12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Hannes Jónsson:

Ég hafði ekki ástæðu til þess að taka þátt í umræðum um þetta mál, þegar það var til 2. umr., en ég veitti því strax eftirtekt, að breyt. sú, sem gerð er á þingsköpunum með 5. gr. frv., nær ekki þeim tilgangi, sem ég býst við, að ætlazt sé til með því að gera þessa hreyfingu á þingsköpunum. Samkvæmt ákvæðum 5. gr. er það skýlaust fram tekið, að hver flokkur eigi að tilnefna jafnmarga menn til Ed. eins og hann hefir atkvæðamagn til í þinginu; þetta er skýlaust tekið fram; það er ekkert talað um það t. d., að tveir flokkar geti sameinazt og fullnægt í sameiningu hlutdeild sinni í skipun Ed.; um þetta stendur ekkert í ákvæðum gr., heldur er einungis miðað við hvern flokk út af fyrir sig. Ég gæti fært augljóst dæmi fyrir því, að svo gæti verið háttað um skipun þingsins, að ósamræmi það, sem á að sneiða hjá um skipun deildarinnar, yrði jafnáberandi eftir sem áður. En það þarf ekki einu sinni til. Við getum tekið þingið, eins og það er nú skipað, sem dæmi. Ég vil spyrja: Hversu marga menn ætti hver núverandi þingflokkur að senda upp í Ed., ef kosning færi fram til þeirrar deildar t. d. í dag? Framsfl. gæti sent 5 menn og fengi 3 atkv. á hvern kosinn mann, jafnaðarmenn fengju 3 menn kosna og 31/3 atkv. á hvern og Sjálfstfl. gæti tilnefnt 7 menn og fengi þá 26/7 atkv. á hvern mann; þá eru komnir 15 menn í d., og vantar þá einn mann í hana, svo að hún geti talizt fullskipuð. Hver á að tilnefna hann? Ef Framsfl. bætir við sig einum manni, svo að þeir verði 6, þá fá þeir 2½ atkv. á mann; ef jafnaðarmenn bæta við sig einum, þá hafa þeir líka 2½ atkv. á hvern fulltrúa, og ef sjálfstæðismenn senda einn til í Ed., þá hafa þeir einnig 2½ atkv. á hvern sinna manna. Útkoman verður því sú, að þessir flokkar standa allir jafnt að vígi með útnefningu 16. mannsins. Hvernig á að fara að í þessu efni? Það er ekki hægt að fara öðruvísi að samkvæmt orðalagi gr. en að láta hlutkesti ráða því, hvaða flokkur skuli senda 16. manninn til Ed., en þá gæti svo farið, að þeim tilgangi frv. yrði ekki náð, að meiri hl. þingsins hefði meiri hl. í Ed.; hlutkestið gæti t. d. fallið þannig, að Sjálfstfl. fengi að tilnefna l6. manninn, svo að hann ætti 8 menn alls í Ed.

Ekki er þetta frv. nú betur hugsað en svo, að á því er svona stórt gat frá þeim, sem hafa undirbúið það, áður en það var lagt fyrir þingið, og hv. þd. gengur þannig frá frv. við 2. umr., að þetta gat helzt. Nú þykir mér ekki óráðlegt fyrir þá hv. n., sem hefir málið til meðferðar, að hún fái málinu frestað til frekari athugunar á því, svo að hún geti troðið í götin, sem á því eru.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 138 undir tölul. 2 vil ég segja það, að ég teldi sanngjarnt, að réttur utanflokkaþm. til þátttöku í útvarpsumræðum væri á nokkurn annan veg en hér er ætlazt til. Ég skal náttúrlega ekki mæla á móti því, að utanflokkamenn hafi rétt til þátttöku í útvarpsumræðum, en mér finnst réttast að haga þessu þannig, að hver utanflokkaþm. hafi rétt á móts við hvern þingflokk, deilt með þeirri tölu utanflokkaþm., sem sæti eiga á þingi. Þetta er sú eina rétta leið, og fullkomlega réttmæt gagnvart þessum mönnum, því að samkvæmt till. hv. 1. landsk. er gert ráð fyrir því, að enginn einn utanflokkaþm. fái meiri tíma en til hálfs á við heilan flokk, en hinsvegar gæti svo farið, að tveir eða fleiri utanflokkaþm. hefðu það ólíkar skoðanir, að þeir yrðu engu bættari hver út af fyrir sig, þótt þeir fengju að nafninu til allir í sameiningu rétt til þátttöku í útvarpsumræðum á við heilan flokk.

Þetta ákvæði í brtt. hv. 1. landsk., held ég, að beri að skilja þannig, að ef utanflokkamennirnir eru t. d. 3, þá eigi þeir hver um sig að fá 1/3 af ræðutíma þeim, sem þeim er öllum skammtaður í sameiningu, en ekki t. d. einn af þeim helming ræðutímans og hinir tveir 1/4 af honum; en um þetta atriði er samt ekkert tekið fram beinlínis, svo að ég tel hyggilegra að ákveða greinilega fyrirfram, hvernig skipta skuli umræðutímanum á milli utanflokkamanna. Það getur líka oft komið fyrir, að sumir utanflokkamenn séu stuðningsmenn stj., en aðrir aftur andstæðingar hennar; í því tilfelli þyrfti að vera fyrirfram ákveðið, hvernig ætti að skipta ræðutímanum á milli utanflokkamannanna; það gæti t. d. komið til mála að skipta honum þannig, að þeir, sem eru utan flokka, fengju að taka þátt í útvarpsumræðum á þann veg, að þeir sem eru stuðningsmenn stj. fengju helming af ræðutímanum á móts við heilan flokk, og andstæðingarnir hinn helminginn.

Mér sýnist ástæða til þess að athuga þetta nokkuð nánar, og vildi ég því vænta þess, að hv. n. tæki þetta mál til nánari athugunar, ef umr. verður frestað, sem mér sýnist varla unnt að komast hjá, svo að hægt sé að fá í 5. gr. frv. skýlaust ákvæði til þess að ná því takmarki, sem mér virðist vera stefnt að með þessari gr.