07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 128 í B-deild Alþingistíðinda. (53)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti. — Hæstv. fjmrh. hafði nú engin rök í sínu svari til mín annað en lítilfjörlega kviksögu í sambandi við áfengistoll, sem gengi til sveitarfélaga. Þó að orð mín væru úr sambandi tekin og þess vegna gætu misskilizt, þá get ég tekið það fram, að af því að ég er á móti víni og vínnautn, vil ég tolla áfengi það hátt, að sem minnst verði drukkið af því. Og af því að ég tel, að sveitarsjóðir verði mjög víða fyrir þyngslum af afleiðingum áfengisnautnar, þá tel ég sanngjarnt, að sveitar- og bæjarsjóðir fái sem mest af þeim tolli. Það er sjálfsagt endurgjald fyrir þau þyngsli, sem á þá eru lögð að opinberri tilhlutun með vínsölu. Og ég tel það alveg sjálfsagt mál að þegar ríkið selur þjóðinni vín svo ótakmarkað, að það nemur hálfri fjórðu millj. kr. eða meiru en andvirði allra jarða í fimm sýslum landsins, þá fái sveitar- og bæjarfélögin einhverja uppbót fyrir það böl, sem þannig er leitt yfir þau t. d. með hluta af áfengistollinum.

Hæstv. fjmrh. ætti að getu skilið það, eins og aðrir að þeir sem víninu unna, þeir óska ekki eftir hátolli en þeir sem vilja draga úr vínnautn — eða þá tóbaksnautn — vilja aftur á móti hátolla þessar vörur. Og ég þykist hafa sýnt það í meira en 30 ár, að ég er andstæður vínnautn.

Hinu reyndi hæstv. fjmrh. alls ekki að svara, hvers vegna er neitað um innflutning á netum á ýmsum byggingarefnum og ýmsum efnivörum til smáiðnaðar á sama tíma og flutt er inn ótakmarkað vín. Það er rétt, sem ég sagði hér á þingi fyrir skömmu, að áfengisverzlunin hafi jafnvel skammt frá sjálfum stjórnarráðsdyrunum tæpt á fremstu nöf laganna með áfengissölu um síðustu áramót. Og sem sönnun fyrir því get ég bent á það, sem ég hefi áður nefnt, að áfengisvarnarnefnd hefir kært áfengisverzlun fyrir þetta framferði sitt.

Þá kem ég að hæstv. forsrh. Þegar forsrh. var kominn fram í ræðu sína í gærkvöldi. kom mér í hug orð manns nokkurs, sem var að drekka kaffi hjá kunningja sínum. Hann sagði í glettni: Alltaf ertu fornbýll, húsóndi, þú átt gamlar lummur! Hæstv. ráðh. gat ekki með einu orði hrakið þær tölur, studdar staðreyndum, sem ég bar fram, og hann var að því leyti svo vitur, að hann reyndi það ekki hið allra minnsta. Þessi húsbóndi þjóðarinnar var svo lélegur veitandi, að hann átti ekki einn einasta nýbakaðan kökuhita á kaffiborðið í eldhúsinu. Hann átti ekki annað fram að bera en sömu lummurnar, sem hann hefir verið að reyna að bera fram á eldhúsborðið á undanförnum þingum. En þær segja það a. m. k., konurnar, að þegar lummurnar eru orðnar þetta eins til tveggja ára gamlar, þá geti þær varla talizt mönnum bjóðandi. En fyrst þessi þjóðarinnar húsbóndi hafði ekki upp á annað að bjóða, þá verður allt til vorkunnar að virða og ekki þarf ég að kvarta.

Ég ætla nú fyrir kurteisissakir við hæstv. forsrh., án þess að þurfa vegna þeirra áheyrenda, sem nokkuð hafa fylgzt með, rétt að líta á þessar gömlu lummur.

Ein hin helzta var sú, að ég hefði haft heimild í l. nr. 90 frá 1933 til að skipuleggja kjötsöluna innanlands um haustið. Hann hefir borið þessa sömu lummu á borð á fyrsta þinginu, sem hann sat. Ég sýndi þá fram á, hver fjarstæða þetta var frá lögfræðilegu sjónarmiði, sýndi það svo ljóslega, að þjóðarhúsbóndinn gaf upp alla vörn. Í röksemdaþrotum sínum á síðasta þingi bar hann þó aftur á eldhúsborðið þetta sama ómeti; þá vitnaði ég til fyrri raka minna, og hann gafst enn upp. Og nú kemur hann í þriðja sinn með lummuna hina sömu. Fyrr má nú vera Fróðárselshausnáttúra! Ég gef mér ekki tíma til að fara að rekja þetta mál enn á ný; menn getu lesið ræður mínar í Alþt. frá 1934. Ég bar þetta undir glögga lögfræðinga, sem staðfesta þessa skoðun mína. En vegna þeirra, sem ókunnugir eru, vil ég rifja upp eitt atriði.

Þegar stj. tók við völdum, stóð þannig á, eins og aldrei áður, fyrir íslenzkum landbúnaði, að búið var að loka báðum mörkuðunum fyrir íslenzkt kjöt. Stj. tókst fyrir frábæra lægni utanríkismálaráðherrans að opna saltkjötsmarkaðinn, þannig að við fengum stórmiklar ívilnanir í tolli frá því áður. En á þingi 1933 var ekki enn fullgengið frá samningum við England. Og af því að þeir samningar voru í óvissu, gekk þingið inn á að setja þessi ákvæði í l. nr. 90 frá 1933, sem ég nefndi. þ. e. að ef kjötbirgðir innanlands yrðu ofætlaðar, þá mætti setja reglugerð um skipulagningu sölunnar. Þessi heimild var beint bundin því skilyrði, að til hennar yrði því aðeins gripið, að enski markaðurinn yrði svo takmarkaður, að við gætum ekki selt okkar freðkjöt þangað, m. ö. o. að hér yrði allt of mikið kjöt innanlands. Úr þessu rættist og tókst að fá þann freðkjötsmarkað í Englandi, sem þurfti þá á að halda. En vegna þess var grundvöllurinn undir þessari áðurnefndu lagasetningu horfinn burt. Ég spurði hinn glöggasta lögfræðing, hvort standast mundu fyrir dómi framkvæmdir samkv. reglugerð, sem sett væri undir þessum breyttu aðstæðum, og kvað hann nei við. Og til hvers var að setja reglugerð sem ekki hefði getað staðizt fyrir dómstólum? Þetta sýndi ég ljóslega fram á á þingi 1934, og geta menn lesið það í þingtíðindum. Og ætla ég, að þeim, sem það lesa, lítist ekki á selshausinn, sem enn kemur upp.

Þá kom hæstv. forsrh. með mjólkurlögin frá 1933. Formaður Tímaflokksins hafði æ ofan í æ álasað mér fyrir að framkvæma ekki þau l., og hæstv. forsrh. hefir annað veifið gert það líka, þó að hann hefði þar sjálfur erfiða aðstöðu, þar sem hann kom til mín sem lögreglustjóri og vildi fá framkvæmd l. frestað um tiltekinn tíma. Nú segir hann og, að l., ef framkvæmd hefðu verið, hefðu orðið til hins mesta tjóns fyrir Árnessýslu. Er ég þá ámælisverður, eins og formaður Framsóknarflokksins heldur fram, fyrir að framkvæma ekki l., sem forsrh. þess sama flokks telur, að verið hefðu til tjóns fyrir Árnessýslu? Svona er samræmið. Annars var atkvæðamagn til í Ed. til þess 1933 að fá lögin fyllri, en að ráðum tveggja aðalmanna mjólkursamlaganna bæði austan heiðar og vestan heiðar var þetta látið vera svona, af því að þá var komið að þinglokum og nokkrir sjálfstæðismenn, sem áttu sæti í Nd., gátu neitað um afbrigði til þess að málið gengi fram. Við eina umr. í Nd. talaði Bjarni Ásgeirsson fyrir lögunum, en forsrh. hafði sjálfur skrifað konungi, að l. væru ónothæf. Svona stangaðist hvað við annað hjá þeim Tímamönnum.

Lumman um jarðræktarlögin er líka gömul og fyrst steikt af fljótfærnasta manni, sem við landbúnaðarmál fæst. En hér hefir hæstv. forsrh. reynzt heldur um of trúgjarn. Hvernig heldur hann t. d., að hægt sé með reglugerð að breyta ákvæðum um hlöður, vermireiti, gróðurhús, jarðyrkjuvélar, kornskurðar- og þreskivélar? Hvernig ætlar hann að ákveða með reglugerð, að hlöður úr öðru efni en steini fái styrk, eins og gert er ráð fyrir í frv. Bændafl., þar sem 1., sem nú gilda, taka beint fram, að styrkurinn sé því skilyrði bundinn, að hlöðurnar séu gerðar úr steini eða steinsteypu? Hvernig ætlar hann með reglugerð um breytingu dagsverka að veita styrk til vermireita og gróðurhúsa, þar sem vermireitir og gróðurhús eru alls ekki nefnd í núgildandi jarðræktarlögum? En þau mannvirki eiga að fá styrk samkv. frv. Bændafl. Hvernig ætlar hann með öðrum dagsverkareikningi að hækka um helming styrk til jarðvinnsluvéla. þar sem 1. miða eingöngu við kostnaðarverð? Eða að gera kornskurðar og þreskivélar styrkhæfar, þar sem þær eru hvergi nefndar í núgildandi jarðræktarlögum?

Hvernig ætlar hann yfir höfuð að leggja vélar í dagsverk? Nei, hæstv. forsrh. má vara sig á vinum sínum, þegar þeir ætla að umbæta hans röksemdafátækt

Hæstv. forsrh. benti réttilega á það, að hans flokkur hefði komið nokkuð á móti búnaðarfélaginu með frv. um grænmetisverzlun, og hefi ég á sínum tíma þakkað fyrir það, þó að verðlaun fyrir uppskerumagn séu að vísu vafasamari grundvöllur fyrir styrk en dagsverk í unnu kartöflulandi og girðingum, því að uppskerumagnið fer eftir veðráttunni, og hún getur verið mismunandi í landshlutum. Hvers á t. d. bóndi í Strandasýslu að gjalda, þó að hann fái ekki nema fjórfalda uppskeru, þegar menn hér fá áttfalda eða tólffalda uppskeru? Hvers vegna á hann að fá allt að þrefalt minni styrk fyrir að vinna jafnstórt land og kosta þeim mun meira til í áburði og ummönnun sem veðráttan er óhagstæðari? Hvers á hann að gjalda? Á hann að segja: Mér var þetta mátulegt, úr því að ég kaus ekki hyggnari búnaðarfrömuð en Hermann Jónasson?

En svo er ekki allt búið enn með búnaðar- hyggindi hæstv. forsrh. Því að um leið og hann ætlar að veita verðlaun fyrir uppskerumagnið og hvetja menn til garðræktar. þá dregur hann að sér höndina um áburðarstyrkinn og lækkar hann um 15 þús. kr. Og nú kvað eiga að lækka þetta enn meir! Veit hann ekki að höfuðskilyrði garðræktar með árangri er áburðurinn? Menn ættu að lesa grein frá góðum búnaðarfrömuði í Frey um það mál. En svona er fátið og flumbruhátturinn. Vitandi eða óafvitandi er tekið aftur með annari hendinni, sem rétt er með hinni.

Hæstv. ráðh. gat ekki hrakið það, sem ég sagði um niðurstöðuna af framkvæmd mjólkurlaganna, sem fært hafa framleiðendum í heild tap, í stað þess 22 au. gróða, sem Tímamenn lofuðu fyrir kosningarnar. Hann var og að segja, að blaðið Framsókn hefði alls ekki getið um niðurstöðuna frá búi Flóamanna eða aðalfundar þess. Blaðið gat þess strax eftir fundinn, að hann hefði verið haldinn og að mjólkurverðið hefði hækkað frá því á síðasta ári, og gat þess, að það mundi verða nánar sagt frá þessu seinna, þ. e. blaðið vildi bíða eftir að sjá reikningana, er segðu gerr og glöggar frá.

Hæstv. forsrh. sagði, að vinnslubúin öll fengju 19,5 au. nú fyrir mjólkina. En það er aðeins Flóabúið eitt sem fær. Hin fá miklu minna. Hann þakkaði mjólkursölul. fituaukninguna í Flóabúinu og öðrum búum. Með þessum blekkingum fékk hann út 2 au. hagnað.

Í mjólkurmálinu kom hæstv. ráðh. ekki með eina einustu röksemd móti rærðu minni. Það voru allt saman gömlu lummurnar. Jafnvel það eina, sem í fljótu bragði mátti virðast nýtt, það var líka gamalt. Það var þegar hann taldi sér það líka til málsbóla, sem mjólkin var hærri fyrir það. hvað hún var feitari s. 1. ár en árið áður. Fitumagnsaukningin stafaði af betri heynýtingu, betri veðráttu en sumarið áður. Og það er heldur ekki nýtt að þakka góða veðráttu góðum mönnum. Erlendum gesti var eitt sinn þakkað góða veðrið, meðan hann stóð hér við. En ég veit ekki, hvort ég á að þakka hæstv. forsrh. góða veðrið fyrir austan.

En hann gleymdi að tala um þann mismun, sem mörgum finnst gerður milli búanna um úthlutun verðjöfnunargjaldsins. Hann gleymdi að geta um það, að Mjólkurfélag Borgfirðinga, sem hefir eina milljón lítra, fær ekki nema rúmlega 1/5 verðjöfnunargjalds móti öðru búi, sem hefir 3 milljónir. Hann gleymdi, að sama bú, sem hefir 1/3 af framleiðslu móti öðru búi, fær aðeins rúmlega 1/6 af rjómasölu þess og aðeins 1/5 af skyrsölu, í stað þess að það ætti að fá 1/3 af hvorutveggja. Hann gleymdi, að þetta bú, sem hefir eina milljón lítra innvigtaða mjólk, fær aðeins 13 þús. í verðjöfnunargjald, þar sem annað bú, sem hefir 3 milljónir, fær 150 þús. Hjá öðru búinu er því verðjöfnunargjaldið 1,3 au, á lítra, en hinu 5 au. á lítra af innvigtaðri mjólk. Þó að annað búið hafi niðursuðu, skiptir það engu máli í þessu sambandi, því að l. gera ráð fyrir uppbót á alla vinnslumjólk. Hjá þessu búi taldi forsrh. gróðann vera (0,8 au. á lítra. En reikningarnir sýna, að vinnslukostnaður hefir lækkað um 11.6 au. á lítra, og ekki er að þakka stj. svo að eftir eru aðeins 0,2 au. á lítra. En jafnvel sú hækkun er ekki l. að þakka, því að búið hefir borgað eignir sínar minna niður en áður.

Borgfirðingar hafa gert samþykkt um þetta þar sem þeir lýsa óánægju sinni og heimta lagfæringu á framkvæmd laganna, og nægir þar að vísa til samþ., sem gerð var á fundi Kaupfélags Borgfirðinga í e. hlj., þar sem skorað var á landbúnaðarráðh. að sjá svo til að þessu yrði kippt í lag.

Hæstv. forsrh. var að minna á bakaratilboðið. Þau tilboð, sem því fylgdu, fólu í sér 31/3 eyris gjald fyrir það, sem samsalan hefir tekið 6 au. fyrir. En meðan samsalan skilar engu af þeim 6 aur. aftur, þá ætti hæstv. ráðh. sem minnst að tala um það tilboð. En þar sem hæstv. forsrh. var að tala um gróða Gullbringusýslubúa af gerilsneyðingargjaldi, þar fór hann, sem vita mátti, með rangt mál. Hann vildi gera gróðann 2 au., og eftir því hefði gerilsneyðingin ekki átt að kosta nema 1 eyri á lítra. En þar, sem hún er ódýrust á Norðurlöndum, kostar hún um 3 au. í íslenzkum peningum. Þetta er einmitt verðið í Oslo. Hér hefir hæstv. ráðh. gert brot úr eyri að 2 au., og má þá segja, að flest fari að einu hjá forsrh.

Út af þeirri gömlu tuggu, að ég hafi árið 1933 talið 72 au. nógu hátt verð fyrir kjötið, skal ég enn vísa til þingtíðindanna, sem sýna ljóst, að ég taldi þetta verð ekki nóg. En það var um það að ræða, hvort ætti að bæta up það verð sem hafði hækkað um 50% frá því árið áður. Allir vonuðu að kreppunni væri að létta og við töldum meiri þörf að bæta upp saltkjötið, sem var aðeins 54 au. Það er fremur kleift fyrir íslenzka bændur að þola tap á búrekstri í eitt eða tvö ár heldur en að staðaldri. En það datt okkur ekki í hug að kreppan mundi verða jafnlengi og hún hefir verið. Þess vegna var jafnframt á þessu sama þingi samþ. þál. um það að tryggja bændum framleiðsluverð framvegis, og get ég þar vísað til þáltill., sem Jón í Stóradal bar fram og var samþ. þrátt fyrir mótmæli formanns Framsfl.

Ég varð næstum undrandi á því, að hæstv. forsrh. skyldi fara að minnast mikið á kjötlögin, og þó enn meir forviða á því, að hann skyldi vitna í reikninga hv. 2. þm. N.-M., Páls Zophóníassonar, máli sínu til stuðnings. Því að hann er kunnur að því að reisa allfávíslegar niðurstöður á allskonar reikningum. Má í því sambandi minna á þá eftirminnilegu útreið, sem hann fékk hjá kennara á Hvanneyri, Þóri Guðmundssyni. Nú hyggst þessi hv. þm. (PZ) að hafa fundið öruggan mælikvarða um það, hvað kjötlögin hafi hækkað kjötverðið frá því, sem annars hefði urðið. Þennan örugga mælikvarða þykist hann finna með því að bera saman verðið 1933 og 1934 hjá kaupfélögunum. Og hann heldur fram, að öll hækkun á útborgun félaganna sé kjötlögunum að þakka. Nú veit ég ýms dæmi, sem sanna það gagnstæða. Og ég tek eitt. Sláturfélagið á Blönduósi borgaði 10 au. hærra fyrir kjötkílóið 1934 en það gerði 1933, en kaupfélagið á Sauðárkrók aðeins 3 au. hærra. Bæði félögin búa við sömu skilyrði. Græddi nú sláturfélagið á Blönduósi þetta meira á kjötlögunum heldur en kaupfélagið á Sauðárkróki? Kaupfélagið á Dýrafirði hækkaði verðið um 17 au. en kaupfélagið í Önundarfirði hækkaði það aðeins um 5 au., kaupfélagið í Búðardal um 14 au., en á Borðeyri um 12 au. Þetta sýnir, að grundvöllurinn hjá hv. 2. þm. N.-M. er bara sandur. Enda er þetta ekkert undrunarefni. Það eru svo margir aðrir hlutir en kjötlögin, sem koma til greina við verðákvörðun hjá kaupfélögunum. Rekstrarkostnaður heima fyrir, verð á útskipun, getur t. d. haft allmikil áhrif, mismunur á rafmagnsverði í frystihúsum o. m. fl. Sum félög tóku við verðlagið 1934 mikið tillit til þess, að þatð létti stórkostlega undir rekstur frystihúsa að fá þann ríkisstyrk, sem fyrrv. stj. útvegaði og veitti til þeirra. Jafnvel eru þess dæmi, að kaupfélög hafa skipt upp nokkru af þeim frystihúsastyrk, sem uppbót á kjötið 1934. Er þetta kjötsölul. að þakka? Vegna örðugleika félagsmanna teygðu sum kaupfélög sig sem allra lengst með verð. Útborgað verð hjá félögum, sem flytja kjöt út, sannar þess vegna lítið um hagnað af kjötsölulögunum, því að þar kemur svo margt til greina annað.

Sá eini hagur, sem þeir bændur, er seldu kjöt á erlendan markað, hafa af kjötsölulögunum. er styrkurinn frá kjötverðjöfnunarsjóði. Og kjöverðjöfnunargjaldið var 138 þús. kr., eða um 5 au. að meðaltali á hvert útflutt kjötkíló. Þetta er hagnaðurinn, og eini hagnaðurinn. Hitt er algerlega villandi, allar þær tölur, sem þessi hv. þm., sem ég áðan nefndi, hefir verið að reyna að hrúga upp.

Um hagnað þeirra bænda sem seldu innanlands, má náttúrlega deila. Það er talið, að Sláturfélag Suðurlands hafi borgað 18 au. hætta 1934 en 1933, og að Eyfirðingar og Ísfirðingar hafi borgað 10 au. hærra. Hversu mikið af þessu er að þakka kjötlögunum er ekki fullvíst verðið á innlendum markaði hefir undanfarið verið miðað að miklu leyti við erlent verð á kjöti árið áður. Þess vegna var verð á innlendum markaði svo lágt 1933, af því að mikil hliðsjón var höfð af verðinu 1932. Þó að engin kjötlög hefðu verið innanlands 1934, hlaut verðið að hækka það ár frá árinu 1933 eitthvað í hlutfalli við verðhækkun á erlendum markaði frá 1932–1933. Það bar þess vegna á engan hátt að þakka kjötlögunum alla verðhækkun á innlendum murkaði 1934; en auðvitað vildi ég óska, að sú hækkun hefði orðið sem mest. Því að það er ekki kjötlögunum sjálfum að kenna að hagnaður varð ekki meiri, heldur aðeins því að framkvæmdin var ekki svo góð sem skyldi. Eitt er víst að árangur kjötlaganna hefir ekki fært mönnum framleiðsluverð. Og yfirráð bænda yfir verði á innlendum markaði eru alveg tekin af bændum. Búnaðarfélagið skipaði n. í fyrra til þess að rannsaka framleiðsluverð. Komst hún að þeirri niðurstöðu, að kostnaðarverð á kjöti væri yfir krónu, og hafa nm. sýnt ljóslega fram á, hversu kostnaðarverð hefir hækkað síðustu tvö árin. Menn skyldi því halda, að stj. hlutaðist til um, að bændur fengju sem hæst verð upp í kostnaðarverð, með því að setja kjötverðið svo hátt á innlendum markaði, að það svaraði sem bezt til þess, eða þá að væri framlag úr ríkissj. til uppbótar; í þriðja lagi að varið væri einhverju af atvinnubótafé til þess að kaupa kjöt handa atvinnuleysingjum. Ekkert af þessu hefir verið gert, heldur þvert á móti haldið þannig á málinu, að mestar horfur eru á því, að kjötverð til bænda fyrir s. 1. ár verði jafnvel stórum lægra en bændur fá fyrir útflutt kjöt, og þó er það jafnvel langt fyrir neðan kostnaðarverð. Sýnir þetta enn sem fyrr, að mikið vantar á, að ríkisstj. hafi séð fyrir afkomu þessa atvinnuvegar.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði gleymt genginn meðan ég var í stj. við, sem erum í Bændafl., vildum einmitt þá koma réttlátri gengisskráningu fram. Bar Tryggvi Þórhallsson það fram á flokkafundum Framsfl. af okkar hálfu. en fékk ekki fylgi meiri hl., heldur harða andstöðu. Það má vel vera, að það hafi verið rétt að ganga harðar að. En við vildum í lengstu lög halda félag, af því að samvinnan að öðru leyti var þá allgóð. Bændafl. flutti svo gengismálið undir eins og hann hafði aðstöðu til, og hefir haldið á því máli síðan.

Hæstv. forsrh. segir, að ég hafi gleymt. Ég skal nú minna hann á hluti, sem hann hefir sjálfur gleymt. Hann gleymdi að svara flestu, sem í minni ræðu stóð. Og hann gleymdi að gata margra sinna eigin verka, sem þó hefði verið ástæða fyrir hann að minnast á. Hann gleymdi að geta um, hvernig ríkisstj. fækkaði dagsverkunum í brúa- og vegavinnunni um 35 þúsund s. 1. ár. Hann gleymdi að gera grein fyrir, að þó að nokkur hl. bænda hafi tapað 105 þús. á mjólkurl. þá hafa hinir ekki grætt nema 70 þús. kr. Hann gleymdi að gera grein fyrir 20 þús. kr. tapinu á brauðbúðum. Og hann gleymdi að tala um ýms sin eigin verk gagnvart landbúnaðinum. Hann gleymdi að geta þess, hvernig stj. kom yfir á landbúnaðinn sjálfan þátttöku í kostnaði af afurðasölunefnd. Hann gleymdi að geta þess. hvernig stj. tók frá ræktunarsjóði 45 þús. kr., sem hann áður hafði. Hann gleymdi að geta þess, hvernig hún lækkaði lögboðið framlag um 10 þús. kr. Hann gleymdi að geta um það, hvernig hann lækkaði framlag til sandgræðslunnar. Hann gleymdi því, að hann lækkaði framlag til sýsluvegasjóða um 50 þús. Hann gleymdi. hvernig hann lækkaði framlag til áburðarkaupa og til Búnaðarfélags Íslands, til búnaðarsambandanna og Ræktunarfélags Norðurlands. Hann gat ekki minnzt á þessi sín eigin verk. Og það eru fleiri verk en þessi, sem þessi hæstv. forsrh. getur ekki minnzt á.