanna sem allt líf í þessu landi byggist á.

Sjálfstfl. er að sjálfsögðu vinur allra framfara, en framfarir eða endurbætur eru það eitt, sem þjóðin er fær um að standa undir efnahagslega. Um það er deilt, undir hve miklu hún geti staðið. Svonefndar framfarir eða endurbætur, sem gjaldþol þjóðarinnar rís ekki undir, snýst í böl og vandræði og fjárhagslega eymd. Þá fer þjóðinni eins og bónda, sem hefir yfirbyggt svo jörðina sina, að hún verður af honum tekin og öðrum seld.

Af því að ég hygg, að ég eigi eftir örlítið af ræðutíma mínum, vil ég minnast á greiðslujöfnuðinn við útlönd. Eins og allir vita, er það mál nú eitt hið mesta áhyggjuefni. Ég sé af blöðum stjórnarsinna, að þeir eru mjög ánægðir með árangur þess máls að því, er snertir síðastliðin ár.

Eftir opinberum skýrslum hefir innflutning urinn 1935 orðið 42,6 millj. kr., og er ég undrandi yfir, hversu mikið það er, þegar ég annarsvegar athuga það, hve mikið er gumað af röggsamlegri framkvæmdi innflutningshaftanna, og hinsvegar athuga það, að t. d. árið 1932 var aðeins flutt inn fyrir 34 millj. kr. eða 8,6 mill. minna en síðastl. ár.

Hæstv. ráðh. vék að því, sem form. Sjálfstfl. sagði um þetta mál í eldhúsumr. í fyrra, og vildi snúa því í villu. Ég man vel, hvað hann sagði, og ég fæ ekki betur séð en að það hafi sýnt sig að vera alveg rétt. Hann gekk út frá því í orðum sínum, að það væri rétt, sem hæstv. ráðh. hefði haldið fram, að hinar duldu greiðslur mundu nema allt að 8 millj kr. Hann gekk ennfremur út frá því að innflutningurinn í nóv. og des. 1935 — en um hann var ókunnugt er ræðan var haldin — mundi verða svipaður og 1934. Með þessu komst hann að þeirri niður stöðu, að greiðsluhallinn í utanlandsviðskiptunum mundi verða um 10 millj. kr., en mér virðist hann hafa orðið um 7 millj., þegar reiknað er með 8 millj. kr. duldum greiðslum. Þessi mismunur mun eingöngu stafa af minni innflutningi í nóvember og desember 1935 en á sama tíma 1934.

Hæstv. forseti aðvarar mig nú um, að minn tími sé á enda. og ég lýk því máli mínu, en bið þá, sem mál mitt heyra, að athuga það, að útvarpsreglur banna mér að svara andmælum, sem fram kynnu að koma.