07.03.1936
Neðri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 407 í B-deild Alþingistíðinda. (410)

16. mál, útflutningsgjald

*Jónas Guðmundsson:

Mér finnst rétt að benda hv. 3. landsk. á það, að raddir hafa komið fram um það að fella einnig niður toll af öðrum fiskafurðum. Þetta er auðvitað rétt um þá vöru, sem flutt er fullverkuð út úr landinu, enda hafa ávallt verið uppi raddir um það, að skaðlegt væri og óviðeigandi að senda út óverkaðan fisk. (PÞ: Má þá leggja toll á óverkaðan saltfisk?). Ef til vill ekki eins og stendur. En annars ber auðvitað að keppa að því marki með öllum ráðum, líka tollum, að engin vara sé flutt óverkuð út úr landinu.

Viðvíkjandi tollgreiðslu Vestmannaeyinga held ég, að svar hv. 3. landsk. hafi verið byggt á misskilningi. Vestmannaeyingar hafa aldrei greitt tollhækkunina, þótt hann hafi gilt í heilt ár, og þrátt fyrir það hefir verðið lækkað þar sem annarsstaðar. Þetta sýnir það og sannar, að tollurinn einn út af fyrir sig veldur ekki verðlækkun.