10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

50. mál, eftirlit með útlendingum

*Magnús Jónsson:

Mér skilst, að þessi deila snúist aðallega um brtt. við 2. gr. frv. Ég er nú satt að segja dálítið í vafa um, hvernig skuli snúast gegn henni. Ég er þeirrar skoðunar, að heimta beri fullkomið vegabréf eða „legitimation“, þ. e. skjal, sem sannar fullkomlega, hver eigandi þess er, og það er alls engin fjarstæða, að slíkt skjal ætti hver maður að bera; það er ákaflega þarft, og meira að segja jafnvel innanlands. (MG: Það endist ekki nema um ákveðinn tíma.) Já, það er alveg rétt, og það er sá ósiður, sem gerir óþægilegt að hafa vegabréf, að þurfa sífellt að endurnýja áritunina.

En mér skilst nú, að n. hafi engu haggað, þó hún í brtt. sinni hafi sleppt orðinu vegabréf; það er nú ekki heldur ákaflega karlmannlega orðað í frv., þar sem stendur „vegabréf eða önnur skilríki“. Það er allt frjálst. En að einu leyti dregur þó brtt. úr, því að í henni stendur „fara í land til dvalar“, en í frv. er: „óheimilt að stíga á land“. Ég veit náttúrlega ekki, hvað n. á við með þessum orðum „til dvalar“, en ég sé ekkert á móti því, að hver útlendingur, sem stígur hér á land, skuli skyldaður til að hafa vegabréf; að þessu leyti finnst mér brtt. heldur til hins lakara.

En ég mun þó greiða henni atkv., og það er af annari ástæðu. Mér finnst nefnilega allt of stíft að heimta vegabréf af Íslendingum, sem eru að koma heim. (Forsrh.: Það er ekki meiningin.) Já, maður skyldi halda það, en eftir því, sem kemur síðar, þá sést, að þetta er ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að maður geti ekki þýtt annað en útlendingur, því maður er notað um alla; skil ég ekki, að hæstv. ráðh. geti neitað því, og ef hann neitaði því, að það ætti við Íslendinga, þá er það rangt. (Forsrh.: Það þýðir aðeins útlendingar þarna). Það er einkennilegt, að þá skuli standa í grg. við 2. gr. aftan við frv., að þessi skylda sé lögð öllum á herðar, „hvort sem þeir eru íslenzkir eða erlendir ríkisborgarar“. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti ekki að tala um, að aðrir læsu illa. En mér finnst það of langt gengið, og ég held það sé óvanalegt, að menn þurfi vegabréf til að komast heim til sín, enda er það fjarstæða ein, og ekki beint ástæða til að gefa sjálfum sér slíkt vegabréf.

Ég hefði unað bezt við að setja „útlendingum“ í stað „mönnum“ í upphafi 2. gr. frv., en af því ég sé ekki, að brtt. n. dragi verulega úr ákvæðunum, mun ég af þessari ástæðu greiða henni atkvæði.