31.03.1936
Efri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (530)

7. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Eins og hv. frsm. n. tók fram, þá var ekki samkomulag í allshn. um öll atriði þessa máls, og þess vegna flyt ég og hv. 10. landsk. nokkrar brtt. á þskj. 254. Þessar brtt. eru fjórar, en í rauninni standa þær allar í sambandi við eina og sömu breyt. á þingsköpunum, sem sé þá, er felst í 16. og 28. gr. þessa frv., um það, að ef einhverjir þm. eru á fundum og taka ekki þátt í atkvgr. við nafnakall, þá skuli það teljast svo, að þeir taki þátt í atkvgr. Við lítum svo á, að slíkt sé ekki samrýmanlegt ákvæðum stjskr. Í 40. gr. stjskr. stendur:

„Þegar Alþingi skipar eina málstofu, þarf meira en helmingur þm. úr hvorri þingd. að vera á fundi og eiga þátt í atkvæðagreiðslu til þess, að fullnaðarsamþykkt verði lögð á mál, ræður þá atkvæðafjöldi úrslitum um einstök málsatriði. En eigi ná þó lagafrumvörp, önnur en frv. til fjárlaga og fjáraukalaga, fullnaðarsamþykki, nema tveir þriðjungar atkvæða þeirra, sem greidd eru, séu með þeim.“

Svo stendur í 48. gr. stjskr., að hvorug þingd. geti gert samþykkt um mál, nema meira en helmingur þingd. sé á fundi og greiði þar atkv. Hér er það m. ö. o. sagt skýrt í 48. gr. stjskr., sem áreiðanlega liggur í 40. gr. hennar, að það þarf meira en helmingur þdm. að greiða atkv. til þess að samþykkja mál. Ef maður tekur t. d. þessa hv. d., þar sem eru 16 þm., þá þurfa fyrst og fremst 9 þm. að vera á fundi til þess, að hægt sé að samþ. mál. Og ef þeir greiða allir atkv., þá er nóg að 5 séu með, þó að 4 séu á móti, til þess að mál sé samþ. En eftir þessari breyt. skilst mér, að það skipti engu máli, hversu margir eru með, ef bara einhver er með, og ef hinir ekki greiða atkv. Ég sé ekki betur en að eftir orðalagi 16. gr. frv. þá sé það nóg, ef einn einasti maður greiðir atkv. með máli, þó að allir hinir sitji hjá, því að eftir ákvæðum 16. gr. frv. eru þeir taldir taka þátt í atkvgr. hvort sem þeir greiða atkvæði eða ekki. Það eitt er sagt í gr., að afl atkv. ráði um einstök málsatriði. Og svo er síðar í mgr. felld burtu sú skilgreining, sem segir fyrir um, hvað sé afl atkvæða. Í þingsköpum er sagt, að við nafnakall sé það að greiða atkv., að gera annaðhvort að játa eða neita. En hér á að ráða þesskonar afl atkvæða, að e. t. v. greiði aðeins einn þm. atkv. með máli, en hinir allir sitji hjá. Mér finnst það alls ekki vera ströng krafa, sem nú er gerð í þingsköpum til þess, að mál nái samþykki í Ed., að 5 þdm. séu með, þó að 4 séu á móti, ef ekki eru nema 9 á fundi. En þessi krafa er nú mjög sett niður með áminnstu ákvæði. Þetta atriði gæti þó kannske verið athugunarvert, ef ekki stæði svo á, að skýrum stjskr. ákvæðum um þetta atriði verður ekki breytt með einföldum lögum, eins og allir vita.

Það er kunnugt að ástæðan til þess, að lagt er til, að þetta ákvæði verði sett inn í þingsköpin, er sú, að það hefir stundum komið fyrir, að andstæðingar máls hafa neitað að greiða atkv. við nafnakall og einnig neitað að gera grein fyrir því, hvers vegna þeir greiddu ekki atkv., þegar þeir sáu, að þeir gátu með því stöðvað mál í bili. En er þetta nú svo hættulegur hlutur? Mér er ómögulegt að sjá að svo sé, því að ef virkilega er til í þinginu eða d. meiri hl. fyrir máli, þá kostar þetta ekkert annað en það, að atkvgr. um málið verður að dragast til næsta dags, þangað til allir geta verið á fundi, sem fylgja því. Sé sá meiri hluti aftur á móti ekki til, á málið að falla.

Það má í þessu sambandi minna á, að það er skylda þm. yfirleitt að vera á þingfundum og greiða atkv. Það segja þingsköp. Þess vegna er skyldubrot að greiða ekki atkv. og líka að vera ekki á fundi. Svo er sett kórónan á alla þessa málsmeðferð með því, að samtímis því að það á að þvinga menn til að greiða atkv., þá er jafnframt numið í burtu það refsiákvæði, sem tiltekur viðurlög við því að greiða ekki atkv. Eitt er þó víst, og það er, að þeir menn, sem eru á móti máli, geta náð nákvæmlega sömu niðurstöðu eins og með því að greiða ekki atkv., þegar þeir eru staddir á fundi, nefnilega með því að ganga af fundi, og það var algengt áður fyrr. Ég get þess vegna ekki séð, hvað hv. meiri hl. vill vinna á með því að setja þetta ákvæði inn í þingsköpin, því að aldrei er hægt að neyða þá menn, sem eru á móti máli, til þess að vera viðstaddir, þegar atkvgr. fer fram. Til þess eru engin meðul. Það eina meðal, sem hingað til hefir verið til í þessu efni, er að taka af þm. þingpeningana. En nú á að nema þann möguleika burt. En það, sem verst er í þessu efni og með öllu óhafandi, er það, að þessi ákvæði frv. geta alls ekki samrýmzt stjórnarskránni. Þar er gerð krafa til, að ákveðinn hluti þm. greiði atkv., en svo koma þingsköpin og segja, að þó þm. greiði ekki atkv., teljist hann hafa greitt atkv. Þess vegna er það skoðun mín og hv. 10. landsk., að með öllu sé ófært að setja ákvæði sem þetta inn í þingsköpin. Ég verð að lýsa undrun minni yfir því, ef hæstv. forseti telur þetta samrýmanlegt stjskr., eða telur heimilt að snúa orðum hennar þannig alveg við og segja þveröfugt við það, sem hún segir, eins og ég hefi sýnt fram á, og þetta er það, sem tvær fyrstu brtt. okkar hv. 10. landsk. þm. á þskj. 254 eru stílaðar við.

Með 3. brtt. er tilætlunin að fella burtu 31. gr. frv., því í þingsköpum verður að vera skilgreining á, hvað sé afl atkvæða. A. m. k. verður þessi gr. að falla niður, ef 16. og 28. gr. frv. verða ekki samþ. og enda hvort sem er, því það er ekki hægt að kalla það afl atkvæða, ef menn gera hvorki að segja já eða nei, en eru taldir greiða atkvæði.

Ef farið yrði að nota þessa nýju þingskapareglu á almennum fundum, þá yrði það talið nægja, að einn maður greiddi atkv. með till., en allir aðrir sætu hjá. Þá ætti að telja, að afl atkv. hefði ráðið, því allir fundarmenn væru taldir með, ef fylgja ætti þeim reglum, sem nú á að setja á Alþingi. (Forseti: Þegar viðhaft er nafnakall). Já, við getum hugsað okkur, að nafnakall sé notað hvar sem er, og ef slíkt fylgi er talið nægilegt, þá fer að verða lítið byggjandi á meirihlutasamþykktum, og ekki væri undarlegt, þó að slíkt fyrirkomulag þætti hlægilegt. Þó er sá mikli munur, að ekki er því til að dreifa á almennum fundum, að hafa ákvæði stjskr. að engu, því að þar gildir hún ekki. Stjskr. heimtar, að meira en helmingur greiddra atkv. þurfi að vera með máli til þess að það sé löglega samþykkt.

Þá er síðasta brtt. okkar, um að 33. gr. falli burt. — Við sjáum enga ástæðu til, að þingvítin falli burt; er engin ástæða til að hlífa þeim mönnum við þingvítum, sem láta dragast úr hömlu að sinna þingstörfum. Það er rétt, að þessum ákvæðum hefir ekki verið framfylgt hér á þingi, en það er ekki til að auka agann, þegar þessi ákvæði um refsingu eru alveg felld burt.

En undarlegra er þó, þegar þessir sömu menn, er vilja neyða þm. til að greiða atkv., vilja fella niður vítin við því, að þm. gangi burt af fundi fyrir atkvgr. Þetta munu menn því gera framvegis, ef þeir sjá, að þeir geta með því hindrað framgang máls í bili eða til lengdar. Við þessu er ekkert að segja, því að þm. mega beita öllum löglegum ráðum til þess, að mál, sem þeir eru á móti, gangi ekki fram. En ef meiri hl. er í rauninni til fyrir máli í þingdeild, kemst það fram næsta eða næstu daga, þegar allir eru við, sem sæti eiga í deildinni. En ef ekki er meiri hl. til, á málið að falla. Ég vil þess vegna vona, að brtt. okkar hv. 10. landsk. á þskj. 254 verði samþ., því ég tel, að þingsköpin komi alveg nákvæmlega að sama haldi, þó það verði gert, og að það geti ekki valdið neinum töfum eða erfiðleikum við þingstörfin, þó að það verði gert. Eitt vil ég benda á í þessu sambandi, og það er, að ef frv. verður samþ. eins og það er nú, þá getur stjórnarflokkur komið fram málum á þennan hátt, þrátt fyrir það, þó ýmsir úr þeim flokki væru þeim mótfallnir. Þá verður aðferðin sú, að þeir af þægð við stjórnina láta vera að sækja fund, til þess að þurfa ekki að greiða atkvæði.