07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1937

Finnur Jónsson:

Hv. þm. A.-Húnv., sem talaði hér fyrir Sjálfstfl. í dag, vildi mjög vara verkalýð landsins við Alþfl. Sérstaklega lagði hann áherzlu á, að Alþf1. hefði ginnt menn inn í verkalýðsfélögin til þess, að heimta hátt kaup, og með því hefðu þeir eyðilagt atvinnurekstur landsmanna. Hv. þm. var um leið að gráta yfir því, að ekki væri ennþá hér á landi 14–18 stunda vinnudagur og 25 aurar greiddir fyrir hvern klukkutíma í kaup. Hann sagði í þessu sambandi að það væri heppilegra fyrir verkalýðinn að hafa langa vinnu með lágu kaupi en stutta vinnu með háu kaupi. Nú skal ég ekki fara út í það og rifja upp frekar fyrir kjósendum þann harmagrát, sem hv. þm. hafði í þessu sambandi. Á öllu hans tali var auðséð, að hann hefði frekar átt að vera uppi á 17.–18. öld en 20. öld. Og þau heilræði, sem hann sagði verkalýðnum um að það væri betra að hafa langan vinnutíma með lágu kaupi heldur en stuttan vinnutíma með háu kaupi, eru í samræmi við þau ráð, sem hann og hans flokkur leggur verkalýðnum yfirleitt, og í samræmi við það, sem þessi flokkur mundi skammta verkalýðnum, ef hann væri við völd.

Þá kom hv. þm. nokkuð að því, sem hann nefndi fisksöluhneykslin, og þykist ég vita að hann eigi þar við það, að stjórnarfl. muni ófáanlegir til að afnema fiskimálanefnd og afhenda framkvæmdastjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda öll störf fiskimálanefndar. Við skulum nú athuga, á hvaða rökum þessi krafa er byggð. Og þá tel ég einkum nauðsynlegt að athuga nánar, hvort forstjórar S. Í. F. gætu leyst þessi störf sæmilega af hendi, og sú athugun getur ekki farið fram öðruvísi en að ofurlítið sé litið yfir feril S. Í. F. og framkvæmdastjóra þess síðan það var stofnað á árinu 1932. Nú neitar því enginn, að S. Í. F. hefir gert talsvert gagn og þau sölusamtök, sem mynduð hafa verið, hafa í rauninni komið í veg fyrir hina taumlausu samkeppni, sem var að leggja fiskverzlun landsmanna í rústir. Og eins og ástatt var þegar S. Í. F. var stofnað, verður því ekki neitað, að þetta var eina ráðið út úr ógöngunum, úr því ekki var að því horfið að taka upp ríkiseinkasölu á saltfiski. Þó félagsskapur þessi hafi komið að gagni, verður því ekki neitað, að talsverður klíkuskapur hefir átt sér stað innan hans og um leið nokkur sofandaháttur. Það verður ekki annað séð en að hinir 3 forstjórar þess hafi ekki haft nægilegan áhuga fyrir starfi sínu, eða þá að þeir hafa verið ofhlaðnir störfum og ekki mátt sinna þeim nægilega. Ég byggi þetta ekki á eigin athugun, heldur ýmsu, sem fram kemur í skýrslu Thors Thors, sem sendur var til S.Ameríku til markaðsleitar síðastl. sumar. Ég alla, að þessi skýrsla Thors Thors eigi sízt að vera hlutdræg framkvæmdarstjórunum í óhag.

Eins og menn vita, hefir saltfiskmarkaðurinn í Suður-Evrópu stöðugt verið að þrengjast, bæði á Spáni og Ítalíu, og það svo mjög að allir, sem eitthvað hafa með saltfisksöluna að gera, hafa fyrir löngu komizt að raun um, að það þyrfti eitthvað sérstakt að vinna í þessum málum, ef ekki ætti að stefna til ófarnaðar. Óseldar saltfiskbirgðir í landinu í árslok 1934 voru um 18000 smálestir, og í árslok 1935 voru þær líka 18000 smálestir. En svo mjög hafði markaðurinn dregizt saman á árinu, að ef aflinn hefði verið jafnmikill 1935 eins og 1934, þá hefðu verið óseldar um áramót um 28000 smálestir af saltfiski. En náttúran tók í taumana að þessu sinni, og aflinn varð 10000 smálestum minni á árinu 1935 heldur en árið áður, og urðu því birgðirnar ekki meiri en 1934. Nú er það vitað, að S. Í. F., sem stofnað er árið 1932, hefir aldrei gert neitt til þess að breyta til um verkunaraðferðir né til þess að leita fyrir sér um nýja markaði, fyrr en Thor Thors var sendur í ferð sína, í ágúst 1935, þegar búið var að setja í stjórnarmenn yfir þessa 3 framkvæmdarstjóra, sem hafa til samans 72 þús. kr. í árslaun. Þá fyrst var farið að senda menu til þess að leita nýrra markaða og reyna að selja saltfisk á öðrum stöðum en fiskur hafði verið seldur árin áður. Ég vil þá leyfa mér að vitna til þeirrar skýrslu,sem ég gat um áðan og alþm. Thor Thors hefir gefið út um þessa för. Hann segir, að það hafi verið samþ. að senda hann til Suður-Ameríku 23. ágúst. Thor segist hafa talið sig fúsan til fararinnar, „enda þótt horfur um árangur væru hinsvegar mjög vafasamar vegna gjaldeyrishamla í Argentínu og gengisfalls í Brasilíu.“ En þegar þessari skýrslu er flett lengra, kemur í ljós á blaðsíðu 5, að „verzlunarjöfnuður Argentínu hefir verið mjög hagstæður undanfarin ár. Árið 1932 var útflutt 450 millj. pesos meira en innflutningur nam. Árið 1933 var munurinn 220 millj. pesos. Fyrstu 11 mánuði ársins 1934 nam útflutningurinn um 1318220000 pesos, en innflutningur 1015908000 pesos. Útflutningur var því um 302 millj. pesos umfram innflutning.“ Fyrstu 6 mán. ársins 1935 var verzlunarjöfnuður Spánar óhagstæður um 130 millj. peseta.“ Með öðrum orðum: gjaldeyrisástandið í Argentínu er í rauninni, eins og Thor segir, svo miklu betra en í aðalviðskiptalandi okkar Spáni. Nú hafði maður, sem hafði áhuga, eftir því sem Thor Thors segir, á þessum málum, skrifað til danska sendiherrans og hann skrifað gengisnefndinni í Argentínu um að fá hið skráða opinbera gengi fyrir vörur frá Íslandi. Hann hafði haft góðar vonir um, að það fengist, þar eð Danir kaupa 30 sinnum meira frá Argentínu en Argentína af þeim. Svar var ekki komið, þegar Thor kom, enda engin gengisumsókn send af Sundt, af því, eins og Thor Thors orðar það í skýrslu sinni. „hann hafði ekki umboð til að selja neinar íslenzkar vörur. Hann hafði skrifað S. Í. F. 5. sept. 1932, en ekkert svar fengið.“

Þarna segir Thor Thors beinlínis, að maður í Argentinu hafi skrifað stjórn S. Í. F. um að fá að selja íslenzkan fisk á árinu 1932, en hann fær ekkert svar. Þessir framkvæmdarstjórar, sem hver um sig situr á 24 þús. kr. árslaunum, hafa ekki tíma til að svara bréfum um söluviðskipti, sem berast úr landi, sem ekki hafa verið viðskipti við áður. Gjaldeyrishömlur Argentínu eru þá ekki meiri en það, að „sendiherann taldi málið sama sem leyst.“ Sbr. bls. 10 í skýrslu Thors Thors. Þetta eru þá allar gjaldeyrishömlurnar, sem T. T. setti svo fyrir sig áður en hann fór að hann taldi mjög ósýnt um árangur þó að hann færi í þessa för. Samkv. því, sem T. T. segir á bls. 22, hefir innflutningurinn til Argentínu verið 3–4000 smálestir af saltfiski á ári. Ennfremur segir T.T. á bls. 22, að H. Sundt hafi annazt sölu fyrir Kveldúlf árið 1928, og síðan stöðugt óskað eftir áframhaldandi viðskiptum við Ísland. Hann segir, að Sundt hafi skrifað S. Í. F. 5. sept. 1932 og óskað eftir umboði, en aldrei fengið neitt svar. T. T. lýsir þessum manni sem mjög álitlegum umboðsmanni. T. T. álítur viðskiptin við Brasilíu mjög álitleg; um þau segir hann á bls. 25: „Þess þyrfti ekki að vera mjög langt að bíða, að við næðum sölu í Argentínu fyrir 50000 £ árlega“, en það er um 1 millj. og 200 þús. kr. Hann segir líka á sömu bls.: „Það er mjög líklegt, að við gætum bráðlega náð sölu á helmingi alls innflutningsins, eða um 50 þús. kössum, eða ca. 2000 smálestum“.

Um verzlunarjöfnuðinn í Brasilíu upplýsist í skýrslu T. T., að hann sé mjög hagstæður. Um hann segir Thor: .,11. febr. s. 1. var gjaldeyrir gefinn frjáls á öllum innfluttum vörum. — Sem stendur eru því engar gjaldeyrishömlur í Brasilíu að því er innflutning snertir, og það er ekki búizt við, að þær verði teknar upp af nýju.“ — Mér er kunnugt um, að hjá framkvæmdastjórum S. Í. F. hafa ríkt ýmsar bábiljur um, hverskonar fiskur væri seljanlegur í Brasilíu. Einn þeirra sagði við mig, að S.-Ameríkumenn vildu, að mér skildist, ekki annað en fisk nr. 3. En Thor upplýsir, að fiskurinn þurfi að vera harður, hvítur og stór. M. ö. o.: Suður-Ameríkumenn vilja líkan fisk eins og verkaður hefir verið undanfarið fyrir Spánarmarkað, en þó þarf hann að vera harðari. Það voru fleiri en Sundt, sem höfðu skrifað S. Í. F. og beiðzt eftir viðskiptum með fisk til Suður-Ameríku, en ekki verið svarað. T. d. segir Thor um firmað Pereira & Meirelles í Rio de Janeiro: „Hafði það firma skrifað og símað til S. Í. F., en engin svör fengið.“ Það virðist svo sem forstjórar S. Í. F. hafi litið svo á, að Suður-Ameríka væri á öðrum hnetti, og væri ekki hægt að koma þangað fiski, þótt Suður-Ameríkumönnum virðist hafa verið ljóst að hagkvæmt væri að komast í samband við okkur um kaup á fiski. Á bls. 59 í skýrslunni segir Thor Thors, að maður að nafni A. J. Hollevik í Sao Paulo hefði gert tilraun til þess að fá umboð fyrir íslenzkan fisk, en ekkert svar fengið. Um þetta segir orðrétt í skýrslu T. T.: „Þessi maður skrifaði S. Í. F. þegar eftir stofnun þess og fór þess á leit, með bréfi dags. 26. ág. 1932, að fá umboð fyrir það í Brasilíu, en S. Í. F. tók þá eigi upp nein viðskipti við Suður-Ameríku.“ Um Hollevik segir Thor: „Ég teldi það mikið happ fyrir okkur að fá Hollevik sem umboðsmann.“ Menn hlýtur að reka í rogastanz þegar þeir sjá í skýrslu þessa sendimanns S. Í. F. sem ekkert tækifæri lætur ónotað til þess að hefja framkvæmdastjóra þess til skýjanna, hvílíkt tómlæti þessir framkv. stj. hafa sýnt við að afla saltfiskinum nýrra markaða. Og þetta er ekki af því, eins og Thor segir, að þarna hafi verið óyfirstíganlegir erfiðleikar, og ekki af því, ef maður má trúa Thor Thors, sem ég væni ekki um að fara með neitt rangt í skýrslu sinni, ekki af því, að það hafi ekki verið sæmilegt verð, sem þarna fékkst fyrir fiskinn. Thor Thors segir um verðið á bls. 77: „Ég vil þó geta þess að sölurnar í Argentínu á 31 sh. fyrir 11 kg. cif. eru, að frádregnum öllum hinum aukna kostnaði, rýrnun o. fl., hærri en núverandi Spánarverð fyrir samskonar vöru. Þegar keppinautar okkar hafa róazt og séð, að okkur verður ekki bolað burtu, er líklegt, að að öllu óreyndu mætti hækka verðið um 1–2 sh. á kassa.“ M. ö. o. Thor segir, að það sé fyllilega sambærilegt við Spánarverðið, og enn heldur hann áfram á bls. 33: „Verði þessi reynsla þann veg, að neytendur séu ánægðir, má telja líklegt, að þegar á næstu árum náist sala þarna syðra á nokkrum þús. smálestum.“ Ég hefi tekið þetta svona nákvæmlega vegna þess, að menn þurfa að gera sér þetta ljóst, þegar verið er að heimta stjórnarskipti í landinu og verið að heimta, að þessum sömu forstjórum S. Í. F. verði falið að hafa allar tilraunir fiskimálan. með höndum og útflutning áhverskonar fiski úr landinu. Þessum mönnum sem sofið hafa á verði í 4 ár um saltfiskmarkaðinn, sem þeim var trúað fyrir. Þessum mönnum, sem þá fyrst, þegar búið er að setja í menn til þess að stjórna þeim, fara að gera eitthvað í þessum málum, sem þeir eiga að veita forstöðu.

Ókunnugleiki framkvæmdarstjóra S. Í. F. á þessum málum. Sem þeir eiga að hafa beztu kunnáttu allra manna um, er svo mikill, að þá loksins þeir senda þessa tvo menn, þá Kristján Einarsson og Thor Thors, til Ameríku, senda þeir þá svo seint á ári, að kaupendur eru búnir að birgja sig upp af fiski, áður en sendimennirnir koma. Sést þetta á báðum skýrslum þeirra.

Kristján Einarsson segir í skýrslu sinni: „Í Havana seldi ég ca. 5000 kassa af fiski, sem afskipast eiga að mestu í jan.-febr. mán. Flestir kaupendur höfðu birgt sig upp, svo tiltölulega fáir af innflytjendum voru kaupendur í bili. Er það álit mitt, að Íslendingar gætu að öllu eðlilegu selt til Cuba og annara nálægra staða ca. 50000 kassa árlega, eða jafnvel meir, þegar fiskurinn er orðinn almenningi kunnur, þ. e. 2200 smál.“

Ennfremur upplýsir Kristján Einarsson, að í Bandaríkjunum seljist árlega 70000 smálestir af hraðfrystum og flökuðum fiski og að einn fiskkaupmaður þar áætlaði sölu sína 500 smálestir af harðfiski.

Möguleikarnir, er þeir fundu Th. Th. og K. E. eru mjög miklir og allir þessir möguleikar, sem þeir finna í þessum ferðum sínum til Norður- og Suður-Ameríku, hafa verið til síðustu 4 árin. Þetta eru ekki nýir möguleikar, það eru þeir sömu og hafa verið allt starfstímabil S. Í. F., og meir;l að segja framkvæmdastjórum S. Í. F. var að einhverju leyti kunnugt um þessa markaði, því bæði Kveldúlfur og Alliance höfðu selt þangað fisk áður. En þessar forstjórar, sem höfðu 24 þús. kr. árslaun hver, þeir týndu þessum markaði, týndu Ameríku í 4 ár, þrátt fyrir það, eins og bent er á í skýrslu Thors Thors, að þeim hefir hvað eftir annað verið skrifað og beðnir um sýnishorn.

En þannig er framkvæmdaleysið hjá þessum mönnum, sem stjórna S. Í. F. og farið er fram á af Sjálfstfl., að falinn verði allur útflutningur á fiski úr landinn og hin margháttaða starfsemi og tilraunir fiskimálanefndar, að þeir hafa hvorki svarað bréfum né símskeytum frá þessum markaðslöndum, sem mjög eru þó álitleg að dómi Thors Thors.

Svo mikil er óskammfeilnin, að form. Sjálfstfl. kemur hér við umr. í gær og heimtar stjórnarskipti meðal annars af því, að stjórnarflokkarnir vilja ekki fyrir nokkurn mun fá þessum mönnum meiri ráð í fisksölunlálum en þeir nú hafa.