06.03.1936
Neðri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

21. mál, botnvörpuveiðar

Páll Þorbjörnsson:

Sem betur fer hefi ég verið ofansjávar hingað til.

En um graðhestaþönglana er það að segja, að víða hagar svo til um sjávarbotninn hér við land — það veit ég, þó að ég sé ekki kafari á við hv. þm. Borgf. — að þó að þönglar vaxi í botninum á vissum svæðum, þá eru aftur á milli svæði, þar sem er sendinn botn. Þetta getur skipzt á, þannig, að ekki sé þægilegt fyrir ráðh. að ákveða nákvæm takmörk um svæði, þar sem kampalampaveiðar megi stunda. Því að ekki er svo vel, að draga megi krítarstrik á sjóinn né heldur girða eftir honum og segja svo: Hingað og ekki lengra. Nei, ef brtt. hv. þm. Borgf. verður samþ., þá er loku skotið fyrir, að löglegt sé lengur að nota þetta veiðarfæri.