04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 392 í B-deild Alþingistíðinda. (393)

16. mál, útflutningsgjald

*Jónas Guðmundsson:

Það var af vangá hjá mér, vegna þess að ég vissi ekki að þetta mál var á dagskrá í dag, að ég tók ekki með mér gögn varðandi þetta mál, sem ég hefði viljað leggja fyrir hv. deild. En þrátt fyrir það get ég ekki látið hjá líða að fara nokkrum orðum um málið við þessa umr., til að láta í ljós undrun mína yfir þeim hringlandahætti, sem n. hefir sýnt í þessu máli. En gögn þau og skýrslur, sem ég myndi hafa lagt fram nú, hefði ég vitað, að málið yrði til umræðu, mun ég leggja fram fyrir 3. umr.

Fyrir ekki lengri tíma en tveim mánuðum lagði n. á móti þessari tolllækkun. Nú hefir hún alveg skipt um skoðun í málinu og færir það eitt til sem ástæðu, að verð vörunnar hafi fallið stórlega á erlendum markaði. Þetta er rétt, en þetta verðfall gefur einmitt ríka ástæðu til þess að hagnýta vöruna heima fyrir fremur eftir en áður. En lækkunin á þessum verndartolli miðar auðvitað til hins gagnstæða.

Mér þætti annars fróðlegt að heyra form. n. og hv. 6. þm. Reykv. gefa skýringu á þessum snarsnúningi sínum á þeim stutta tíma, sem liðinn, er síðan n. hafði þetta mál til meðferðar.

Það er alveg furðulegt, að mönnum skuli yfirsjást það, að framleiðendur vörunnar greiða aldrei þennan toll, heldur kaupendur hennar. Hugsum okkur nú, að hv. þm. Borgf. ætli að selja kindur í héraði, þar sem sláturfélögin ráða kjötverði yfirleitt. Ef útlendingur kæmi nú í þetta hérað til að kaupa sauðfé — er þá ekki sennilegt eða alveg víst, að hann myndi miða tilboð sín við verð sláturfélaganna? Hann myndi sjálfsagt bjóða lítið eitt hærra en þau, ef honum væri áhugamál að fá kindur hv. þm. Borgf. keyptar, en hann færi aldrei óneyddur að bjóða tugum króna meira en keppinauturinn.

Ég veit, að hv. þm. Borgf. skilur það, að það er alveg eins ástatt í þessu máli. Afnám tollsins miðar beint að því, að eyðileggja þann iðnað í þessari grein, sem fyrir er í landinu. Samkv. hagtíðindunum hafa verið flutt út frá hérlendum verksmiðjum 3800000 kg. fyrir 867000 kr. árið 1935. En á sama tíma hafa verið flutt út 1200000 kg. af óunnum beinum fyrir 134000 kr. Mismunurinn á þessu verðgildi er svo mikill, að öllum hlýtur að vera ljóst, að með því að grafa undan iðnaðinum, eins og gert er með því frv., sem hér liggur fyrir, er verið að fleygja á glæ hundruðum þúsunda króna fyrir alveg ímyndaðan hagnað, því að það er alveg óhætt að fullyrða, að innlendu verksmiðjurnar greiða eins hátt verð og þeim er unnt, enda hafa þær ekki grætt, þrátt fyrir góðan markað undanfarið. Hinsvegar veita þessar verksmiðjur mikla atvinnu, og einmitt vegna þess verðfalls, sem orðið hefir á afurðum þeirra á erlendum markaði, ætti hið opinbera að telja sér skylt að veita þeim frekari stuðning en áður, í stað þess að vega að þeim, eins og gert er með þessu frv. Hitt ætti engum að vera torskilið, að verðfall framleiðslunnar hlýtur að leiða til þess, að verð á hráefnunum lækkar.

Ég býst ekki við því, að frekari umræður hafi þýðingu á þessu stigi málsins. Ég mun leggja fram nánari skýrslu við 3. umr. þess, ef það kemst svo langt, sem er að vísu ótrúlegt, en þó ekki ólíklegt, eftir hringsnúningi nm. að dæma. En það tel ég mér óhætt að fullyrða, að þótt þessi tollur verði afnuminn, leiðir það ekki til eins eyris verðlækkunar fyrir sjómenn eða útgerðarmenn. Hinsvegar má vera, að umboðsmenn hinna erlendu kaupenda geti grætt á þessu nokkrar þúsundir. En þó verða það hinar innlendu verksmiðjur, sem að mestu leyti ráða verðlaginu hér eftir sem hingað til.