04.03.1936
Neðri deild: 15. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (402)

16. mál, útflutningsgjald

*Pétur Ottesen:

Hv. síðasti ræðumaður komst að þeirri niðurstöðu, að Norðmenn gætu ef til vill borgað hærra verð fyrir þessar vörur en Íslendingar, af því að vinna hjá þeim væri ódýrari, og því gætu þeir verið samkeppnisfærir, þrátt fyrir tollinn. Já, en hvað er þá um þessar 20 kr., sem fyrir tollinn fara í ríkissjóð, en annars færu beint til framleiðenda? Heldur hv. þm., að Norðmenn borgi þennan mismun bara af því að hann fer í ríkissjóð, en ekki til framleiðenda? Ætli þeim sé ekki sama, hvort heldur er? En framleiðendum er ekki sama. Á þessu veltur mikið fyrir þá. Og á þessu er krafa þeirra byggð um lækkun tollsins.

En að því leyti sem hv. þm. virtist gera lítið úr því, að til sé samkeppni um þessa vöru, verð ég að vona, að það sé ekki af því, að hann sé búinn að missa trúna á frjálsu samkeppnina.