20.02.1936
Neðri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 427 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Héðinn Valdimarsson:

Ég átti sæti í allshn. á síðastl. þingi, er þingskapafrv. var hjá þeirri n., og ég kannast ekki við, að nokkurt samkomulag hafi þar átt sér stað í n. um það að skipa sérstaka n. til þess að athuga það mál. Að minnsta kosti hefir ekkert slíkt samkomulag verið gert af hálfu stjórnarflokkanna við Sjálfstfl., því það er kunnugt um alla hv. þm. þess flokks, að þeir eru á móti frv. Þeir menn hafa staðið fyrir málþófinu hér á Alþingi á undanförnum þingum, og þeir vilja allir auka það málþóf, en ekki minnka. Það er því hart að heyra þessa menn vera að tala um, að óþarft sé að takmarka umr., og hefir sá hv. þm., sem síðast talaði, sízt aðstöðu til þess að tala svo, því það er kunnugt, að hann einn hefir með sínu óþarfa málþófi lengt hvert þing a. m. k. um 2 vikur. Hann var að tala um það, að fjárlögin afmörkuðu lengd þingsins. Hann ætti þó að vita, að ef þingið hefði ekki önnur mál til meðferðar en fjárlögin, þá mundi það verða styttra. Hann ætti einnig að skilja það, þegar málþófið stendur dag eftir dag fram á kvöld, að þá tapast tími á eftirmiðdögunum fyrir n. þingsins til þess að vinna sín störf. Það er kunnugt, að Sjálfstfl. er mótfallinn öllu þingræði og lýðræði, og er því skiljanlegt, þó hann sé mótfallinn öllum endurbótum á þingræðinu, en við, sem viljum byggja á lýðræðinu, getum ekki unað við þá galla á þingræðinu, sem lagfæra á með þessu frv. Þess vegna munum við fylgja því til úrslita í fullri alvöru.