06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í B-deild Alþingistíðinda. (360)

21. mál, botnvörpuveiðar

Páll Þorbjörnsson:

Mér skilst tilgangur hv. þm. Borgf. með þessari brtt. vera sá, að ganga alveg á milli bols og höfuðs á frv. Því að eins og hann orðar það í brtt., þá má ráðh. (samkv. brtt.) leyfa kampalampaveiðar á „tilteknum svæðum, þar sem ekki eru stundaðar aðrar fiskiveiðar.“ Mér er ekki kunnugt um, hvar það er inni á fjörðum hér við land, sem ekki eru stundaðar einhverjar aðrar fiskiveiðar en kampalampaveiðar. Þó að víða hér við land séu ekki beinlínis verstöðvar, þá er þar samt víða farið fram með grásleppunet, sem ég hélt, að hv. þm. Borgf. ætti að vera kunnugt. Ég fæ því ekki séð, hvernig nokkur ráðh. ætti að geta nokkursstaðar hér við land veitt undanþágu til kampalampaveiða, ef brtt. hv. þm. Borgf. yrði samþ., því að það mundi vera erfitt að tilgreina þau svæði hér við land, þar sem engar fiskiveiðar væru stundaðar.

Legg ég því eindregið á móti því, að þessi brtt. hv. þm. Borgf. verði samþ., sem mun vera vanhugsuð frá hans hendi, því að ég hefi ekki skilið það svo, að það væri virkilega meining hans að ganga á milli bols og höfuðs á frv.