07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í B-deild Alþingistíðinda. (54)

1. mál, fjárlög 1937

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Um gengisskráningu krónunnar hefir verið tiltölulega lítið rætt síðustu árin, og það, sem fram hefir komið, hefir verið lítt til þess fallið, að menn áttuðu sig á þessu vandasama máli. — Við því er heldur ekki að búast, þegar þess er gætt, að það er aðallega blað svokallaðs Bændafl., sem um málið hefir fjallað. — Hefir blaðið í þeim umr. dyggilega fylgt þeirri meginreglu sinni að meta blekkingar meira en rétta málsmeðferð. Þar sem þetta mál hefir nú blandazt í þessar umr. að eðlilegum hætti, þykir mér rétt að sinna því, ef ske kynni, að menn fengju frekari skilning á málinu en vænta má, að menn fái af þeim villandi ummælum sumra þeirra hv. þm., sem um það hafa talað.

Gengisbreytingar orsaka fyrst og fremst verðbreytingar á öllum innfluttum og útfluttum vörum. — Gengislækkun orsakar t. d. hækkun á þessum vörum. Í kjölfar þessarar vöruverðhækkunar fer oft samsvarandi eða einhver hækkun á vörum framleiddum til sölu innanlands. Þó er slíkt enganveginn víst. Fer eftir því m. a., hve framboðið er mikið af vörunni og hvort kaupgetan innanlands þolir samsvarandi hækkun án þess að úr sölu dragi til tjóns. Verðhækkunin, sem stafar af gengislækkun, a. m. k. á öllum innfluttum vörum, verkar hinsvegar sem kauphækkun og dregur úr kaupgetunni. ef framleiðslan ekki örvast svo, að atvinnuaukning vegi upp kauphækkunina eða kaupið sé beinlínis hækkað svo sem verðhækkuninni nemur.

Af þessum staðreyndum er það ljóst, að það eru blekkingar að halda því fram, eins og ótæpt er í skyn gefið af pólitískum spákaupmönnum“, að við gengislækkun batni hagur framleiðenda, sem flytja út vörur sem snarar verðhækkuninni. Allar innfluttar notaþarfir framleiðendanna hækka jafnmikið í verði og útflutningsvörurnar. Í vöruviðskiptum framleiðandans kemur því til hagnaðar aðeins hækkunin á þeim hluta af andvirði framleiðsluvaranna, sem afgangs er, þegar öll vöruúttekt hefir verið greidd upp. Frá þeim hagnaði dragast svo óhjákvæmilegar skattahækkanir og einhver hækkun á vöxtum og kauphækkun, ef frumleiðandinn kaupir vinnu og til kauphækkunar kemur að framkominni gengislækkun. Af þessu sést ennfremur, hversu hlálegt er að halda því fram, að með gengisbreyt. einni saman sé hægt að tryggja það, að öll framleiðsla beri sig. Sést það bezt á því, að gengislækkun bætir t. d. ekkert afkomu þess framleiðanda, sem ekki hefir vöruinnlegg fyrir meira en vöruúttekt og ef vöruúttektin er meiri, þá versnar hagurinn.

Þótt því fari þannig mjög fjarri, eins og nú hefir verið sýnt fram á, að gengisbreyting sé þess megnug að tryggja afkomu framleiðendanna, þá getur hún haft í bili áhrif á afkomu þeirra til bóta. a. m. k. þeirra, sem selja vörur sínar á erlendum markaði, ef verðmæti framleiðslu þeirra nemur meiru en aðkeyptra vara, og ef kaupgjald hækkaði, þá kemur hagnaður þó því aðeins fram, að tekjur þeirra fari fram úr kaupgjaldi og vöruúttekt. — Þó að gengisbreyting sé þannig, ein af þeim leiðum, sem kemur til álita, þegar verðlagsbreytingar eru nauðsynlegar til hagsbóta fyrir framleiðendur, einkum þá, er framleiða fyrir erlendan markað, er hún enganveginn sú eina. Kemur þar ýmislegt til, eins og ég vík síðar að, en m. a. að það er út af fyrir sig slæmt að þurfa að orsaka þá truflun, sem gengisbreytingar hafa í för með sér í öllu fjármálalífi.

Þegar Framsfl. gekk til kosninga vorið 1934. var hans mesta áhugamál að koma á verðlagsbreytingum til hagsmuna fyrir bændur. Flokkurinn valdi ekki þá leið að fella krónuna –heldur hina, að hækka með lögum verðlag landbúnaðarafurðanna innan lands og láta þá, sem út fluttu, njóta góðs af þeirri hækkun Þessi leið var valin að mjög vel athuguðu máli. Hún var valin vegna þess, að um helmingur af kjötframleiðslu bændanna og svo að segja allar mjólkurafurðir þeirra eru seldar innanlands. Verðið á framleiðsluvörum bænda á innlendum markaði hefir því meiri áhrif á afkomu bændastéttarinnar sem heildar en verðið erl., og flokkurinn vildi koma fram verðhækkuninni án þess að draga úr kaupgetunni innanlands. Verðið á innlenda markaðinum átti síðan að bera uppi uppbætur á útfluttu afurðirnar. Hér kom og til greina, að þessari verðhækkun varð ekki á komið nema í samvinnu við verkamenn. Um árangur gengislækkunar var hinsvegar tvísýnt, þar sem bændastéttin í heild kaupir án efa meira af erlendum vörum til sinna þarfa en hún selur til útlanda nú orðið.

Barátta Framsfl. var miðuð við að bæta kjötverðið frá því, sem það var haustið 1933, og mjólkurverðið frá því, sem það var 1934. Væntanlega lætur mjög nærri, að kjötverðið 1935 verði að meðaltali yfir allt landið um 20% hærra en það var 1933 og í þeim þrem mjólkurbúum (vinnslubúum) á verðlagssvæði Reykjavíkur, sem mjólkurlöggjöfinni var fyrst og fremst ætlað að styrkja, hefir mjólkurverðið hækkað um ca. 11–12%, og tekjur bændanna þar þó meira en því nemur, vegna aukningar á framleiðslunni. Aðalatriði þessa máls er þó það að þessi afurðahækkun er bein hækkun á hreinum tekjum bændanna — þar sem henni hefir verið komið á án þess að vörur almennt hafi hækkað í verði um leið. — Á því er þess vegna enginn vafi að gengislækkun hefði aldrei orðið að öðru eins liði pg þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í þessum málum.

Ný atriði eru alltaf að koma fram í þessum málum. Afkoma sjávarútvegsins fer nú versnandi — þrátt fyrir ötult starf í þá átt að afla nýrra markaða og koma á fót nýrri framleiðslu sjávarvara. — Að því getur rekið, að stöðvun verði í framleiðslunni vegna erfiðleikanna. jafnvel svo, að markaðsmöguleikarnir ekki notist, þótt takmarkaðir séu. — Af slíku mundi leiða minnkandi kaupgetu og erfiðleika fyrir landbúnaðinn og jafnvel verðfall á afurðum hans: a. m. k. mundu útilokast möguleikar fyrir aukningu á tekjum bænda af sölu sinni innanlands. Færi svo, yrðu sérstakar ráðstafanir nauðsynlegar til þess að bæta rekstraraðstöðu framleiðendanna. Kæmu þá ýmsar leiðir til greina, og er of snemmt upp um það að kveða, hvað ofan á yrði.

Allt þetta gengishjal bændaflokksmanna er því fundið upp til blekkinga og árása á stj., eins og sést bezt á því, að 1933, þegar þeir höfðu ásamt bandamönnum sínum, íhaldsmönnum, aðstöðu til að koma þessu máli fram, datt þeim ekki í hug að hreyfa því að lækka krónuna. Auk þess má benda á það, að Bændafl. hefir átt fulltrúa í báðum bankaráðunum, en þeir hafa aldrei barið fram neinar slíkar till., þótt allir viti, að bankaráðin geti ráðið þessu máli til lykta.

Um afstöðu Sjálfstfl. í þessu máli er það að segja, að það er næsta hlálegt að heyra hv. þm. G.-K. og hv. þm. A.-Húnv. vera nú að tala um gengislækkun, þegar vitað er, að hv. þm. G.-K. a. m. k. hefir verið harðneitað um greinar um þau efni í Mbl. Hv. þm. G.-K. hefir í mörg ár verið að gaspra um gengislækkun, en flokksblöð hans jafnan synjað honum um rúm fyrir þessar kenningar hans. Svo langt er frá því, að þessir herrar geti haldið því fram, að Sjálfstfl. sé fylgjandi gengislækkun.

Ég vil drepa lítið eitt á eitt atriði í ræðu hv. þm. A.-Húnv., þar sem hann talaði um launamálið. Hann sagði, að ríkisstj. vildi ekkert gera í launamálinu af því, að launalækkun myndi aðallega lenda á hennar eigin mönnum. Þetta eru vísvitandi ósannindi hjá hv. þm. Núv. stj. hefir lækkað dýrtíðaruppbótina gegn atkv. sjálfstæðismanna. Hún hefir ennfremur lækkað mjög há embættislaun á ýmsum stöðum beinlínis. Og loks hefir hún raunverulega lækkað öll hálaun með hátekjuskatti þeim, sem hún bar fram og fékk samþ. Hv. þm. A.-Húnv. væri nær að beina ásökunum sínum hér í Reykjavík, þar sem laun manna í opinberum stöðum bæjarins eru miklu hærri en hjá ríkinu, svo að við í ráðuneytinu höfum sífellt ónæði af starfsfólki ríkisins, sem kvartar yfir því, hve laun sín séu lág í samanburði við laun starfsmanna Reykjavíkurbæjar.

Hv. þm. A.-Húnv. hefir slæmt hlutverk í flokki sínum, þar sem hann er hvað eftir annað hafður til þess að bera fram till., sem Sjálfstfl. myndi aldrei koma til hugar að fylgja í fullri alvöru, heldur strádrepa, ef til hans kasta kæmi. En það getur verið nógu gott að hafa slíkt í útvarp.

En nú vil ég taka eitt dæmi um það, hvernig íhaldið launar þeim mönnum, sem það hefir til slíkra verka. Ég tek það til dæmis, er hv. þm. A.-Húnv. var eitt sinn sendur á fund til að verju málstað íhaldsins í mjólkur- og kjötsölumálinu. Meðan hv. þm. A.-Húnv. var eftir beztu getu að baksa við að verja þennan ófagra málstað, sögðu broddar Sjálfstfl. á öðrum fundi, að með kjötlögunum væru bændur í Árnessýslu skattlagðir til hagsbóta fyrir bændur norðanlands. M. ö. o., að meðan hv. þm. A.-Húnv. var að baksa við vörn sína fyrir afstöðu Sjálfstfl. í málinu, voru flokksmenn hans að álasa okkur fyrir að hafa viljað sýna kjósendum hans réttlæti! Slík er meðferð á þessum fórnarlömbum Sjálfstfl.

Þá vík ég örfáum orðum að hv. þm. V.-Húnv. Hann bar það m. a. upp á stj., að hún hefði hindrað útflutning á íslenzkum vörum til Þýzkalands. Árið 1934, þegar hver mátti selja þangað, sem vildi, voru seldar þangað vörur fyrir 630 þús. kr. En árið eftir, þegar stj. hafði skipt útflutningnum meðal framleiðenda og skipulagt söluna, þrefaldaðist þessi upphæð.

Stj. hefir því margfaldað möguleika fyrir bændur á sölu til Þýzkalands með þremur.

Þá kem ég að hv. 10. landsk. Ég skal segja það honum til hróss, að það var dálítið hik á honum þegar hann fór að tala um áfengið. Hann viðurkenndi nú, að tekjur af þeirri vöru til handa ríkissjóði væru „vel fengnar“, þótt hann hefði áður sagt, að það væri að „taka lán hjá lífinu“ að afla slíkra tekna. Nú hefir hann tekið hræsni sína aftur að þessu leyti, en segir aðeins að sveitafélögin eigi að njóta þessara tekna, sem hann felur nú „vel fengnar“.

Hv. þm. sagði, að ég hefði engu svarað um takmarkanirnar á innflutningi neta. Ég geymdi að svara þeim pósti, vegna þess, að ég vildi eiga tal við gjaldeyrisnefnd áður. Ég hefi nú talað við n., og enginu nm. veit til þess, að slíkar hömlur hafi átt sér stað. Ég vil því skora á hv. 10. landsk. að segja hreinskilnislega, hvað hann á við. Netafæðin í Vestmannaeyjum stafar í þetta sinn eingöngu af óvenjulegu tjóni af völdum togara og langri netavertíð.

Að takmarkanir séu á smíðaefni meiri en áður er fjarstæða. Því þvert á móti hafa verið veitt innflutningsleyfi fyrir meira af þeirri vöru en í fyrra. En munurinn er sá, að nú fá menn leyfin sjálfir milliliðalaust. Annars kemur það úr hörðustu átt, að þeir sem þykjast vilja efla iðnað í landinu, skuli ráðast á innflutningshöftin. Viðvíkjandi takmörkun á innflutningi á vörum til iðnaðar get ég sagt það, að enginn hefir kvartað yfir slíku til fjármálaráðuneytisins, svo að hömlurnar hafa varla verið tilfinnanlegar úr því að aðiljarnir hafa ekki kvartað.

Ég mun ekki eltast frekar við það að svara ræðum stjórnarandstæðinga. En ég vil að lokum aðeins drepa á eitt atriði. Því var haldið fram af Bændafl. fyrir síðustu kosningar, að framsóknarmenn væru um of háðir sósíalistum og undirtyllum þeirra. Við sýndum fram á það þá, eins og jafnan síðan, að þetta hefir við engin rök að styðjast. En við héldum því fram með gildum rökum, sem síðan hafa fengið staðfestingu reynslunnar, að þeir menn, sem þá höfðu klofið sig út úr Framsfl. og buðu sig fram sem bændaflokksmenn, voru aðeins flugumenn sendir af íhaldinu til að vinna gegn bændum og þeirra sanna flokki, Framsfl.

Við sýndum líka fram á það, að sá eini þeirra, sem skreið á þing í kjördæmi, hv. þm. V.-Húnv., hefði komizt þangað með hjálp Sjálfstfl., sem hefði séð sér hag í því að fá flugumennina á þing.

Þá sóru bændaflokksmenn og sárt við lögðu, að þetta væri ósatt. En nú er sönnun fengin fyrir hinu gagnstæða. Nýlega hefir komið fram játning frá formanni Sjálfstfl. um þetta. Ég vil með leyfi hæstv. forseta lesa upp kafla úr ræðu hv . þm. G.-K. um þetta, þar sem hann gerir þessa eftirtektarverðu játningu fyrir hönd flokksins. Hann segir svo:

„Það er satt, að ég hefi í því engu að leyna, að meðan stóð á undirbúningi fyrir síðustu kosningar, var ég því heldur fylgjandi, að þessi hv. þm. kæmist á þing, og þó að Sjálfstfl. hefði frambjóðanda í þessu kjördæmi, þá var hvorki af mér né sumum öðrum flokksmönnum gert það, sem hægt var, til stuðnings kosningu hans, og sagði ég honum það. . . . En ég leyni því ekki, að ég hygg, að afstaða mín og sumra annara sjálfstæðismanna hafi ráðið miklu um það að þessi hv. þm. komst að, og ég harma það ekki, að svo fór.“

Síðar segir hann: „Ég hefi mætur á þessum hv. þm. og tel mér enga skömm að því að hafa stutt að kosningu hans.“ Ég vil nú spyrja hv. hlustendur, hvort þeir álíti, að frekar þurfi vitnanna við í þessu máli, hvort þetta sé ekki full sönnun þess, að þeir, sem buðu sig fram sem bændaflokksmenn og báru á framsóknarmenn, að þeir væru fjandmenn bænda, voru einmitt útsendarar hinna sönnu fjandmanna bænda, íhaldsmanna.

Annað allmerkilegt atriði kom fram í ræðu hv. þm. G.-K., sem sýnir, að íhaldið ætlast til þess af hv. þm. V.-Húnv., að hann sé því undirgefinn í einu og öllu, að viðlögðum refsingum. Hann segir svo: „Þótt ég neiti því ekki, að ég beri e. t. v. nokkra ábyrgð á kosningu þessa hv. þm., þá finn ég það ekki sem mitt hlutskipti að vanda um við hann, þegar reiðin og fljótfærnin fá yfirhöndina, því að bæði er það, að hann jafnar sig fljótt aftur, og eins mun hann fá nægar ákúrur í sínum flokki.“

Hvað á hv. þm. G.-K. við, að hv. þm. V.-Húnv. muni fá ákúrur fyrir? Jú það, að hv. þm. Húnv. hafði í bræði sinni látið nokkur orð falla í garð bróður hv. formanns Sjálfstfl., hv. þm. G.-K. þetta ódæði hafði hv. þm. V.-Húnv. leyft sér, og hv. þm. G.-K. er viss um, að hann fær refsingu fyrir það í flokki sínum. Þetta er full sönnun þess, að íhaldið telur bændaflokksmennina sína þjóna, sem verða að sitja og standa eins og því sýnist.