10.03.1936
Efri deild: 20. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (431)

50. mál, eftirlit með útlendingum

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. 1. þm. Reykv. benti hér á, að í grg. við 2. gr. frv. væri skilgreint, að orðið „mönnum“ tæki til útlendra og íslenzkra ríkisborgara. Það er rétt, að þetta tekur til íslenzkra manna að því leyti, að þeir þurfa að sanna, að þeir séu Íslendingar, svo að þeir þurfi ekki vegabréf.

Hitt, að Íslendingar þurfi vegabréf til að komast inn í landið, er fjarstæða ein; þess þarf aldrei. Það stendur því óhaggað, að átt er við, að útlendingar þurfi vegabréf. Annars vil ég gjarnan gera það samkomulag við hv. 1. þm. Reykv., að í stað „mönnum“ komi „útlendingum“, áður en frv. þetta fer gegnum d.

Hv. 1. þm. Reykv. er það ljóst, þó e. t. v. ekki fullkomlega, að það er verulegur munur á frv. og brtt. n., þar sem hann fellst á, að óheppilegt sé að fella burtu ákvæðið um vegabréfsskylduna, því að eftir brtt. n. er því slegið föstu, að þingið fallist á vegabréfsskylduna, og verður þess vegna hæpið eða vafasamt, að ráðh. geti heimtað vegabréf, eftir að þingið hefir fellt það niður úr frv. Ég vil því mjög gjarnan gera samkomulag við 1. þm. Reykv. um þessa breyt., því að fyrir mér er það aðalatriðið, að vegabréfsskyldunni sé haldið.

Eins og hv. l. þm. Skagf. hefir bent á, er ákvæðið fellt burtu af n., af því hún vill ekki taka ábyrgðina, en láta hana hvíla á ráðh., og vil ég að lokum undirstrika, að það er mjög vafasamt, hvort ráðh. vill taka á sig þá ábyrgð að ákveða um vegabréfsskylduna, ef brtt. verður samþykkt og þar með fellt burtu þetta orð úr frv.