07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 169 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1937

*Sigurður Einarsson:

Góðir áheyrendur! Það er ekki óalgengt, að það heyrist hér og þá einkum í umr. eins og þeim sem hér hafa farið fram í gær og dag, að verið sé að tala um þau geysiháu fjárlög, sem núverandi stj. leggur fyrir Alþingi og afgreiðir með stuðningi sinna flokka. Á einum 15 mínútum er ekki hægt að drepa á nema aðalatriðin í því sambandi. En það eru ekki fjárlögin ein, sem eru fyrsta og mesta atriðið í þessu máli. Fjárlögin eru aðeins meira og minna nákvæm áætlun á hinum ýmsu atriðum þeirra. Og það, sem allt veltur á um þau, er það, hvort þau séu svo samin og sett að kostur sé að halda þau og að þau standist í einstökum atriðum í heild. Reglurnar, sem fara verður eftir við samningu fjárl., til þess að líkurnar verði sem mestar til þess, að þau standist í framkvæmd, eru þær, að taka allt með, sem mestar líkur eru til, að komi fram á landsreikningi, fela hvorki fyrirsjáanleg gjöld né tekjur, og halda sig síðan við fjárlögin.

Það getur vel verið, að þeir, sem fjasa hér mest um fjárh. núverandi stj. haldi, að hlustendur séu svo fáfróðir, að þeir viti ekki, að til er nokkuð sem heitir fjáraukalög, og enn annað, sem heitir landsreikningur. Þetta hvorttveggja er til og talar miklu skýrara máli en fullyrðingur við fjárlagaumr.

Hér skulu tilfærð nokkur dæmi um samningu fjárl. og útkomu fjáraukal. á undanförnum árum. Svo verður fólk að gera það upp við sig, hvort það vill heldur, að þing og stjórn geri, að semja fjárl. þannig, að fram þurfi að leggja síðar há fjáraukal., eða að fjárl. séu þannig sett, að fjáraukal. þurfi ekki að verða mjög há vegna þess, að fjárl. hafa verið samin í sem nánustu samræmi við veruleikann sem kostur er.

Fjáraukal. fyrir árið 1931 voru kr. 3392238,14 = 348279,64 = 3740517,78 kr.

Fyrir árið 1932 voru þau kr. 997921,29+ 74987,44 = 1072908,73 kr.

Fyrir árið 1933 voru þau kr. 136933,14 2017211,76 = 2154144,90 kr.

Fyrir árið 1934 voru þau kr. 207405,34 og með þeim, sem nú eru nýlögð fram, alls kr. 3858362,67.

Fjáraukal. fyrir 1935, sem lögð eru fram, eru að upphæð 53845,95 kr. Hér á eitthvað eftir að koma til viðbótar, en hér er líka mikill munur á.

Það hlýtur að vera einkennileg lífsreynsla fyrir hv. hlustendur að heyra formann Sjálfstfl., Ólaf Thors, ár eftir ár flytja ræðuna sína í eldhúsumr. á Alþingi. Hann er orðinn einskonar pólitískur halastjörnuspámaður. En það er eins með hann eins og suma aðra halastjörnu- og heimsendisspámenn; hann fær ekki sinn heimsendir. Í eldhúsdagsræðum hans kveða við hróp um „feigðargöngu“ fjárhagslegt hrun, fjármálaspillingu og allt í þessa átt, sem nöfnum tjáir að nefna. Og hann krefst þingrofs upp á þetta

En til hvers vill hann þingrof? Hvað býður hann upp á og hvað hefir hann boðið upp á? Nú skulum við athuga það.

Í fyrsta lagi býður hann upp á sparnað og gætilega fjármálastjórn. Það er trúlegt, að það verði á færi eyðsluklónna að framkvæma slíkt!

Sparnaðurinn, sem hv. þm. G.-K., formaður Sjálfstfl., Ólafur Thor, vill koma fram, er sparnaður á framlagi til verklegra framkvæmda í landinu, framlagi til verkamannabústaða framlagi til Byggingar- og landnámssjóðs, framlagi til landbúnaðarmála. Allt sparnaður á framlögum til hagsmunamál, almennings.

Ég hefi starfað með hv. sjálfstæðismönnum í fjvn. Þar hefir ekki verið mikið sparnaðarhljóðið í þeim. En þeir hafa sótt það jafnfast eins og við hinir, að veitt yrði fé til framkvæmda í kjördæmum landsins sem slíkum. Þeir hafa einnig lagt til, að fellt yrði úr tekjuliðum ríkissjóðs útflutningsgjald af sjávarafurðum, sem er nú um 650 þús. kr. á ári, og gjald af innfluttum vörum, um 750 þús. kr., eða alls 1400 þús. kr., og það án þess að koma með neinar sparnaðartill. til þess að vega þar á móti. Keppni þeirra er bara um að lækka tekjuliðina. Það er ráðið. Þetta er gætilega fjármálastjórnin! Seinna gefst tækifæri til þess að segja ykkur betur, heiðruðu hlustendur, hvað á að spara.

Annað úrræði hv. formanns sjálfstfl., Ólafs Thors, til að spara er „skynsamleg viðskipti við útlönd“.

Það þarf stillingu til skynsamlegra viðskipta í því efni, þannig að ekki tjáir að hlaupa úr n., sem stofnuð er til samvinnu um þau mál, á meðan hæst stendur á störfum hennar.

Trúir nokkur því, að Sjálfstfl. sé líklegur til að laka greiðsluhallann við útlönd?

Á Ólafi Thors hangir nú kaupsýsluhákarl í Reykjavík, heildsalar og þ. h. Þeir heimta alltaf meiri innflutning, meiri vörur til að selja, meira svigrúm til að braska. Og nú seinast gerir Sjálfstfl. gjaldeyrisherferð á hendur stjórnarvöldunum. Mér þykir fyrir því hve lint hefir verið tekið á því máli.

Hæstv. atvmrh., Haraldur Guðmundsson, rakti skoðun Ólafs Thors í gær í búskap hins frjálsa framtaks og ummæli hans um fúaduggur, ryðkláfa töp og hrörnun, úrræðaleysi og vandræði sjávarútvegsins. Það þýðir ekkert fyrir sjálfst.-menn að kveinka sér undan þessum staðreyndum. Það þekkja þær allir. Og það skilja þær allir. Það skilja allir, hvernig á því stendur, að samvinnumenn byggja upp sterkan félagsskap af sínum litlu efnum, að verkamenn skapa sér stórfelld menningar- og hagsmunasambönd, á meðan allt sekkur hjá þessum sólarbörnum þjóðfélagsins, hinum dugandi mönnum frjálsa framtaksins, sem réðu bönkum og öðrum peningastofnunum og framleiðslutækjunum. Þetta er af því að sérhagsmunastreita þeirra, augnabliksgræðgi, skammsýni og vesaldómur hefir gert alla möguleika þeirra að engu. — Þeir hafa gert allt sitt að engu. Alþýðan hefir skapað það litla, sem hún hefir, af engu.

Hvað bíður Ólafur Thors ennfremur upp á? Betra réttarfar. Þá er rétt að minnast örlítið á togaranjósnirnar. Íhaldið á sér gamla sögu í þessum málum. Réttarfar þess á sjó og landi er alræmdast af öllu því sem gengur undir nafninu réttarfar á Norðurlöndum. Þau ár, sem íhaldið hefir farið með völd hefir landið réttarfarslega verið eins og skrælingjanýlenda.

Nei, það hefir áreiðanlega komið ýmsum einkennilega fyrir, þegar Ólafur Thors krafðist kosninga í nafni flokks síns. Hvaða umboð mun hann hafa haft til þess?

Hv. formaður sjálfstfl., Ól. Thors. segir, að vilji sjálfstæðismann, hafi verið virtur að vettugi. En í hverju? Gat Ólafur Thors búizt við því að það einræði, sem hann dreymdi um árið 1934 fengi hann að framkvæma, þegar þjóðin hafði afneitað honum og öllu hans athæfi? En ég skora á hv. þm. Sjálfstfl. í fjvn. að greina frá því, í hverju vilji þeirra hefir verið virtur að vettugi. Þeir vita vel, að slíkt var ekki tilfellið. En þeir hv. þm. fengju ekki að tala, þó að þeir vildu né greina frá því rétta í þessu efni.

Það, sem til þess kemur, að hv. sjálfstæðisflokksmenn segja, að vilji þeirra hafi verið virtur að vettugi, er að þeim svíður það, að þingmeirihlutinn hefir haft vit fyrir hinni flasfengnu og ofsafengnu flokksforustu sjálfstæðismanna. eins og honum bar skylda til.

Ég vil beina þeim orðum til ykkar alþýðuflokksmenn í bæjum og sveitum landsins, að fylgjast vel með þessum umr. og spyrja alltaf eftir úrræðum sjálfstæðismanna. Þau eru jú allglæsileg! Nú skulu nefnd nokkur þeirra: vinnulöggjöf Thors Thors, sem er miðað gegn alþýðunni í landinu. Niðurlagning arðberandi fyrirtækja. Lækkun framlaga til verklegra framkvæmda. Létting skatta af stóreigna og hátekjumönnum og af atvinnurekstri þeirra. Lagavernd fyrir hin, stóru á kostnað hinna smáu, eins og t. d. mjólkurlög Þorsteins Briems og Korpúlfsstaðabúsins. Umráð yfir gjaldeyrinum í hendur stórkaupmanna. Innflutningur langt umfram kaupgetu landsmanna. — Þetta eru úrræðin. Það er þetta, sem Ólafur Thors er að bjóða ykkur að kjósa upp á, í stað þeirrar stjórnarstefnu, sem núverandi stjórnarflokkar fylgja. En hann varast að segja þetta berum orðum. Hannes er látinn hjala allskonar svikagyllingar um krónu-lækkun, sem hann hefir ekkert vit á. Jón Pálmason er látinn velta vöngum framan í bændur með alls konar frómum utangarnabollaleggingum ásamt allmiklu af rangfærslum um jafnaðarmenn. Þorsteinn Briem er látinn naga sig í handarbökin fyrir að hækka ekki jarðræktarstyrkinn og krefjast þess nú af jafn miklum móði, að hann verði hækkaður, eins og hann var svikull og deigur við það, á meðan hann réð yfir þeim málum. Þetta eru leiktjöldin utan um foringja Sjálfstfl. og stefnu hans. En inni fyrir er harðsvíruð drottnunarstefna örfárra manna, sem ætla sér að stjórna hér með ofbeldi, ef þeir fá nokkru sinni færi til að ráða hér lögum og lofum í landinu: ráða bönkunum, ráða atvinnutækjum, ráða afrakstri framleiðslunnar Og framleiðslunni sjálfri. En fólkið í landinu er búið að fá nóg af þeirri ráðsmennsku. Það segir bara: „Fjandinn fjarri mér.“

Hversvegna flanar hv. formaður Sjálfstfl. út í það að biðjast kosninga? Það er vitað, að þessi flokkur er að ala upp barsmíða- og mannvígaflokk hér í landinu. Þeir setjast í launsátur fyrir mönnum. Þeir æsa til manndrápa og blóðsúthellinga. Það er óþekkt fyrirbrigði hér um langt skeið bréfið, sem skrifað var á dögunum í sambandi við 1. maí n. k. Og að þessum æskulýð standa klerkar og prelátar bæjarins. Formaður Sjálfst.fl. veit vafalaust betur en ég, eins og fyrirrennari hans, Jón Þorláksson, um hinar hreinu hugsanir þessara, æskumanna. Hann veit sennilega, hvers hann má vænta af þeim. Hugsið ykkur, alþýðumenn, þessa uppbelgdu snáða koma heim á bæi ykkar, bólgna af ofstopa og hroka hins fáfróða smælingja, sem fengið hefðu mikið vald til að reka erindi kúgarans, taka að skipa ykkur fyrir og heimta af ykkur skatta í flokkssjóði íhaldsins og refsa gömlum andstæðingum þess. Þetta er gert í Þýzkalandi.

Ef hv. formaður Sjálfstfl. er heils hugar um að beiðast kosningar og ef honum er annt um það, að hans hlutur og flokks hans verði ekki ennþá hlálegri en hann er, þá er það af því, og af því einu, að hann trúir á þetta ofbeldislið. Þetta er varalið íhaldsins nr. 2, en yrði nr. 1, þegar svo væri komið, að flokkurinn hefði náð völdum.

Fasisminn er engan veginn dauður í landinu. Hann lifir í íhaldinu. Hann er nú eina von þess og líftaug.

Það er undir yfirskini lýðræðis og mannfrelsi, en með algerlega markvissan tilgang um að heita óaldarsveitum sínum, sem Ólafur Thors biður um kosningar.