12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (515)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Jörundur Brynjólfsson:

Ég get verið allri hv. allshn. þakklátur fyrir afgreiðslu hennar á þessu máli, en sérstaklega þó hv. meiri hl. hennar, sem fallizt hefir á öll höfuðatriði frv., og einnig hv. minni hl. fyrir að fallast á mörg helztu atriðin. Það er aðeins eitt atriði, sem hv. minni hl. hefir ekki getað fallizt á, og er það viðvíkjandi því, hverjar skyldur hv. þm. hafa gagnvart atkvgr. á þingi. Hv. 8. landsk. sagði við 2. umr., að hann gæti fallizt á mörg ákvæði frv., og taldi þau til bóta, enda efast ég ekki um það, að hver viti borinn maður, sem nokkra þekkingu hefir á þessum efnum, geti verið sammála okkur um þau atriði. Því undarlegra þótti mér, þegar hv. þm. sagði, að einhver annar tilgangur væri með þessu frv. heldur en sá að reyna að ráða bót á því, sem miður fer í þessu efni, og það gott, sem frv. hefði í sér fólgið, væri ekki flutt með það fyrir augum að gera bætur á þingsköpum og löggjöf í þessu efni. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. fer að finna þetta út úr þessu máli, og þykir það harla einkennilegt. Hitt þykir mér leiðinlegt, að andstæðingar þessa máls skuli halda svo fast við sem þeir gera, að það sé um stjórnarskrárbrot að ræða í sambandi við ákvæðin í 10. og 20. gr., sérstaklega þegar þess er gætt, að það má rekja þessi ákvæði til þess, er við fyrst fengum stjskr. Og þó að þessi ákvæði séu ekki fullkomlega eins, eða þó annað orðalag sé á núgildandi ákvæðum, þá er áreiðanlegt, að þar er um athugaleysi í þýðingu að ræða, og annað ekki, því að þessar 2 gr. stjórnarskrárinnar lúta báðar nákvæmlega að því sama. Til frekari rökstuðnings má á það benda, að ákvæði þingskapanna voru upphaflega miðuð við stjórnarskrána frá 1874, sem var mjög rækilega gerð grein fyrir á síðasta þingi, og enda nú einnig af hv. 1. landsk. og ætla ég ekki að fjölyrða um það frekar. Þau fyrstu þingsköp, sem sett voru eftir þeirri stjórnarskrá, giltu hér þangað til 1905, og voru sett af þeim mönnum eða mörgum af þeim, sem tóku við hinni nýju stjskr. og voru því allra manna kunnugastir, hvernig skilja bæri þessi ákvæði. En 35. gr., sem ræðir um þetta efni, var breytt frá því sem áður var ákveðið, og sett um þetta fyllri ákvæði. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa þá gr. upp, svo að menn geti séð orðalag hennar:

„Hvorug þd. má gera ályktun um neitt mál, nema að minnsta kosti tveir þriðjungar þm. séu á fundi og greiði atkv. Skyldur er hver þm. að vera viðstaddur, þegar atkvæði eru greidd, nema hann hafi lögmæt forföll eða fararleyfi (42. gr.). Nú greiðir þm. ekki atkv. að viðhöfðu nafnakalli, og er hann þá skyldur að leiða rök að því, hversvegna hann ekki greiðir atkv. Ber forseti þá undir þing eða þingd., hvort ástæður þm. skuli gildar taka. Ef þing eða þd. ógildir ástæður þessar, skal svo álíta, að þm. hafi greitt atkv. með meiri hlutanum. Sama á sér stað ef hann skorast undan að gera grein fyrir aðferð sinni. Þó er honum heimilt að láta bóka málavöxtu. Afl ræður við atkvæðagreiðslur, nema þar um öðruvísi sé ákveðið í stjórnarskránni og þingsköpunum.“

Það er enginn vafi á því, að þeir þm., sem samþ. þingsköpin eftir stjórnarskránni frá 1874, hafa skilið ákvæðin þannig, að þm. væri gefin kostur á að taka þátt í atkvgr. Og ég hefi athugað, að þeir menn, sem sömdu þingsköpin og tóku við stjskr., eru margir hinir sömu og einmitt þeir menn, sem miklu hafa ráðið um afgreiðslu mála á þeim tíma, og hafa haft fullkomna þekkingu á ákvæðum stjskr. og hvernig þau bæri að skilja. Þó að ég eins og ég sagði við umr. þessa máls á síðasta þingi, hefði kosið, að ákvæði stjskr. einmitt um þetta atriði hefðu verið fyllri, þá er ekki nokkur vafi á því, hver meiningin hefir verið upphaflega í þessum sökum. Orsökin til þess, að við viljum nú ákveða þetta í því upphaflega formi, er sú, að það hefir ósjaldan komið fyrir, að menn hafa komið sér hjá að greiða atkv., sem hefir þó orðið til þess meira að tefja fyrir afgreiðslu mála heldur en að það geti ráðið úrslitum þeirra. Ég get fallizt á brtt., sem liggja hér fyrir frá hv. 1. landsk. og hv. þm. Borgf. Ég þarf ekki um þær að fjölyrða. Aðeins vil ég benda hv. þm. Borgf. á það, að það er of mælt hjá honum, að það sé um stjórnarskrárbrot að ræða, þó að 16. gr. væri samþ. eins og hún hljóðar í þessum þingsköpum. Það er ekkert í þeirri gr., sem kemur í bága við ákvæði stjskr. um þetta efni. Hitt er annað mál, að þau eru ekki tæmandi, og það er sennilega óviljaverk, að þetta ákvæði hefir fallið niður við endurprentun þingskapanna 1920, því þetta hefir staðið í þingsköpunum, og á að standa þar; þó eru ákvæðin ekki tæmandi. En úr því að ekkert er í þeim, sem brýtur í bága við ákvæði stjskr., þá er það ekki stjórnarskrárbrot. Hinsvegar er ég sammála hv. þm. Borgf. um það, að það færi betur á því, að þetta stæði þarna. Og að gr. hefir verið prentuð svona, er fyrir sömu vangá, eins og þegar ákvæðin féllu niður. Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta frekar af minni hálfu.