06.04.1936
Sameinað þing: 10. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Höfuðskylda og verkefni þings og stj. er að reyna að efla atvinnuvegina. Allir umbóta- og framfaramöguleikar byggjast á því, að atvinnuvegirnir séu sem traustastir. Þeir eru fjöreggið.

Séu þeir traustir, þá er það annaðhvort þröngsýni og kyrrstöðulöngun eða vanhyggindum að kenna, ef ekki er hægt að sjá öðrum greinum þjóðlífsins nokkurnveginn borgið.

En þetta er hinsvegar ekki unnt, ef ekki er á öðru að byggja en örþrota hrynjandi atvinnulífi. Þetta virðist einnig hafa verið núv. stjórnarflokkum ljóst fyrir kosningarnar. Og sést það af þeim fögru loforðum, sem þá voru gefin.

Aðalflokkur stjórnarinnar gekk til síðustu kosninga með glæsilega stefnuskrá.

Þá var kreppa hér í landi, eins og annarsstaðar og allmikið, en þó minnkandi atvinnuleysi.

Það lét því vel í eyrum, þegar þessi núverandi stjórnarflokkur lofaði m. a. þessu:

„Að hrundið yrði þegar í stað í framkvæmd með löggjöf og framtaki hins opinbera auknum atvinnurekstri og framleiðslu — eftir nákvæmri áætlun, er gerð sé til ákveðins tíma (4 ára) og hafi það markmið að útrýma með öllu atvinnuleysinu og afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinar.

Það var eðlilegt, að slík loforð vektu vonir hjá þeim, sem trúnað lögðu á. Enda virtist foringjum hins gamla sveitamannaflokks þetta kosningaloforð Alþfl. svo heillandi, að þeir gleymdu fyrri sérstöðu sinni og gengu nú til kosninga sem fylgiflokkur sósíalista.

Fast að helmingi þjóðarinnar treysti og á loforðin og fól þessari nýju flokkasamsteypu umboð sitt til þess að koma loforðunum í framkvæmd.

Síðan hafa nú bráðum verið háð þrjú þing. þar sem stjórnin hefir haft fullt afl til að koma fram hverju því lagafyrirmæli, sem hún hefir talið þörf á.

Það er því tími til kominn að litast um í þjóðlífinu og aðgæta, hve vel stjórnin hefir staðið við kosningastefnuskrá sína að útrýma með öllu atvinnuleysinu og færa nýtt fjör í alla atvinnuvegi þjóðarinnar.

Ég lít í hagtíðindin til þess að ganga úr skugga um hvort þetta sé ekki allt saman barlómur, sem sagt er um atvinnuleysið, og gái að, hvort ég finni nokkurn atvinnuleysingja skráðan.

Skýrslur hagstofunnar sýna að s. l. 1. febr. höfðu í Rvík verið um 700 atvinnuleysingjar á þrem mánuðunum þar á undan. Þær sýna, að um vortímann hefir tala atvinnuleysingja í Reykjavík aldrei á síðustu árum verið jafnlág eins og 1. maí 1934, áður en núv. stjórn tók við völdum (199 menn).

Þær sýna líka, að atvinnuleysingjatalan hefir aldrei verið jafnhá á sama tíma sem 1. maí s. l., eftir að núv. stjórn tók við (432 menn).

Hafði þá atvinnuleysingjum fjölgað svo mikið þegar á fyrsta stjórnarárinu, að þeir höfðu miklu meira en tvöfaldazt síðan 1. maí 1934.

Þó er vitað, að víða á landinu er atvinnubresturinn jafnvel enn tilfinnanlegri en hér í Reykjavík. Og það svo, að þar verða stöðugt fleiri og fleiri fullvinnandi fjölskyldufeður að stíga þau þungu spor að leita á náðir bæjar eða kauptúns um framfærslu.

Bæjar- og sveitarsjóðir eru að sligast, enda þétt útsvörin á landinu séu nú komin upp í nálægt 7 milljónir.

Þeir kikna hver af öðrum undan gjaldaþunganum, af því að útsvörin nást ekki inn, hvernig sem að er farið, þar sem gjaldgetan er þorrin.

Tímakaup hefir að vísu sumstaðar hækkað, m. a. við vinnu ríkissjóðs. En þar hefir vinnudagsverkunum fækkað að sama skapi og vinnuleysisdögunum þar með fjölgað, þegar á heildina er litið.

Þannig voru t. d. við vega- og brúargerðir unnin 35 þús. færri dagsverk á landinu 1935 en 1934, svo að allmiklu fleiri hafa farið á mis við þá atvinnubót en árið áður.

Og þegur litið er fram, þá mun varla verða um það deilt, að atvinnuhorfur verkafólks hafa vart í annan tíma verið ískyggilegri en þær, sem nú eru fram undan, ef eigi ber einhver sérstök höpp að höndum.

Þannig hefir þá tekizt um þetta fyrsta kosningaloforð, að útrýma með öllu atvinnuleysinu meðal verkafólksins við sjóinn.

Hvernig hefir þá tekizt með annað loforðið, að útrýma með öllu „afleiðingum kreppunnar og færa nýtt fjör í atvinnuvegi þjóðarinnar?“

Skal þá fyrst líta á hina yngstu atvinnugrein landsmanna, iðnaðinn.

Sú atvinnugrein var mjög ört vaxandi hin síðari ár. Og í skjóli haganlegra innflutningshafta hafði hún öll skilyrði til þess að vaxa og dafna enn meir.

En í stað þess að innflutningshöftunum hafði yfirleitt verið beitt iðnaðinum til hagnaðar, eru nú mjög almennar kvartanir meðal iðnaðarmanna yfir því, að innflutningstakmarkanir og nýir tollar á vinnuefni séu orðin þeim mjög tilfinnanleg. Almennastar munn kvartanir trésmiða, múrsmiða, húsgagnasmiða og ýmsra smáiðnaðarmanna í þessu efni. Og verður því ekki mótmælt, að þar hugsar margur til næstu framtíðar með litlum atvinnuvonum og þungum hug.

Við þessum innflutningstakmörkunum til iðnaðarins væri auðvitað ekkert að segja, ef gjaldeyririnn væri svo takmarkaður að alls ekki yrði hjá því komizt. En meðan leyfður er innflutningur á margskonar algerðum óþarfa, — og meðan ríkisstjórnin sjálf lætur flytja ótakmarkað inn hin skaðlegustu eiturefni, eins og áfengið, og takmarkar ekki heldur innflutning dýrasta tóbaksins, þá verður maður að efast um nauðsynina.

Ég var að athuga í fasteignamatinu landverð jarða í 5 sýslum á landinu. Það voru þessar sýslur: Strandasýsla — kjördæmi yfirherra áfengissölunnar — Dalasýsla, Austur-Barðastrandarsýsla, Vestur-Barðastrandarsýsla og Vestur-Ísafjarðarsýsla. Og sést, að landverð jarðanna í öllum þessum 5 sýslum til samans hrekkur ekki samanlagt til þess að greiða það áfengi, sem ríkisstj. hefir selt síðastliðið ár. Það verður að taka nokkur vænstu höfuðbólin í öðrum héruðum og leggja þau ofan á, til þess að jafnist við áfengiskaupin. Og þá vil ég segja, að á meðan stjórnin selur áfengi fyrir 3½ millj. kr. og takmarkar þá sölu ekki agnar ögn, — á meðan okkur er ekki að neinu leyti kennt að spara þó ekki væri nema dýrasta tóbakið — og á meðan hér sjást á götunni dömur, sem eru skjóttar í ásjónu af innfluttum farða, sem þær maka á sitt fagra andlit, þá hafi stjórnin ekki leyfi til að takmarka innflutning á efni til bygginga og öðru nauðsynlegu vinnuefni til iðnaðar. Hitt er alkunnugt, hve þeir, sem raftækjaiðnaðinn stunda, kvarta mjög undan barðinu á hinni nýju raftækjasölu ríkisins — enda var þar svo óheppilega af stað farið, að jafnvel stuðningsblað stjórnarinnar, Alþýðublaðið, fekk ekki orða bundizt.

Þá dregur það eigi lítið kjark og áræði úr mönnum að auka iðnaðarframleiðsluna eða byrja á nýjum iðngreinum, að menn vita aldrei, hvar núverandi stjórnarflokkar kunna að bera niður næst um nýjan ríkisrekstur.

Menn geta heldur aldrei vitað, hvenær sjálfbjargarhvötin er deyfð og einkareksturinn heftur eða torveldaður með boðum eða banni af nýjum álögum.

En hæstv. ríkisstj. virðist ekki hafa nægan skilning á því, hve hvert þjóðfélag á dýra eign í kjarki og áræði einstaklinganna til átaka og framtaks til að brjóta sjálfir nýjar leiðir, þegar aðrar lokast.

Henni virðist alls ekki geta skilizt, að það er ein höfuðhættan sem stafar af ríkisrekstrarstefnunni, þegar of geyst er farið, að óttinn við, að alltaf verði lengra og lengra farið, lamar þetta lífsafl þjóðfélaganna, sem engin ríkisstjórn fær bætt úr með eigin framtaki, þó hún vildi fegin.

Fyrir verkafólk við sjóinn skiptir útvegurinn að sjálfsögðu enn meira máli en íðnaðurinn. Hefir þá stj. fært nýtt fjör í þann atvinnudag, eins og hún lofaði um alla atvinnuvegi landsins? Nei, aldrei hefir litið verr út fyrir þeim atvinnuvegi landsmanna en nú í tíð hæstv. stj. Ég á þar ekki við það, sem engin fær að gert þegar afli bregzt. Ég á þar ekki heldur fyrst og fremst við það, að gamlir markaðir hafa stórlega minnkað, þó bagalegt sé. Ég á ekki við þær skammtanir og úthlutanir á gömlu markaðslöndin, sem óhjákvæmilega leiða af því, að innflutningur þangað er takmarkaður. Ég á við hitt fyrst og fremst, að framleiðendurnir eða umbjóðendur þeirra eru nú gerðir ófrjálsir að því að afla þessari aðalútflutningsvöru landsmanna nýrra markaða erlendis. Ég á við það, þegar ríkisvaldið eða menn í þess umboði taka fram fyrir hendur umboðsmanna framleiðendanna, þegar þeim hefir tekizt að finna nýjan markað og spilla þeim tilraunum, sem þeir eru að byrja á.

Þá má nú segja, að flestar bjargir séu bannaðar, þegar óvitrir viðvaningar koma í nafni ríkisvaldsins og grípa fram fyrir hendur þeirra, sem eru að opna nýtt land til að selja þar framleiðsluvöru sína, eins og nú er að verða þjóðkunnugt, að hér hefir verið gert.

Þar á það sannarlega við, að ofstjórn er sama og óstjórn og hefði hæstv. ríkisstj. gott af að minnast þess framvegis. Ríkisstj. hefði þó sunnarlega mátt vera í nógu fersku minni hin eftirminnilega freðfisksending fiskimálanefndar til Póllands og sá skaði og skömm, sem af henni hlauzt, til þess að hún styddi að annari en háðulegri og skaðsamlegri sendiför af hálfu þessurar nefndar.

Það er eigi sízt smábátaútvegurinn, sem hér átti mest í að vinna og mestu hefir tapað við það að svona fór. En sá útvegur hefir nú lengi verið þjakaður af olíuokri til útgerðar sinnar.

Milliþinganefndin í sjávarútvegsmálum upplýsti, að verð á brennsluolíu væri í Danmörku l0–11 aur. kg., þegar það kostaði 18 aur. hér hjá okkur. Fyrr má nú vera verðmunur á nauðsynjavöru en 70–80. Fyrr má nú vera, að örðug sé samkeppnin við aðrar fiskveiðaþjóðir en þegar búa verður við slíkan verðmismun á útgerðarvöru.

Það hefði ekki getað talizt ofstjórn af hálfu ríkisstj., þó að hún hefði látið athuga, hverju þetta sætti. Og hún stóð því betur að vigi um að láta þá athugun fram fara, þar sem hún hefir í lögum heimildina frá eldri tíma um einkasölu á olíu.

En það er svo að sjá, sem einhver hlífi olíu og benzíni hjá þessari einkasölustjórn.

En hart er það fyrir atvinnuveg, sem svo margur á undir björg sína, eins og þessum útvegs, að hann skuli ofan á þetta olíuokur, ofan á alla skatta og gjöld til ríkis og sveitar verða einnig að þola það, að þeir sem eru vel á veg komnir að skapa nýjan ágætan markað fyrir freðfiskinn, séu ofbeldi beittir á síðustu stundu og ónýtt verk þeirra, eins og hér hefir verið gert.

Ríkisstj. getur ef til vill aldrei bætt útvegnum upp það frumhlaup, sem hér var gert. En hún gæti þó á tvennan hátt sýnt þar á nokkurn lit. Hún gæti látið sér þetta að kenningu verða og forðast ofstjórnina framvegis, og hún gæti gert sitt til að fá lækkað olíuverðið, svo að það nálgaðist sanngirni, eins og aðrir aðiljar munu nú á vegi með að fá benzínverðið eitthvað lækkað. Hún ætti að geta þetta, því að þar mun vera innangengt á milli, eins og milli fjóss og bæjar á góðu sveitaheimili. Hæstv. ríkisstj. ætti og ekki æ ofan í æ að flaska á þeirri ofstjórn að banna útvegsbændunum að kaupa sér netin. Það var t. d. alveg nægilegt tjón að því fyrir verkafólk og sjómenn og suma útvegsbændur hér við Faxaflóa, síðastliðið sumar, þegar síldveiðin var bezt og síldin í hæsta verðinu, að láta menn bíða með mannaðan bátinn í mánuð eftir því, að þeir mættu panta sér eða taka út af skipaafgreiðslunni net til að ausa úr síldinni í gjaldeyri handa ríkinu. Það var alveg nóg, þó að nú eigi ekki hið sama að henda aftur við Vestmannaeyjar á þorskvertíðinni.

Það er hart fyrir þá, sem fyrst eru tepptir af verkfalli og síðan af tregum afla og yfirgangi botnvörpunga, að nú loks, þegar netafiskmoksturinn er kominn, þá verði sumir bátarnir bráðlega að hætta netveiði, af því að ófróðir menn um fiskimál hafa sumpart bannað, sumpart takmarkað og sumpart dregið von úr viti að leyfa þeim innflutning á netunum. Þessi ofstjórn er óstjórn. Hæstv. ríkisstj. er alveg jafnvorkunarlaust að vita það eins og öðrum, að útvegsbændur og fiskimenn eru ekki það vel stæðir, eins og nú stendur, að þeim komi til hugar að kosta meiru til veiðarfærakaupa en þeim er beint nauðsynlegt. Og hæstv. ríkisstj. skjöplast algerlega, ef hún telur sig hafa til að bera landsföðurlegan vísdóm, til þess að geta með valdi sínu tekið þannig fram fyrir hendurnar á þeim, sem bera björg í hennar eigið bú í hvert sinn, sem þeir reyna að bjarga sér sjálfum. Hún má vera viss um það, að hún færir ekki í atvinnuvegina það nýja fjör, sem hún lofaði með slíkri ofstjórn.

Handjárnin geta verið henni hin þarflegustu þing á flokksfundum hennar hér innan þings, og hún mundi sjálfsagt missa allt saman úr höndum sér án þeirra þar, en handjárnin henta ekki eins á þá, sem verða að vinna, ekki á þá, sem draga línu eða þorskanet, ekki á þá, sem fara með sög og og hamar, og ekki á þá, sem orfinu veita eða fara með rekuna. Slík handjárn henta yfir höfuð ekki á atvinnuvegina meðan þeir eru bornir uppi af heilbrigðri sjálfsbjargarhvöt. Og ég veit ekki, hvað á að halda þeim uppi, þegar sú hvöt er með öllu horfin.

Glöggt dæmi um það, hve þessi ofstjórn og handjárnapólitík getur verið skaðleg atvinnuvegunum má finna í landbúnaðinum. Þar má og glöggt sjá, hversu strax breytist til batnaðar, þegar slakað er á ofstjórninni og bandjárnunum.

Á ég þar sérstaklega við mjólkurmálin og skal nú vikið stuttlega að þeim.

Tímamenn vissu það þegar eftir að Ed. hafði, þrátt fyrir mótmæli núv. form. Framsfl., samþ. þáltill. Jóns í Stóradal í afurðasölumálunum haustið 1933 að þáv. stj. var að undirbúa nýja löggjöf um það efni. Og þá þurfti nú að reyna að yfirbjóða fyrir kosningarnar.

Tíminn bauðst til þess vorið 1934, ef þeir fengju völdin, að sjá um, að hagnaður af mjólkurskipulaginu yrði 22 au. á lítra, og vildu sumir skipta þeim hagnaði milli framleiðenda og neytenda, en aðrir létu í það skína, að þennan hagnað ættu bændur einir að fá. (Tíminn 1934, 23. og 24. tbl.) Með þessu tilboði unnu Tímamenn Árnessýslu, og með þessu tilboði unnu sósíalistar nokkuð á í Rvík.

Flokkasamsteypan náði völdum. Hún byggði á undibúningi fyrri stj. í afurðasölulögunum. En hún flutti valdið frá framleiðendunum sjálfum yfir til sín og annara aðilja. Og þetta var sérstaklega óheppileg ráðstöfun að því, er tók til framkvæmdar mjólkurlaganna strax í byrjun.

Reikningar mjólkursamsölunnar yfir 3½ fyrstu mánuðina sýndu hina hörmulegustu útkomu, af því að framleiðendurnir og þeir, sem í þeim efnum höfðu mesta reynslu og þekkingu voru bornir ráðum. Allstórum kostnaðarliðum, svo sem brotum á flöskum, sliti og fyrningu á áhöldum o. fl., hafði verið sleppt, og einn eignaliðurinn var villandi,svo að nam 4000 kr., en rekstrarkostnaður nær 100 þús. (97. þús.). En þegar sýnilegt var, að ofstjórnarstefna stj. ætlaði að koma í veg fyrir væntanlegan hagnað af lögunum, þá losaði forsrh. nokkuð um handjárnin vegna kröfu bændanna og þeirrar hörðu gagnrýni, sem fram var komin. Var þá gerð svofelld sætt í maí síðastliðnum, að dregið var úr beinum afskiptum mjólkursölunefndar, en fulltrúum tveggja stærstu mjólkurbúanna falin stjórn samsölunnar. Tók þá brátt nokkuð að lagast. Skipt var um forstjóra og hann hafður aðeins einn, en þeir höfðu um tíma verið tveir á hálaunum. Gekk svo frá vori til hausts, að reynt var að fá ýmsar misfellur lagaðar eftir því sem ráðh. neyddist til að losa á handjárnunum. Á öndverðum vetri fengu svo fulltrúar mjólkurbúanna loks nokkuð að kynna sér rekstur samsölunnar og kom þá ýmislegt í ljós, sem þeir bentu á til lagfæringar. Þessir fulltrúar komu t. d. auga á, að hagnaður samsölunnar af brauðsölu hefir að meðaltali verið 89 kr. minni í hverri búð á mánuði eða 1668 kr. minni á ári í þeim búðum, þar sem brauðgerð sósíalista hafði verið veitt for- réttindi, en í hinum mjólkurbúðunum. Og þar sem þessar forréttindabúðir sósíalista munu vera 19 alls, þá munar þetta 20292 kr. samtals, sem annars hefði dregizt frá mjólkursölukostnaðinum. En þessi skattur er auðvitað aðeins afleiðing af ofstjórnarstefnu stj.

Nýlega hafa öll mjólkursölubúin á verðlagssvæði Rvíkur birt reikninga sína fyrir síðastliðið ár. Nú er því unnt að gera upp heildarárangurinn af mjólkurlögunum og framkvæmd þeirra til að sjá, hvernig tekizt hefir að efna, loforðin um 22 au. hagnaðinn á lítra til bændanna eða þá skiptinguna: 11 aurum hærra verð til framleiðenda og 11 aura hækkun til neytenda.

Skal nú byrjað á mjólkurbúi Flóamanna. Rekstur þess er að mörgu leyti með myndarbrag, hús, vélar og verkfæri í fullkomnusta lagi, og lærður erlendur mjólkurbússtjóri. vel að sér í danskri mjólkurvinnslu, enda hefir óneitanlega verið vel að búinu búið frá ríkisins hálfu. þar sem mestur hluti byrjunarstofnkostnaðar þess var lagður fram af ríkinu. Mjólkurmagn búsins árið, sem leið„ var tæpar 3 milljónir lítra, (2991175 1.). Það borgaði 4 au. á fitueiningu eða alls kr. 445943,62, og rekstrarágóði varð kr. 153078.08 eða samtals kr. 599021.70. Frá þessu verði dregst flutningskostnaður greiddur af félagsmönnum, kr. 13898.85. Félagsmenn fengu því við fjósdyr kr. 585122.85 eða að meðaltali á lítra 19.56 aur. (19½). Af þessu verði borguðu þeir svo í sjóði, sem ekki skipir máli í þessu sambandi.

Árið áður, 1934, var mjólkurmagnið rúmar 2 millj. lítra (2072833 l.). Reiknað á sama hátt var verðið þá við fjósdyr 17.23 au. (17¼). Við þetta er það að athuga, að fitumagnið var 1935 3,73. en árið áður aðeins 3,62. eða 0,11 minna en 1935. Mjólkurlögunum er ekki fremur að þakka, að mjólkin var fitumeiri á svæði Flóabúsins 1935 en 1934, heldur en þeim er að kenna, að hún var fituminni í Eyjafirði það ár, svo að fiturýrnunin olli þar 5 aura verðlækkun. Í þessu sambandi skiptir það og engu, þó að búið hafi borgað félagsmönnum meira út 1935 en þessum mismun nemur, því að það stafar af fituaukningunni og því, að tiltölulega minna er lagt í sjóði, miðað við mjólkurmagn og geymdan arð frá árinu á undan.

Samkv. því, sem fyrr er sagt, hefir þá Flóabúið fengið 1935 1.73 au. meira á lítra en árið áður eða alls ..................... kr. 51747.33

Mjólkurbú Ölfusinga hefir fengið — 10905.42

Mjólkursamlag Borgf. hefir fengið — 7578.74

Samtals kr. 70231.49)

Þessi þrjú bú hafa því fengið um 70 þús. kr. meira fyrir mjólkina 1935 en 1934. Aftur hafa bændum í Kjalarnesþingi, að meðtalinni Rvík og Hafnarfirði og nokkrum hluta Borgarfjarðar. fengið um 105967 kr. minna fyrir mjólkina 1935 en fyrir tiltölulega mjólk 19134.

Heildarmjólkurmagn allra mjólkurbúanna var 16.6 millj. lítra. Af því eru tæpar 4 millj. lítra austan heiðar og tæp 1 millj. í Borgarfirði, en 5,7 millj. í Kjalarnesþingi. Af þessu er selt sem neyzlumjólk um 5,5 millj. lítrar, eða um 150 lítrar á árinu á hvern íbúa Rvíkur og Hafnarfjarðar að meðaltali.

Alls virðast bændur í Kjalarnesþingi og Borgarfjarðarsýslu sunnan Skarðsheiðar hafa tapað á framkvæmd laganna árið 1935 kr. 105967,09, en bændur annarsstaðar grætt 70231.41 og er þá auðsætt, að hér vantar kr. 35735.60 til þess, að jafn mikið sé grætt og tapað.

Ef til vill á samsalan eignir á móti þessari upphæð og stenzt þá allt á, en um það er ókunnugt enn sem komið er. En sjálfsagt er, að austanbúin og þeir, sem versta hafa aðstöðu, fái fyrst bættan sinn hag, eins og hér hefir verið gert. Þetta virðist þá hafa orðið heildarárangur at framkvæmd mjólkursölulaganna árið 19354. Mér finnst þessi niðurstaða sýna ljóslega, að það, að útkoman hefir ekki orðið enn lakari en þetta kemur af því, að helztu misfellurnar hafa verið gagnrýndar, og því að stj. hefir smám saman neyðzt til að gefa bændum meiriíhlutunarrétt og þannig losað á handjárnunum.

Mjólkurlögin voru mikið undirbúin af framleiðendum og n., sem fyrrv. ríkisstj. hafði til þess skipað, en núv. stj. lagði síðustu hönd á verkið og bylti þar ýmsu um. Allir gerðu sér vonir um mikinn árangur af þeim lögum, en því miður brestur mikið á, að hann hafi orðið svo sem lofað var í höndum þessarar stj.

Tímamenn sögðu bændum fyrir kosningar að spara mætti 22 au. á hverjum lítra, en niðurstaðan er sú, að þeir, sem bezt fara út úr árinu vinna 1,7 au. á lítra. Og þegar allir mjólkurframleiðendur eru teknir í heild, vantar 35 þús. til þess að allt standist á, nema samsalan eigi , þá eign í sjóði, sem ókunnugt er um. Það er því ljóst að árangurinn er tilfærsla á mjólkurverðinu milli framleiðenda innbyrðis, en ekki heildarhækkun. Ekki er þetta mjólkurlögunum að kenna, þau eru réttmæt, og enginn efi er á því, að af þeim má leiða mikið gagn. Þetta er eingöngu ríkisstj. og framkvæmdinni að kenna. Það er fyrst og fremst því að kenna, að ekki var fylgt ráðum S. Í. S. um að láta framleiðendur sjálfa hafa stjórn mjólkurmálanna. Það var höfuðsynd ríkisstj. að taka völdin af framleiðendum og skipa stjórnina pólitískt, — mönnum, að meira hluta, sem voru algerlega ófróðir um meðferð og sölu mjólkur. Af því spratt svo hin hneykslanlega útsending, sem skapaði andúð þegar í byrjun; af því spruttu forréttindi Alþýðubrauðgerðarinnar um búðir, sem árið 1935 færa samsölunni aðeins 127 kr. mánaðartekjur af brauðasölu, í stað 216 kr. hjá hinum búðunum; af því stafaði allt það ólag sem því miður hefir orðið á framkvæmdinni og hægt hefði verið að komast hjá. Mjólkursölustjórnin hefir því verið gagnrýnd réttilega. Ekki er að efa, að nokkuð hefir hún og ríkisstj. lært af þeirri gagnrýni. Framkvæmd laganna hefir batnað. Þó er niðurstaðan ekki betri en þetta. Framkvæmdin kemst ekki í lag, fyrr en frumleiðendur fá einir stjórn mjólkurmálanna. Það eiga þeir að fá, og það þegar í stað. Handjárnastefna stj. hefir ekki komið atvinnuvegunum að notum; síður en svo. Hún hefir ekki fært nýtt fjör í atvinnuveginu, eins og lofað var, því að aldrei hafa þeir verið lamaðri en einmitt nú, þó að ég vilji síður en svo gefa stj. einni þar sök á. En því miður hefir einnig gætt fullmikilla; óbilgirni hjá stj. gagnvart góðum málum, sem andstæðingarnir hafa borið fram. Skal ég nefna þar til frv. Bændafl. um það að fasteignarskatturinn gangi til sveitarfélaganna. Þetta er því kynlegra, þar sem annar stjórnarflokkurinn hafi lofað þessu fyrir kosningarnar. Þá get ég nefnt frv. Bændafl. um gengismálið, sem hefir verið flutt hvað eftir annað í þingi, en aldrei fengið svo mikið sem afgreiðslu í n., þó að þar sé að margra dómi um að ræða eitt merkasta málið hér á þingi, mál sem ekki verður unnt að humma fram af sér til lengdar, þar sem það er vitað og sýnt, m. a. af skrifum erlends hagfræðings, að krónan er ekki rétt skráð, en rétt gengisskráning er hinsvegar eitt höfuðafkomuskilyrði atvinnuveganna og þá um leið afkomu þjóðarinnar allrar. Auk þess má leggja áherzlu á, það, að rétt gengisskráning, sem fyrst, er hið eina sem getur komið í veg fyrir enn meira hrun peningamyntarinnar, fyrr en varir, ef svo er fram haldið, sem nú stefnir, og gæti þá þeim, sem nú standa á móti réttri gengisskráningu verið búið enn meira tjón.

Fyrir kosningarnar hafði Tímafl. lofað að láta rannsaka þetta mál. Erlendur hagfræðingur, sem hér dvaldi að opinberri tilhlutun, hefir látið uppi álit sitt. Hvað veldur því þá, að málið fæst ekki rætt eða athugað á þingi þjóðarinnar? Líklega ættu andstæðingar þess ekki að vera hræddir við að láta í ljós skoðun sina, svo að þjóðin fái að heyra málið rætt frá báðum hliðum. Hvað veldur?

Þá get ég ekki stillt mig um að minnast á frv. Bændafl. um breyt. á jarðræktarlögunum. Það frv. felur í sér hækkun á styrk til jarðræktarframkvæmda sem mestu skiptir, að séu unnin. Þetta ert frv., sem búnaðarþingið hefir mælt sterklega með og fjöldi bænda um land allt telur hina mestu nauðsyn á því. Hinar mikilsverðu umbætur, sem í frv. felast, eru þessar helztar:

1. Styrkur til framræslu er aukinn úr 1 kr. fyrir dagsverkið í 1½ kr. í opnum og í 2 kr. fyrir lokræsi.

2. Styrkur til varðveizlu dýrustu áburðarefnanna er hækkaður úr 1½ kr. í 2 kr. á dagsverkið.

3. Vermireitir og gróðurhús eiga að njóta sama styrks og matjurtagarðar, og styrkur er hækkaður úr 1 kr. í kr. 1.50.

4. Styrkur til súrheysgryfju er hækkaður úr kr. 0.50 í 2 kr.

5. Þurrheyshlöður, úr hvaða efni, sem vera skal, komast undir ákvæði laganna um styrk, í stað þess, að nú eru það aðeins steinsteypuhlöður eða steinlímdar. Styrkurinn hækkaður úr 50 au. í 1 kr.

6. Þá er heimilað að styrkja búnaðarfélög úr verkfærakaupasjóði með allt að helmingi verðs í stað ¼ áður, til kaupa á jarðræktarvélum. kornskurðar- og þreskivélar eiga að njóta, sama styrks, en hafa nú engan, o. s. frv.

Höfum við m. a. síðastliðin tvö sumur fengið gagnorða áminningu um nauðsyn á hærri styrk til votheysgerðar og hlöðubygginga, þar sem 1½ landsfjórðungur a. m. k. hefir beðið hið stórkostlegasta tjón vegna votviðra, svo að hey hafa stórlega hrakizt og drepið til stórskemmda í heystæðum. Eiga þessir landshlutar sannarlega erfitt nú þegar ofan á hin erfiðustu sumur hefir bætzt vetrarríki og harðindi, svo að með fádæmum má telja.

Bændafl. fór fram á, að 2½% af þeim tekjuauka, sem stj. fékk með sérstökum tekjuaukalögum, áður en síðustu álögurnar voru á lagðar, mætti ganga þessa leið til styrktar jarðræktinni og til að lækka þannig framleiðslukostnaðinn, sem afurðirnar geta enn ekki borgað. Þetta nauðsynjamál hefir verið svæft í n. þangað til í fyrra. Þá var því vísað til stj. Þegar liðnar voru tvær vikur af þessu þingi flutti ég enn frv. til að halda málinu vakandi,með því að ekkert kom fram frá stj. þá lofaði hæstv. landbrh. að stj. mundi eftir nokkra daga leggja frv. fram, sem fæli að mér skildist a. m. k. í sér eitthvað af þeim endurbótum sem í frv. Bændafl. felast. Síðan er nú liðið að þinglokum, og enn er ekkert frv í þessa átt komið fram. Hvað veldur?

Heyrzt hefir, að skipuð hafi verið n. til að semja frv. og ég get a. m. k. trúað einum manni í þeirri n. til að vera þar tillögugóður. Frv. mun löngu komið stj. í hendur. Hversvegna kemur það ekki fram? Er þar tekið of mikið tillit til frv. Bændafl.? Ég spyr enn, hvað veldur?

Ég hefi að þessu sinni nokkuð drepið líka á atvinnuskilyrðin við sjávarsíðuna til þess að gera mönnum sem ljósast, að ekki verður bændum sem heyja sína þrotlausu baráttu til sveita, bent á það bjargráð að flýja til sjávarins. Það verður því að styðja þá til þess að fá betri aðstöðu fyrir sjálfa sig og börn sín, svo að þau fái alizt þar áfram. Og það verður þjóðfélaginu áreiðanlega farsælla en að svo og svo margir þeirra bætist í atvinnuleysingjahópinn á mölinni. Straumurinn þarf miklu fremur að snúast við frá möl til moldar. Sú rödd hefir að vísu nýlega heyrzt frá þeim manni sem jafnan er háværastur í Tímafl., að framlögin til ræktunar sveitanna séu gjafir að styrkurinn til Búnaðarfélags Íslands sé gjafir frá ríkinu, að jarðræktarstyrkur bóndans sé gjöf, sem honum sé jafnvel vanvirða að o. s. frv.

Ég vil vona, að sjálf ríkisstj. sé ekki smituð af slíkum hugsunarhætti og að því komi nú loks að fram komi frv., sem feli í sér sem mest af þeim umbótum, sem lágu í frv. Bændafl. og láti það verða að lögum þegar á þessu þingi. Þess mun margur bóndi bíða með eftirvæntingu.

Ég hefi nú stikað á stóru og drepið á fátt eitt, sem ástæðu er á að minnast. Það er sýnt, hve lítið hefir orðið úr þeim loforðum, sem gefin voru fyrir kosningarnar. Stj. hefir mistekizt hrappalega í framkvæmdinni jafnvel um góð mál, og hefir ofstjórnartilhneigingin og handjárnastefnan átt þar í hvað mestan þátt.

Atvinnuhagir þjóðarinnar eru því verri en áður. og atvinnuskilyrðin hafa víðast á landinu aldrei örðugri verið hvort sem litið er til verkafólks eða atvinnurekendanna. Sveitar- og bæjarfélög eru víða þrotin eða við þrot. Erlent fé svo milljónum skiptir, er frosið inni í landinu. og lánstrausti ríkis og landsmanna erlendis þar með stórum hnekkt. Og nú síðast hefir hinni vænlegustu tilraun til að vinna nýjan og mikinn markað fyrir framleiðslu vara verið hnekkt með yfirgangi, svo að land vort bíður hneisu og tjón af. Þjóðin þarf því að losa af sér stjórnarhandjárnin, og það sem fyrst.