06.04.1936
Neðri deild: 44. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

102. mál, alþýðutryggingar

*Jónas Guðmundsson:

Út af þessu, sem hv. þm. Borgf. minntist á, skal ég geta þess, að ég hefi átt tal við forstjóra tryggingarstofnunar ríkisins um þetta atriði, þar sem flestir munu skilja svo þessa gr. í l., að ekki skuli aðrir fá styrk en þeir, sem orðnir eru 67 ára að aldri, en að hans dómi er sá skilningur ekki réttur, þó að eftir orðalaginu megi skilja þetta á báða vegu. En þar sem flestir skilja þetta á þann veg, að menn á aldrinum 60–67 ára séu sviptir ellistyrk, bað ég hann, sem hann lofaði, að senda bréf, ásamt reglugerð, sem nú er verið að ganga frá, til hreppstjóra og sýslumanna um allt land, þar sem tekið skuli skýrt fram, hvernig skilja beri þetta ákvæði.

Ég vildi skjóta þessu fram, og ég held, að það sé óþarfi að koma með breytingu nú við lögin um þetta atriði.

Ég veit, að bæði forstjórinn og hæstv. atvmrh. munu leggja fyrir næsta þing þær breytingar, sem reynslan sýnir, að nauðsynlegt er að gera á l. þessum.

Viðvíkjandi frv. því, sem hér liggur fyrir, vil ég ekki segja annað en það, að vitanlega er nauðsyn að fresta framkv. þessa ákvæðis, meðan fé lífeyrissjóðs er fast og verið er að losa það.