31.03.1936
Efri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

7. mál, þingsköp Alþingis

Magnús Guðmundsson:

Það er vitanlega mjög langt frá því, að hæstv. forsrh. hafi sannfært mig, þó að hann tali um barnaskap og fjarstæðu, því það eru engin rök. Hann talaði um danska stjórnarskrá og dönsk þingsköp, en ég veit ekki til, að þau gildi hér. Ég hefi lesið hér upp íslenzka stjskr., og fer eftir henni, en ekki danskri. Hann segir, að þetta umdeilda ákvæði sé sett til þess að neyða menn til að greiða atkv., en hann viðurkenndi þó, að menn eiga annan útveg, sem sé þann að ganga út. Og er þá ekki alveg þýðingarlaust og unnið fyrir gýg að misþyrma stjskr. eins og hér er gert?

Hann sagði, að það væri rétt, að þjóðin fengi að vita, hverjir það væru, sem ekki greiddu atkv., með því að ganga af fundi, en þjóðin fær alveg á sama hátt að vita, hverjir það eru, sem ekki greiða atkv., þegar viðhaft er nafnakall.

Það er alveg rétt, sem ég sagði, að stjskr. heimtar það, sbr. 48. gr., að meira en helmingur þm. í hvorri deild sé viðstaddur og greiði atkv. En svo eiga að koma þingsköp, sem segja, að þeir, sem ekki greiða atkv., skuli teljast hafa greitt atkv. Ef þetta er ekki að snúa við hlutunum, þá veit ég ekki, hvað er að snúa þeim við og umhverfa þeim. Ef við berum saman 48. gr. stjskr. og þá staði aðra, sem um þetta fjalla, þá er skýrt og greinilegt, að beinlínis er átt við það, að þm. hafi greitt atkv. með því að svara játandi eða neitandi, eða m. ö. o., það eitt er talin þátttaka í atkvgr. að svara beint með jái eða neii, en hér er átt við í þessu frv., að þeir, sem engu hafa svarað, þeir skuli teljast hafa sagt já eða nei, eða m. ö. o., það á að telja, að þeir hafi gert allt annað en þeir gerðu. En vitanlegt er, að afleiðingin af því, þó að það sé látið óátalið, að menn greiði ekki atkv., getur ekki orðið önnur en sú, eða valdið öðru en því, að draga afgreiðslu málsins til næsta dags.

Í þingsköpunum stendur, að þm. megi ekki vera fjarverandi nema með leyfi forseta. En hvenær er þessa gætt? Hvernig er þetta framkvæmt? Maður sér d. oft hálftómar. Með þessu nýja þingskapaákvæði er ýtt undir þetta. Þrátt fyrir þetta blæs hæstv. ráðh. sig upp og lætur sem það sé einhver stórglæpur, þó maður greiði ekki atkv. um mál, sem hann er á móti, til þess að það gangi ekki í gegn. Er nokkur von til þess, að menn séu að hjálpa máli, sem þeir eru á móti?

Ef málið hefir meiri hluta fylgi, þá getur þetta ekki valdið fresti lengur en til næsta dags, því þá hlýtur að vera hægt að ná saman öllum þeim mönnum, sem eru málinu fylgjandi. Eftir þessum nýju þingsköpum fæst afl atkv. nægilegt til afgreiðslu máls með því að einn þm. segi já, en allir hinir sitji hjá. Fer þá að verða lítil trygging fyrir, að málin hafi meiri hluta fylgi, ef slíkt getur talizt samþ. — Ég hirði svo ekki um að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni, en tek það fram, að mér er ómögulegt að sjá annað en að þetta sé beinlínis brot á 48. gr. stjskr.