13.03.1936
Neðri deild: 23. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 421 í B-deild Alþingistíðinda. (452)

27. mál, vinnumiðlun

*Frsm. (Héðinn Valdimarsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. og ber fram við það nokkrar brtt., sem hún leggur til, að samþ. verði ásamt frumvarpinu.

Brtt. þessar eru við 1. gr., að í stað orðsins „vikulega“ komi: eigi sjaldnar en mánaðarlega. Það er að vísu ekki hægt að fylgjast eins fljótt með því fyrir vinnumiðlunarskrifstofuna, ef eitthvað kann að vera ábótavant við kaupgreiðslur atvinnufyrirtækja fyrir þessa breytingu, en þó er hægurinn hjá að finna það jafnan eftir á, ef eitthvað hefir miður farið í þeim efnum. Þá leggur n. til, að aftan við 1. gr. komi ný málsgrein á þessa leið: „Vinnumiðlunarskrifstofur skulu, að fengnum till. frá Vinnuveitendafélagi Íslands, láta útbúa form fyrir þessar kaupgjaldsskrár, og skulu þau afhent atvinnurekendum ókeypis“. Af þessu ætti ekki að þurfa að verða mikill kostnaður, en n. þótti eðlilegt, að form þessi væru lögð til ókeypis og að skýrslurnar væru eins frá öllum atvinnurekendum.

Þá er loks lagt til, að lögin gangi ekki í gildi fyrr en 1. júlí. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að ræða um frv. eða brtt. Frv. er flutt til þess, eða á að stefna að því, að gera vinnumiðlunarskrifstofum auðveldara fyrir að fylgjast með atvinnurekstrinum í landinu og sömuleiðis því, hvernig atvinnan skiptist milli verkamannanna.