07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 167 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1937

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. hafa nú báðir talað hér í hálfan tíma hvor og að miklu leyti snúið máli sínu til mín. En ég hefi ekki nema 5–10 mínútum yfir að ráða. Ég geri því ráð fyrir því, að ég verði að hafa skáraslátt, ef ég á að geta lagt að velli alla þá staðlausu stafi, sem þessir tveir hv. þm. báru hér fram. Því að það má segja um þessar staðleysur, eins og sagt var um illu andana í svínahjörðinni forðum, að þær voru legíó.

Jæja, ég má ekki gleyma garminum honum Katli, þ. e. a. s. hv. þm. Ísaf., sem gerði sig allbreiðan út af Suður-Ameríkumarkaðinum. Hann sagði með nokkrum svigurmælum í garð forstjóra Sölusamb. ísl. fiskframleiðenda, að þeir hefðu týnt Ameríku. En sannleikur þess máls er sá, að viðskiptin við Suður-Ameríku stöðvuðust af því einu, að gjaldeyrismálin þar voru komin í ólag. Og það er vitanlegt, að það var fyrst í febrúar sl., sem stórþjóðirnar, sem töpuðu milljónum af innifrosnu fé í Brasilíu, voru búnar að koma skuldamálum þeirrar viðskiptaþjóðar þannig fyrir eða í það lag, að gjaldeyrisverzlun hennar yrði gefin frjáls. Mynt þeirra nefnist milreis, og 1930 jafngiltu 40 milreis ensku sterlingspundi, peningar þeirra féllu svo í verði. þannig að 100 milreis þurfti á móti ensku pundi og 1935 voru um 80 milreis í pundinu. Þessi þjóð, sem aflar sér ódýrra fæðutegunda, eins og kjöts, korns og ávaxta, hefir ekki ráð á því að borga fisk svipað því eins háu verði og við höfum þurft að selja hann fyrir, beinlínis vegna þessu misvægis, á milli gengis peninga þeirra og enskra peninga. Af þessu var ekki hægt að hefja viðskiptasamvinnu við þessa þjóð, fyrr en í vetur, þegar gjaldeyrisverzlun hennar var gefin frjáls.

Það er nú engin furða, þó að hv. þm. Ísaf. viti ekki, hvernig í þessu máli liggur. En mig furðar, að hæstv. atvmrh. skuli hafa farið að hlaupa ofan í sömu vilpuna til þess manns, því að sannarlega ætti honum vegna stöðu sinnar að vera þetta kunnugt.

Ég hefi eytt þessari stund til þess að mótmæla þessu, af því að ég tel það illa til fallið að fara að hlaupa til og álasa forstjórum Sölusambands ísl. fiskframleiðenda undir því yfirskini, að þeir hafi ekki geri það, sem hægt var fyrir fisakmarkaðinn í Suður-Ameríku.

Um fiskmarkaðsmöguleika í Norður-Ameríku verð ég að vera fáorður. En af þessum umr. er mönnum orðið það ljóst, að von eða jafnvel vissa var um, að S. Í. F. hefði opnað möguleika til sölu á fiski til Norður-Ameríku með góðum kjörum. En fiskimálanefnd hefir lokað þessum viðskiptaleiðum með aðstoð hæstv. atvmrh., og meira, fyrirfarið sóma okkar í sambandi við þetta um leið.

Til þess að hnekkja þeim ósannindum, sem hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. fóru hér með um það, að umboðsmaður okkar ( S. Í. F.) í New-York hefði ekki getað selt Steady-farminn, þá ber nú svo vel í veiði, að í dag kom bréf, sem er afrit af bréfi til Sigurðar Jónassonar frá Olaf Hertzwig, þar sem hann skýrir frá því, hvers vegna hafi verið riftað kaupum á þessum fiski, sem fluttur var með mótorskipinu Steady til Ameríku. Hann segir þar:

„Vér höfum kaupendur, sem vilja kaupa allmikið, sennilega allan farminn. Góðfúslega gefið oss bezta tilboð yðar.“

Þessi maður hefir enn á hendinni viðskiptamenn, sem vilja kaupa mikið af farminum eða hann allan. Og hann býður Sigurði Jónassyni að kaupa hann. Það er slysalegt, að hæstv. atvmrh. og hv. 2. þm. Reykv. skuli hafa skrökvað um þetta. Því að hér er þessi maður að bjóðast til að selja farminn. En þá má Sigurður Jónasson ekki selja hann. Þessi 22 tonn, sem seld voru, eru af öðrum farmi. En af Steady-farminum hefir ekki verið selt annað en þau 45 tonn, sem umboðsmaður okkar gat selt.

Annað, sem þessir herrar hafa sagt í þessu máli, er á álíka góðum rökum reist eins og þetta.

Þá þótti hæstv. atvmrh. það mestu firn, eftir orðum hans að dæma, að ég skyldi vera í stj. S. Í. F., og áleit hann, að þar hefði ég litið til brunns að bera. Ég skal að því leyti viðurkenna að hæstv. ráðh. hafi rétt fyrir sér, að til eru miklu fróðari menn og þekkingarmeiri í S. Í. F. heldur en ég. En ég hygg, að ástæðan til þess, að ég er í stj. S. Í. F. sé sú, að fiskeigendur viti þó, að ég muni vera þeim trúr og vilja þeim vel.

En sýnist hæstv. ráðh. það ekkert undarlegt, að allir fiskeigendur á Íslandi skuli þurfa að sækja undir hann sem yfirmann um þessi mál? Hefir hann þekkinguna? Hefir hann trúmennskuna? Ég ætla, að hæstv. ráðh. hafi séð það, þegar hann mætti á fundi í S. Í. F. síðast hversu undarlegt þetta er.

En út af því, sem hæstv. atvmrh. var að tala um, að þessi fisksölumál heyrðu undir fiskimálanefnd, þá vil ég benda á það, að fiskimálanefnd var búin að senda jafnstóra sendingu af fiski, 200 tonn, til Póllands. En farmurinn lá allt sumarið í skipinu fram í september frá því í apríl. Yfir þennan tíma voru borgaðar 6 þús. kr. fyrir skipið hvern mánuð. Og 40 þús. kr. tap varð á þessari sendingu, eftir því, sem reikningar um þetta gáfu til kynna. Þar var í þeim reikningum einn póstur, sem talinn var auglýsingakostnaður, um 10 þús. kr. En aldrei var kostað einum eyri til þess að auglýsa þann fisk. Aðeins kvað blöðin hafa verið keypt til að geta ekki um farminn. Þannig var nú fortíð fiskimálanefndar í fisksölumálunum.

Ég hygg, að hæstv. ráðh. hafi rekið sig á það á þessum aukafundi fiskeigenda um daginn, að þó að ég e. t. v. og a. m. k. að hans sögn, hafi litla þekkingu á fisksölumálunum, þá hafi samt sem áður mínar till. fengið þar góðan byr. En hitt sá hann líka, að aldrei hefir nokkur framkoma nokkurs manns á nokkrum fundi mætt eins djúpri fyrirlitningu eins og framkoma hans þar. Og þó að þessi hæstv. ráðh. og stj. í heild taki því ekki nærri, sem hv. form. Sjálfstfl. fór fram á, að hæstv. ráðh. hverfi úr ráðherrastólum, þá hygg ég að þeir þurfi ekki mikið fyrir því að hafa heldur muni það koma af sjálfu sér, af því að alþýðunni í landinu þyki það tímabært. Og ég vona, að forlögin verði svo miskunnsöm að láta fenna fljótt yfir slóð þeirra, í íslenzkum stjórnmálum, þar sem í hverju spori má heita, að sé að finna slys og ótrúmensku.