20.02.1936
Neðri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 428 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Garðar Þorsteinsson:

Það er ekki von, að hv. 2. þm. Reykv. vilji kannast við það, að samkomulag hafi orðið um meðferð þessa frv. í allshn. á síðasta þingi. Eftir því, sem mig minnir, var þátttaka hans sem formanns n. í afgreiðslu frv. sú að hann rauk inn á fundinn, slengdi frv. á borðið og spurði, hvort n. væri með eða móti frv. Er aðrir nm. vildu lesa frv. og bera það saman við gildandi lög, sagði þessi hv. formaður: „Nei, atkvgr. skal fram fara, ég er með frv.“ Þannig var framkoma þessa ráðríkasta ofstopamanns þingsins í þessu máli. Þannig er framkoma hans alstaðar. Það er kunnugt, að hann flæmdist úr formannssæti Dagsbrúnar af þessum ástæðum. Hann ber í borðið og hótar, það er hans aðferð. Hv. þm. þekkja það, hvernig hann hagar sér hér í þinginu. Undir atkvgr. gengur hann milli sinna manna og hótar þeim, ef þeir ekki greiði atkv. eins og hann vill; getur hv. þm. Mýr. sjálfsagt borið vitni um slíkt framferði þessa hv. þm. Hann hefir hótað hv. þm. Mýr., að hann skyldi rétt fá fyrir ferðina, ef hann ekki greiddi atkv. í vissu máli eins og hv. 2. þm. Reykv. vildi vera láta. Svo er þessi hv. þm. að kenna sig við lýðræði. Hann veit vel, að samkomulag varð á síðasta þingi milli flokkanna að kjósa sérstaka n. til þess að athuga málið, þó hann kannist ekki við það nú. Og ég veit ekki betur en hv. fyrri þm. Skagf. hafi af hálfu Sjálfstfl. verið skipaður í þá n. og hv. þm. S.-Þ. af hálfu Framsfl. Það er vitað, að við hv. 2. þm. Reykv. þýðir ekkert að tala um samkomulag í málum, hann neitar jafnan öllu samkomulagi, en hv. 2. þm. Árn., flm. frv., játaði þó, að þetta samkomulag hefði átt sér stað. Það er út af fyrir sig ekkert við það að athuga, þó frv. fari til hv. allshn. Það er fyrir fram vitað, hvernig afgreiðslu það fær þar. Form. fleygir því á borðið og heimtar atkvgr., neitar að lesa það og bera saman við gildandi l. Ég geri ráð fyrir því, að honum sé sama, hvort það verður afgr. með samkomulagi við Sjálfstfl. eða ekki. Ég veit ekki til, að hann hafi nokkru sinni hirt um samkomulag í einu einasta máli á þingi, ég veit ekki betur en hann hafi í hvert skipti glaðzt yfir því, ef honum hefir tekizt að eyðileggja samkomulagstilraunir um mál. Ég veit ekki betur en sú væri reynslan um verkamannabústaðina á sínum tíma, er hv. þm. Barð. kom með till. í því máli, er fór bil beggja milli till. Sjálfstfl. og Alþfl. Því hvernig fór með þá till.? Hv. þm. getur sjálfsagt upplýst það, hvernig hv. þm. Barð. varð vegna samþykktar í sínum flokki og samninga þess flokks við Alþfl. að ganga gegn sinni eigin till. Það þarf því engan að undra, þó hótanir heyrist frá hv. 2. þm. Reykv., en við sjálfstæðismenn munum ekki kikna fyrir slíkum hótunum, við munum alls ekki koma neinn bónarveg til hans í þeim efnum. — Hv. þm. sagði, að ég hefði lengt síðustu þing um 2 vikur. Ég get verið stoltur af því, ef það er satt, — stoltur yfir því, að hann hefir þó ekki meira vald en það innan sinna flokka, að hann getur ekki hindrað mig í því að starfa að málum þjóðarinnar hér á Alþingi. Það er blátt áfram hlægilegt að heyra því haldið fram, að afgreiðsla fjárl. fari eftir því, hvernig gengur með afgreiðslu annara mála í þinginu. Hv. þm. veit það vel, að þegar líður að afgreiðslu fjárlaganna á hverju þingi, er þeim málum frestað til næsta þings, sem eru það skammt komin áleiðis, að sýnilegt er, að þau verði ekki afgr. jafnsnemma fjárl., því þegar fjárlögin eru afgr., er þingi jafnan slitið. Hann veit það eins vel og aðrir, að málþóf það, er hann kallar svo, getur ekki haft önnur áhrif á störf þingsins en þau, að meira starf er framkvæmt á hverjum degi en annars mundi verða gert, en það fjölgar alls ekki dögum þingsins. Ég veit, að hv. þm. þykir það leiðinlegt, en við það verður hann þó að sætta sig, að með þessum einföldu rökum eru slegnar niður þær sífelldu blekkingar, sem Alþfl. og Framsfl. hafa farið með í þessu máli. Ef hann hinsvegar vildi í alvöru vinna að því að stytta þingið, þá ætti hann að skjóta geiri sínum til samstarfsmanns síns, hv. þm. S.-Þ., sem verið hefir form. fjvn. og mestu hefir getað ráðið um lengd þingsins.