07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (57)

1. mál, fjárlög 1937

*Hannes Jónsson:

Hv. þm. S.-Þ. vék þeirri spurningu til mín, hvernig stæði á því, að gengismálið hefði ekki verið leyst á þinginu 1932–1933. Ég get gefið hv. þm. fullgild svör við þessu, og er rétt að gera það nú þegar, til þess að alþjóð fái að vita sannleikann í þessu máli. Hv. þm. S.-Þ. hefir alltaf barizt á móti því í Framsfl., að gerð yrði breyting á genginn til lækkunar; hann berst með hnúum og hnefum á móti öllum slíkum breytingum og er í því efni svipaður sósíalistunum, eins og í öðru. Enda þótt Tryggvi heitinn Þórhallsson berðist fyrir því innan Framsfl., að komið yrði einhverjum skriði á þetta mál, þá vann Jónas Jónsson það á innan flokksins, að því máli var eytt. Önnur ástæðan var sú, að á þessu ári var verið að undirbúa löggjöf um kreppulán. Á þeim árum þótti það miklu máli skipta að fá því máli komið heilu og höldnu í höfn. Ég skal ekki neita því, að hv. þm. S.-Þ. hafi ef til vill litið þetta mál hornauga að einhverju leyti og honum hafi fundizt viðsjárvert að gera bændur eins sjálfstæða og líkur voru til, að þeir gætu orðið með þessum ráðstöfunum, mér finnst ekki ólíklegt, að honum hafi þótt öruggara að hafa þá skuldunum vafna til þess að geta teymt þá eftir vild. Hv. þm. S.-Þ. beitti áhrifum sínum í þá átt að reyna að koma stjórn kreppulánasjóðs í hendur bankanna og S. Í. S., þeirra stofnana, sem áttu aðalkröfurnar á hendur bændum. Ég vil leggja það undir dóm hlustenda minna, hvort slíkt fyrirkomulag hefði orðið til hagsbóta fyrir bændur, að þeir, sem kröfu áttu á hendur þeim, skyldu gera upp skuldaskilin við þá. Ég hygg, að það hefði ekki verið betra.

Hv. þm. S.-Þ. hefir bent á það, að það yrði ómögulegt að lækka gengi krónunnar vegna þess, að ríkið ætti við svo mikið af erlendum skuldum að stríða. Hann sagði að vísu, að hann vildi ekki gera þessa kenningu bankanna að sinni kenningu, en það var ekki hægt að skilja annað en að hann vildi nota sér þá menn í sínum málflutningi, sem slíkum kenningum halda á lofti. Hæstv. atvmrh. beitti sömu aðferðinni til þess að mæla á móti gengislækkun, en þessir háu herrar gleyma því bara, að þau auknu útgjöld, sem koma á ríkissjóðinn, koma aftur fram ríkissjóði til tekna í beinni aukningu vegna gengislækkunar á öllum verðtollum, og til skamms tíma hefir það a. m. k. verið svo, að þessar tvær upphæðir hafa verið mjög svipaðar.

Hv. þm. S.-Þ. hélt því fram, að það væri ósatt, að Framsfl. hefði tekið afstöðu í gengismálinu, ég hefi það hinsvegar fyrir satt, að svo muni vera. Þetta kom líka fram hjá og var viðurkennt af hæstv. fjmrh., því að hann hélt því fram, að gengismálið væri aðeins flutt af okkur bændaflokksmönnum til þess að vera á móti hæstv. stj. með því gefur hæstv. ráðh. þá yfirlýsingu, að hæstv. ríkisstj. sé á móti því að lækka gengið.

Hv. þm. S.-Þ. segir um gengismálið, að hann vilji ekki segja, hvað gera eigi í þessu máli. Form. annars stjórnarflokksins gefur þá yfirlýsingu, að hann viti ekki, hvað eigi að gera í þessu máli. Það er varla hægt að hugsa sér hörmulegri aðstöðu fyrir Framsfl. en þá, að hann skuli ekki vita, hvað á að gera í einu stærsta velferðarmáli þjóðarinnar. Í marga mánuði hefir hann haft sérfræðing til þess að láta segja sér, hvaða ráð ætti að taka upp, og þau ráð eru þau sömu, sem Bændafl. hefir haldið fram; að nauðsyn bæri til, að lækka gengi krónunnar. En þrátt fyrir þetta velt Framsfl. ekki enn, hvað hann á að gera í þessu mikla vandamáli.

Hv. þm. S.-Þ., sem er talinn hafa einhver málamyndavöld í Framsfl., ætti að leggja þau niður og fá þau öðrum í hendur, sem einhvern þrótt hafa til þess að skapa sér skoðun á því, hvað gera beri í þessu stórmáli.

Hæstv. atvmrh. hélt því ennfremur fram, að bankarnir mundu tapa svo miklu, ef gengið lækkaði, vegna hinna stóru skulda, sem þeir stæðu í erlendis, en hann athugaði það ekki að með því að lækka gengi krónunnar tryggir hann sér greiðslu á þeim útistandandi skuldum, sem hér eru innanlands og miklar líkur eru til, að tapist að miklu eða öllu leyti, ef svo heldur áfram með rekstur atvinnuveganna og nú horfir við. Það, sem þannig bjargaðist af skuldum í innlendum útlánum, verður því fullkomlega til þess að vega upp á móti þessari aukningu á greiðslu vaxta og afborgana af erlendum lánum. Ein af ástæðum hans er sú, að það megi ekki lækka gengið vegna þess, að við það verði vöruhækkun. Þetta er gamla sagan. Á kostnað framleiðendanna á að halda uppi óeðlilega lágu verði á aðfluttum vörum. Þetta getur ekki haft við nein eðlileg rök að styðjast, því að það hefir þegar verið sýnt fram á það með hagfræðilegum rökum, að svo getur ekki gengið til lengdar, að þannig sé níðzt á framleiðendum, sem einir geta skapað gjaldeyri, sem þjóðin þarf á að halda. Um kauphækkun, sem hann sagði, að hlyti að fylgja í kjölfar gengislækkunar, er það að segja, að verkamenn eiga ekki að hafa minni kaupgetu eftir en áður; aukning kaupgetunnar kemur fram í því, að þeir hafa stöðugri vinnu en ella. Atvinnulífið blómgast, og framleiðendur geta greitt verkamönnunum laun sín og haldið starfsemi sinni betur gangandi en nú. Þetta er sameiginlegt áhugamál framleiðenda og vinnandi stétta í landinu, því að báðir aðiljar hafa hag af því, að atvinnuvegirnir séu reknir á heilbrigðum grundvelli. Á annan hátt er ekki hægt að tryggja verkamönnum viðunandi afkomu í framtíðinni. Þá klykkti hæstv. ráðh. út með því að segja, að gengishækkunin mundi verka á svipaðan hátt eins og þegar þreyttur og kaldur göngumaður pissar í skóinn sinn, það mundi ylja um stundar sakir, en yrði skammgóður vermir. Hvað hefir nú skeð hér hjá ykkur í þessum málum? Í marz 1924 var gengi íslenzku krónunnar, miðað við gull, 47.7; síðan kemur gengishækkun, sem nær hámarki í desember 1925, og þá er gullgengi krónunnar orðið 81.5. Þessu gullgengi heldur krónan svo þangað til 1931, en þá er það komið ofan í 65,50.

Á tímabilinu frá 1925–1931, og raunar fram á þennan dag, hefir íslenzka krónan alltaf haldið sama gildi gagnvart ensku pundi eða 22,15, en árið 1931 í október hættu Englendingar við að halda sínum gjaldeyri í gullgengi, og síðan hafa þeir látið pundið laga sig eftir ástandinu í landinu. Frá 1931 er sú breyting orðin á íslenzku krónunni, að úr rúmum 81 gullaurum er hún fallin ofan í 48,75 núna í janúar þ. á. Á þessum tíma hefir krónan þó alltaf verið skoðuð eins gagnvart pundinu. Hvað hefir þá skeð í þessu efni? Á þessum tíma hafa Englendingar verið að framkvæma það, sem hæstv. ráðh. kallar að pissa í skóinn sinn. Hæstv. ráðh. ætlar að taka fjármálamenn hins mikla Bretaveldis á kné sér og kenna þeim fjármálaspeki.

Ég skal þá aftur víkja að afstöðu hv. þm. S.Þ. til kreppulánasjóðsins. Honum varð tíðrætt um hann og lánveitingar úr honum. Það er vert að virða fyrir sér, hvernig málflutningur hans er, og bera hann saman við þann málflutning, sem hann viðhafði, þegar hann fyrst hóf árásir sínar á starfsemi kreppulánasjóðs. Hann byrjaði á því í sinni fyrstu árás að telja, að menn hefðu verið beittir misrétti við úthlutun lána og að gæðingum, eins og hann orðaði það, kreppulánasjóðsstjórnarinnar hefði verið veitt mikið hærri lán út á sama veð heldur en stuðningsmönnum stj. Nú segir hann, að það hafi verið beitt hlutdrægni við úthlutun lán, úr kreppulánasjóði á þann og, að gæðingum stjórnar kreppulánasjóðs hafi verið gefið eftir meira heldur en andstæðingum þeirra. Hv. þm. er búinn að snúa við aðferðinni, sem hann beitti við það að ráðast á ráðstafanir um lánveitingar sjóðsins. Hvernig stendur á þessu? Það er auðskilið. Hv. þm. var fyrir fram ákveðinn í því að gera lánveitingar úr kreppulánasjóði að árásarefni á þá, sem þar hafa unnið að, en hann athugaði ekki, á hvaða grundvelli hann ætti að reisu þessar ásakanir sínar; svo flaskar hann á því að skamma stjórn kreppulánasjóðs fyrir það, sem flestir lántakendur þakka henni fyrir.

Hv. þm. fór svo hörmulega út úr árásum sínum á einstaka menn í sambandi við þetta mál, að sennilega bíður hann þess ekki bætur.

Hv. þm. ásakar stjórn kreppulánasjóðs fyrir það, að hún skuli hafa greitt verkalaun í peningum. Það mun ef til vill vera tekið á móti þessu með velþóknun af þeim, sem eru á hans máli, en hv. þm. hefði átt að minnast þess, að í lögunum er beint gert ráð fyrir, að þessir menn fái sínar greiðslur í peningum.

Það var líka eftirtektarvert í þessum sparðatíningi hv. þm., að hann lagði sig aðallega eftir því að finna dæmi af starfsviði Tryggva heitins Þórhallssonar, en hann sleppti svo að segja alveg að tína til dæmi af starfssviði Jóns Jónssonar frá Stóradal,. enda hefir hann vitað, að allt slíkt hefði verið rekið ofan í hann samstundis. Menn geta dæmt um, hversu drengileg slík aðferð er hjá hv. þm. Ég mun ekki rekja þau dæmi, sem hann til tíndi. Ég skal aðeins geta þess, að vel má vera að í einstökum tilfellum hafi komið fram mismunur á afgreiðslu mála í kreppulánasjóði, en það er þá undantekning og stafar af því, að kröfuhafar hafa beitt sér mismunandi gagnvart hinum ýmsu skuldunautum.

Hv. þm. var að finna að því ósamræmi, sem hann taldi vera á mati búpenings manna í ýmsum héruðum landsins. Það vill nú svo vel til að kreppulánasjóðsstjórnin fór til Búnaðarfélags Íslands til þess að fá þetta mat, og það er hv. 3. þm. N.-M., flokksbróðir hv. þm. S.-Þ., sem hefir gert þetta mat, en stjórn kreppulánasjóðs kom þar hvergi nærri.

Hæstv. fjmrh. reyndi að verja framkomu hæstv. stj. viðvíkjandi sölu á landbúnaðarafurðum til Þýzkalands á síðastliðnu ári. Hann færði það fram sér til afsökunar, að 1931 hefði verið mikið minna flutt af landbúnaðarafurðum héðan til Þýzkalands en árið 1935, þrátt fyrir takmörkun á útflutningsleyfum frá hæstv. stj., nú veit hæstv. fjmrh. ef til vill ekki, að verðhækkun á þessum framleiðsluvörum kom fram í Þýzkalandi fyrst á árinu 1934, og allir þeir, sem sölu höfðu með höndum á þessum vörum, voru ekki jafn fljótir að nota sér þessa sölu og munu sumir af einhverjum ástæðum hafa veigrað sér við að nota þetta hærra verð, þótt þeir vissu um það. S. Í. S. mun sama og ekkert haft selt til Þýzkalands á þessu ári, og það var a. m. k. fært fram sem ein höfuðástæðan fyrir því að félagið gat ekki borgað eins hátt verð fyrir ull og gærur 1931 eins og þeir kaupmenn, sem verzluðu við Þýzkaland.

Mér er ókunnugt um af hvaða ástæðum sambandið notaði sér ekki þennan markað, en ein af aðalástæðunum fyrir því að svo mikið minna var flutt til Þýzkalands 1931 en gert var 1935 var sú, sem ég nefndi, en ef framleiðendur hefðu fengið leyfi til þess að nota markaðinn í Þýzkalandi 1935 þá hefðu nærri allar þessar vörur verið fluttar þangað, og hefði afleiðingin af því orðið sú, að framleiðendur hefðu fengið nokkur hundruð þúsund krónum meira fyrir sínar vörur en þeir fengu.

Tími minn er að þrotum kominn að þessu sinni. Ég hefi hrakið þau atriði, sem helzt hafa komið fram til andsvara því, sem ég hefi sagt um gengismálið. Ég læt mér það vel líka, að ekki hafa komið fram sterk rök á móti því, sem ég hefi haldið fram um það mál. Ég vona að Framsfl. sjái að sér, og þó að hann hafi einu sinni ákveðið að leggjast á þetta mál, þá vænti ég þess, að hann sjái sóma sinn í því að verða við kröfum framleiðenda og taka málið til yfirvegunar og afgreiðslu, og það nú þegar á þessu þingi.