27.03.1936
Efri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

27. mál, vinnumiðlun

*Frsm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta mál hefir legið fyrir allshn. þessarar d., og er þangað komið frá Nd. Eins og nál. greinir, hefir n. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir. Efni frv. er í 1. gr. þess, og skýrir hún sig sjálf. Það hefir komið í ljós, að vinnumiðlunarskrifstofum er nauðsyn á því að geta gert grein fyrir því, hvaða verkamenn vinna hjá einstökum atvinnurekendum og hverjar eru tekjur þeirra, svo að þær geti úthlutað vinnunni sem réttlátlegast. N. hefir orðið sammála um nauðsyn frv. Þó hefir hún lagt til, að upplýsingar þessar verði ekki gefnar nema mánaðarlega, í stað þess, að í upphafi var ætlazt til vikulegra upplýsinga. Að öðru leyti sá allshn. sér ekki fært að gera breytingar á frv., og telur hún það til bóta frá því, sem nú er. Með þessu frv. ættu að vera tryggðar upplýsingar, sem ættu að geta verið hjálp við réttláta úthlutun vinnu. Vænti ég þess, að hv. d. fallist á till. n.