07.03.1936
Neðri deild: 18. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Magnús Torfason:

Ég hefi kvatt mér hljóðs einungis til þess að vekja athygli á því, að ákvæði þessa frv. um útvarpsumræður eru ekki að öllu leyti í fullu samræmi við ákvæðin um málfrelsi þm. yfirleitt. Yfirleitt hefir hver þm. málfrelsi eftir því, sem hann orkar, ef ekki er tekið fram fyrir hendurnar á honum af þingvaldinu. Mér finnst þessari reglu ekki vera fylgt, þegar verið er að skipa niður útvarpsumræðum í þessu frv. Í b-lið 24. gr. þessa frv. stendur, með leyfi hæstv. forseta:

„Forseti veitir þm. utan flokka færi á að eiga þátt í útvarpsumræðu að einhverju leyti.“

Með þessu er því slegið föstu, að utan flokka þm. hafi engan lögmæltan rétt til þess að taka þátt í útvarpsumræðum; þetta finnst mér ekki vera höndulegt; mér finnst rétt að lögskipa slíkum mönnum ræðutíma til jafns á við hverja aðra þm., og það er alveg víst, að þeir hafa hver fyrir sig rétt til þess að hafa tiltölulega jafnmikinn ræðutíma við útvarpsumræður eins og fyrir utan þær. Ég hefi því viljað mælast til þess, að hv. n. athugaði þetta atriði betur og breytti þessu ákvæði þannig, að utan flokka þm. verði einnig veittur lögmæltur réttur til þess að taka til máls við útvarpsumræður. Ég þykist nú vita, að gegn þessari réttlætiskröfu verði færð fram þau rök, að með þessu móti geti orðið örðugt að skipa niður ræðutímanum í útvarpinu, sem er tímabundið, svo sem kunnugt er. Ég skal ekki neita því, að svo geti farið, en ef þess þætti þörf, þá sé ég ekki betur en að það mætti skipa þessu á einhvern annan hátt. Útvarpsumræður eru miðaðar við flokka, en flokkar eiga, hvað það snertir, alls ekki meiri rétt á sér tiltölulega heldur en hver einstakur þm.; nú geta og flokkar verið misstórir, og því getur þetta orðið hálfkátbroslegt í sumum tilfellum; t. d. er því svo háttað í þessari hv. deild, að hér eru tveir utan flokka menn, en hinsvegar á viss flokkur ekki nema einn mann í d.; sá maður hefir samkvæmt ákvæðum frv. rétt til þess að njóta fullra flokksréttinda 15 þm. í þessari hv. deild, og virðist þessum réttindum þá vera nokkuð misskipt. Ég hygg því, að það hefði getað komið til mála, ef þörf þætti á því að takmarka ræðutímann, að setja reglur um það, hversu margir menn þurfa að vera í flokki til þess að hafa fullkomin flokksréttindi; það er gamalt mál, að fimm séu flokkur, og mætti sjálfsagt miða við það, en ég býst ekki við, að svo langt verði gengið, og skal heldur ekki leggja það til; en mér fyndist mega kveða svo á, að fullan flokksrétt hefðu ekki færri en t. d. þrír menn; með því móti gæti komizt nokkur jöfnuður á. Sem utan flokka maður mun ég ekki bera fram brtt. um þetta, en ég vil skjóta því til hv. n., að hún reyni að finna ráð til þess að lagfæra þetta, sem vissulega fer illa á og mér finnst satt að segja höggva nokkuð nærri stjskr.