14.03.1936
Efri deild: 24. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

21. mál, botnvörpuveiðar

*Frsm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ástæðan til þess, að þetta frv. er borið fram, er sú, að á síðustu árum hafa af tveim mönnum verið stundaðar kampalampaveiðar við Ísafjarðardjúp. Veiðar þessar eru stundaðar með vörpu, sem dregin er eftir botninum. En þar sem við þessa vörpu þurfa að vera festir smáhlerar til þess að halda henni við botninn, þá er nauðsynlegt, til þess að ekki verði um það deilt, hvort veiðar þessar séu brot á 1. um botnvörpuveiðar í landhelgi, að fá þessa breyt. á 1. um það efni. Annars eru þetta örsmáir hlerar og léttir, sem spilla ekki botngróðri né dýralífi á botninum á nokkurn hátt. Og varpan er dregin svo hægt, að það er viðburður, ef fiskur, sem liggur við botninn, eins og sandkoli t. d., kemur í hana. En kampalamparnir eru við botninn, og þess vegna eru hlerarnir á vörpunni nauðsynlegir, til þess að halda henni við botninn. Hinsvegar hefir verið reynt að veiða kampalampa með vörpu, sem dregin hefir verið í miðjum sjó, en mjög lítinn árangur borið, þannig að ekki er viðlit að stunda veiðina á þann hátt.

Búizt er við, að nokkur atvinnuauki verði að þessum veiðum, þegar fram líða stundir og hægt er að fá markað fyrir þessa framleiðslu í öðrum löndum. Og einkum er búizt við því vegna þess, að kampalamparnir eru smáir, og þess vegna hlýtur að verða nokkuð mikil vinna við það í landi að plokka þá og leggja í dósir og sjóða þá niður.

Það er álit sjútvn., að sjálfsagt sé að veita heimild þá, sem farið er fram á í frv., og leyfðar verði vélbátum þessar veiðar, sem má álíta alveg skaðlausar með tilliti til annara veiða, en geta komið að miklu liði.