12.03.1936
Neðri deild: 22. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í B-deild Alþingistíðinda. (516)

7. mál, þingsköp Alþingis

*Jakob Möller:

Ég er hræddur um, að þessi ræða hæstv. forseta hafi misst marks, svo um muni. Hann hefir verið að lesa hér upp úr gömlum l. misskildar útskýringar á ákvæðum stjskr., og þær misskildu útskýringar hafa ekkert sönnunargildi í þessu máli. Mér þykir leitt, að hæstv. forseti skuli vera farinn af fundi, því að það, sem ég ætlaði að segja, stóð í beinu sambandi við ræðu hans. Ég gæti náttúrlega farið að teygja lopann eitthvað annað, en mér finnst það harla óviðeigandi, þar sem enginn ágreiningur er um það. (GSv: Þingsveinn gæti kannske sótt hæstv. forseta). Ég held það þýði ekki, hann er sjálfsagt að gegna þýðingarmeiri störfum en hann hefir hér. Ég verð þá að treysta því, að einhver verði til þess að flytja honum skilaboð um það, hvað ég hefi við ræðu hans að athuga. Þessi útskýring á ákvæðum stjskr. er svo vitlaus, að það er þraut fyrir menn, sem eiga að teljast með fullri skynsemi, að tala um þetta á hverjum fundi eftir annan. Það má auðvitað útskýra í vitleysu hvert einasta atriði stjskr. með því að segja, að þetta og þetta ákvæði eigi ekki að þýða þetta heldur eitthvað annað. Nú skulum við taka atriði, sem liggur miklu nær. Hér er um það rætt, að til þess að lögmæt samþykkt máls fari fram, þá þurfi meira en helmingur þm. að vera á fundi og greiða atkvæði. Ef þm. greiðir ekki atkv. og tilgreinir ekki ástæðu, þá telst hann eigi að síður greiða atkv. Eina ráðið fyrir mann, sem ekki treystir sér að greiða atkvæði um mál, er að ganga af fundi. Næsta óhjákvæmilega sporið er því að slá varnagla við þessu og bæta við gr. ákvæði um það, að þm., sem sé farinn af fundi, án þess að boða forföll, hann teljist eigi að síður vera á fundinum og greiða þar atkv., og það er í rauninni alls enginn munur á þessu tvennu. Mér datt í hug út af aths. hv. þm. Borgf., sem er náttúrlega ómótmælanlegt, að ákvæði 16. gr. eru ekki sambærileg við ákvæði stjórnarskrárinnar um það, að til þess að lögmæt samþykkt sé gerð, þurfi meira en helmingur þm. í hvorri d. að vera á fundi, en frv. segir, að meira en helmingur þm. þurfi að vera á fundi. Þarna þarf að bæta við og segja, að meira en helmingur hvorrar d. þurfi að vera á fundi, annars er ákvæðið alls ekki fyllilega í samræmi við ákvæði stjskr. Tilgangur stjórnarsinna er vissulega enginn annar en sá að breyta þessu af því, að þetta passar ekki í þeirra kram, og ef reynslan verður sú, að þetta dugar ekki, ef stjórnarandstæðingar finna t. d. upp önnur ráð til þess að hindra framgang mála, t. d. ganga af fundi, þá halda þeir áfram með skýringarnar og segja, að maður, sem ekki er á fundi, skuli þó teljast viðstaddur og greiða þar atkv., svo framarlega sem hann hefir ekki boðað lögmæt forföll.