03.03.1936
Efri deild: 14. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

50. mál, eftirlit með útlendingum

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. um eftirlit með útlendingum er flutt af meiri hl. allshn. eftir tilmælum hæstv. dómsmrh. Frv. er samið af ríkisstj. Allshn. er stefnu frv. algerlega fylgjandi og taldi því rétt að flytja frv. eins og það kom frá hæstv. ríkisstj. Hinsvegar hefir n. ekki unnizt tími enn til að athuga frv. svo sem æskilegt er, og áskilur hún sér rétt til að koma með brtt. við frv. og hafa óbundnar hendur til brtt., sem fram kunna að koma við frv.

Frv. þetta er viðauki við og breyt. á l. um sama efni, sem þegar eru í gildi, og er í grg., sem fylgdi frv. frá hæstv. ríkisstj., gerð nokkur nánari grein fyrir því.

Eins og ég gat um, er málið flutt af meiri hl. allshn., þ. e. a. s. af 4 nm. En þar með er það ekki sagt, að hv. 10. landsk., fimmti maðurinn í n., sé frv. mótfallinn, heldur tók n. ákvörðun um að flytja frv. á fundi þegar hv. 10. landsk. var ekki viðstaddur.

N. mun á milli umr. athuga frv. nánar, og koma fram með brtt. við það, ef henni þykir þurfa.

Sé ég svo ekki ástæðu til þess að láta fylgja frv. fleiri orð fyrir hönd n. N. leggur til, að málið verði látið ganga til 2. umr.