20.02.1936
Neðri deild: 4. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Héðinn Valdimarsson:

Það hefir áreiðanlega eitthvað ruglazt til í kollinum á þeim hv. þm., sem nú var rétt að setjast. (GÞ: Ég settist ekki, ég stend ennþá). Jæja, sem síðast talaði.

Það var víst fyrir 2 árum, sem byrjað var að tala um að breyta þingsköpunum í þeim tilgangi að stytta þingtímann, og þá mun hafa verið skipuð n. til þess að athuga það mál, en vegna þess að sú n. hefir aldrei starfað neitt, en málþóf sjálfstæðismanna hefir fremur aukizt en minnkað, var það ráð tekið af þeim mönnum, sem áhuga höfðu fyrir málinu, að bera fram þetta frv. En að kosin hafi verið n. á síðasta þingi til að athuga málið, er mér með öllu ókunnugt um. (GÞ: Hvað viðurkenndi þó ekki hæstv. forseti áðan?). Það hlýtur að vera einhver misskilningur. Viðvíkjandi samstarfi við sjálfstæðismenn, þá er það mín reynsla, að það hafi jafnan gefizt illa, og ætíð verið til ógagns, ef reynt hefir verið. Það á ekki að reyna samstarf við þann flokk, það þarf ekki annað en benda á framkomu fulltrúa þess flokks í utanrmn. til þess að sanna það. Við slíkan flokk er ekki annað að gera en að halda honum sem mest niðri og leyfa honum ekki að vaða uppi. Þó þeim sé eitthvað lofað að tala, þá dugar ekki, að það sé ótakmarkað. Auðvitað er það eins og hver önnur vitleysa, sem hv. þm. hélt fram, að það tefði ekki eða lengdi þingið, að mikið væri talað. Eins og allir vita, eru þó aldrei nema 24 tímar í hverjum sólarhring, og liggur í augum uppi, að það hlýtur að hafa áhrif á störf þingsins, hve margir tímar á hverjum degi fara í umr. Slík rök og þau, að lengd umr. hafi engin áhrif á lengd þingsins, sýna aðeins að Sjálfstfl. er á móti því að fyrirkomulag þingsins og störf séu bætt og vill ekki lúta eðlilegum þingræðisreglum. — Hv. þm. var að tala um, að ég hefði hrökklazt úr stjórn Dagsbrúnar, en þetta er alrangt, eins og annað hjá þessum hv. þm., því að ég var einu sinni ekki í kjöri við síðustu stjórnarkosningu. En hv. þm. ætti að minnast þess, hve mikið fylgi hans flokkur hafði við þá kosningu. Sjálfstfl. gekk þar í kosningabandalag við kommúnista, og þeir höfðu til samans 10% atkv.

Ég vil ekki leggja mig í það að svara því, sem hv. þm. þóttist vera að upplýsa frá nefndarfundum. Það, sem sagt er á lokuðum fundum, er ekki hægt að sanna, nema með vitnaleiðslum, og læt ég því eins og vind um eyru þjóta hans ómerkilega kjaftæði.