04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (391)

16. mál, útflutningsgjald

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Sjútvn. hefir orðið sammála um að leggja það til, að frv. þetta verði samþ. með lítilvægum breytingum sem eiginlega mega teljast aðeins leiðréttingar. Þannig er lagt til, að orðin „þurrkuðum og“ falli burtu, því að n. taldi það nægilega skilgreiningu, að um óunnin bein og hausa væri að ræða. Ennfremur vil ég geta þess, að ártal hafði misprentazt í frv., og leiðréttist það einnig.

Um þetta efni hafa legið fyrir tvö frv., annað frá mér og hitt frá hv. þm. Borgf. Frv. þessi voru bæði mjög áþekk að efni og formi, en sjútvn. varð sammála um að afgreiða það þeirra sem fyrr kom fram, sem var mitt.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta mál á þessu stigi þess. Reynslan hefir sýnt það, að hinn hái tollur á þessum afurðum hefir orðið til þess að lækka verð framleiðendanna, enda hafa nú orðið þau straumhvörf í n. frá því á síðasta þingi, að hún er nú samhuga um afgreiðslu málsins, í stað þess, að síðast voru aðeins tveir af hinum sömu nm. því fylgjandi. Að vísu er einn nm., hv. þm. Vestm., enn ókominn, en þar sem hann var fylgismaður málsins á síðasta þingi, er óhætt að segja það, að n. standi nú óskipt með frv.