04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

16. mál, útflutningsgjald

*Pétur Halldórsson:

Það fer ef til vill ekki vel á því, að ég sé að blanda mér í þetta deiluatriði, en mér finnst þó skylt, að þeir, sem eru sammála hv. 6. landsk., taki við, er hann er dauður, eins og kallað er.

Við þessar umr. hefir ekkert komið fram, sem breyti þeirri skoðun minni, að það sé ekki til gagns fyrir framleiðendur að lækka þennan toll, og það má bæta við: Þótt undarlegt megi virðast. Ég held, að hv. 6. landsk. hafi rétt fyrir sér í því, að ekki séu líkur til, að verð á efninu í þetta fiskimjöl hækki, þó að tollurinn sé afnuminn. Það, að erlendir menn geta borgað meira fyrir þessa vöru en íslenzku verksmiðjurnar, kemur til af því, að næsta stig meðferðar vörunnar, sem sé í verksmiðjunum, er ódýrara erlendis en hér. Segjum, að þeir geti borgað nokkru hærra, eftir sem áður, þó að tollurinn verði afnuminn. En þá er alls ekki víst, að þeir geri það. Sumir hv. þm. virðast halda, að norsku verksmiðjurnar borgi eins hátt verð og þær geta hæst borgað. En sannleikurinn er auðvitað sá, að þær borga aðeins það verð, sem íslenzku verksmiðjurnar neyða þær til að borga. Þær hafa ekki enn hætt að kaupa þessa vöru, enda þótt þær verði að greiða 30 króna toll, og það sýnir, að þær geta vel borgað það verð, sem þær láta af hendi. Það er rétt hjá hv. 6. landsk., að þegar samkeppni íslenzku verksmiðjanna er horfin, þá geta þær norsku komið sér saman um verðið og þrýst því niður eins langt og tök eru á. En nú er þessi 20 eða 30 króna munur aðstöðumunur norsku og íslenzku verksmiðjanna, og þessar 30 krónur renna í ríkissjóðinn. Þetta er mjög svo athyglisvert. Það mætti líta svo út sem þessar 30 kr. rynnu annars til framleiðenda, eins og meðhaldsmenn frv. halda fram, en það er þó enganveginn víst. Að íslenzku verksmiðjurnar tóku að keppa um þessa vöru, hækkaði verðið, en áður var hún flutt út fyrir náðarverð norsku verksmiðjanna.

Þetta er fræðilegt mál, og það dugar ekki að spyrja hv. þdm., hvort þeir álíti ekki, að íslenzkir sjómenn hafi eins mikið vit á þessu og hv. 6. landsk. Það er ekkert svar. Það er heldur ekki rétt, að samkeppnin milli innlendu og erlendu verksmiðjanna sé kveðin niður með þessum tolli, heldur er hún jöfnuð, því að Norðmenn geta, eins og sýnt hefir verið, borgað miklu hærra verð en innlendir menn.

Af þessum ástæðum held ég, að það sé rétt hjá hv. 6. landsk., að þótt tollurinn félli niður, þá bætti það ekki verðið, sem framleiðendurnir fá fyrir hráefnið, nema þá rétt um stund. En þegar innlenda samkeppnin væri horfin, myndi verðlagið brátt lækka að miklum mun.