07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. V.-Húnv. hélt því fram, að það hefði nú nýlega verið tekin ákvörðun af Framsfl. um gengismálið, og byggði það á því, sem ég sagði, að Bændafl. héldi fram gengislækkun, en Framsfl. hefði tekið það ráð að hækka verðið á innlendum markaði og taka lán á erlendum markaði. En það er ekki rétt, að flokkurinn hafi tekið neina ákvörðun um gengismálið, enda er það ekki hægt, það verður að fara eftir ástæðum. En það merkilega í þessu sambandi er það, að hv. þm. gat ekki hrakið það, að aðferð okkar framsóknarmanna á árunum 1934 og 1935 til að bæta hag framleiðenda væri sú rétta. Að það væri rétt að taka ekki gengislækkun, heldur hækka verðið innanlands á afurðunum með löggjöf.

Þá talaði hann enn um Þýzkalandsmarkaðinn og sagði, að sumir hefðu af einhverjum ástæðum veigrað sér við því að selja til Þýzkaland, á árinu 1934, þrátt fyrir að þar hefði boðizt hærra verð en annarsstaðar. Ég skal nú upplýsa það, að þessar einhverjar ástæður voru þær, að innkaupin frá Þýzkalandi voru svo illa skipulögð af þeirri n. sem þessi hv. þm. átti sæti í, að menn þorðu ekki að selja vörur sínar þangað af ótta við, að andvirði þeirra frysi inni. En á árinu 1935 notaðist Þýzkalandsmarkaðurinn vegna þess, að þá hafði núv. stj. skipulagt viðskiptin svo, að menn þurftu ekki að óttast að mörkin yrðu ekki leyst inn.

Fleiru þarf ég ekki að svara þessum hv. þm. Hann eyddi tímanum í þarflaust pex, en gekk fram hjá því að skýra frá því, hvernig hann gæti fremur talið sig fyrir Bændafl. heldur en fyrir Sjálfstfl. eftir að hv. þm. G.-K. hefir gefið þá yfirlýsingu, að Sjálfstfl. hefði kosið hann á þing. Hv. 10 landsk. var að reyna að vega á móti þessu með almennum upphrópunum um það, að Bændafl. yxi fylgi sem sjálfstæðum flokki, sem menn færu í af því að þeir væru orðnir leiðir á gömlu flokkunum og þá fyrst og fremst Framsfl. En það þarf mikla óskammfeilni til að halda þessu fram, þar sem það liggur fyrir yfirlýsing frá formanni Sjálfstæðisfl. hv. þm. G.-K., um það, að hann beri ábyrgð á kosningu hv. þm. V.-Húnv. Allt skraf bændaflokksmanna um það, að þessi flokkur sé sjálfstæður og vilji vinna til beggja handa, fellur um sjálft sig, og það hefir sýnt sig, að þessir menn eru pólitískir flugumenn, sem eru sendir af Sjálfstfl. og var ætluð að eyðileggja Framsfl.

Hv. þm. G.-K. er kominn í hina mestu klípu, og til þess að komast út úr henni, reynir hann að rugla saman tölum. Hann segir, hv. þm., og ber hagstofuna fyrir, að það þurfi að bæta 6% við innflutninginn og 10% við útflutninginn s. l. ár til þess að fá hið rétta út. En nú vill hagstofustjóri ekki kannast við þetta, heldur telur hann, að samanlagt þurfi að draga frá innflutningnum ca. 3 millj. og bæta við útflutninginn öðru eins. Það stendur því óhaggað, sem ég hefi sagt, að greiðslujöfnuðurinn 1935 hafi verið óhagstæður um 4–5 millj. í stað 11–12 millj. 1934. Það er því alveg sama, hvernig hv. þm. G.-K. reynir að sprikla, það stendur fast og því verður ekki haggað, að fyrir ráðstafanir stj. og innflutningsnefndar hefir innflutningurinn lækkað á árinu, sem leið, um 6–7 millj. frá því, sem hann var 1934. Nú er því spurningin sú, hvort sjálfstæðismönnum hefði verið betur Treystandi til að fá hagstæðan verzlunarjöfnuð en stjórnarflokkunum? Ég segi nei, og aftur nei, til þess var þeim sízt treystandi, því að svo mjög telja þeir innflutningshömlurnar koma hart niður á sér.

Þá tók hv. þm. þrjú dæmi, sem áttu að sýna skattahækkun stj. Fyrst gat hann þess, að kaffi- og sykurtollur hefði hækkað. En þetta er rangt, því að tollur af þessum vörutegundum hefir lækkað, en ekki hækkað í tíð núv. stj. Einnig taldi hann, að tollur af vefnaðarvörum hefði hækkað, en þetta er líka rangt. Og í þriðja lagi sagði hann, að tollar hefðu verið hækkaðir á allri notaþörf framleiðslunnar. Þetta er líka rangt. eins og allt annað í ræðu hv. þm.

Þá kem ég að því atriðinu í ræðu hv. þm., sem var aðalatriðið. Það atriðið, sem átti að vera rothögg á stjórnarflokkana. Eins og hv. þm. muna, þá skoraði ég á hv. þm. G.-K. í gær að standa við þau ummæli sín, að stjórnarflokkarnir hefðu staðið á móti launalækkunartill. sjálfstæðismanna, en það sagði hv. þm., að þeir hefðu gert, því að við vildum ekki hækkun á útgjöldum ríkissjóðs, því að hún myndi fyrst og fremst ganga út yfir bein og bitlinga stjórnargæðinganna. Þessari áskorun minni hefir hv. þm. engu svarað. En hann sagði í ræðu sinni áðan, að Sjálfstfl. vildi ekki taka á sig óvinsældirnar, sem fylgdu því að flytja lækkunartillögur. Ég er hreint og beint steinhissa á þessari yfirlýsingu hv. þm., því að hingað til hafa sjálfstæðismenn þó viljað hofa tillögurétt, sem og ekki er undarlegt, þar sem það er einn helgasti réttur þingræðisins, að menn mega bera fram till. Getur nokkur hugsað sig meiri uppgjöf en þetta. Að vilja ekki taka á sig óvinsældirnar af því að flytja lækkunartill. Hvílík fjarstæða. Eins og ég þegar hefi tekið fram, þá sagði hv. þm. í gær, að það sem helzt þyrfti að lækka af útgjöldum ríkissjóðs. væru bitlingar og bein stjórnargæðinganna. Ég vil því spyrja, heldur hv. þm. í raun og veru, að hann yrði óvinsæll, þó að hann bæri fram till. til lækkunar á bitlingum og beinum andstæðinga sinna. Ég held, að hv. þm. þurfi ekkert að óttast um slíkt. Annars mun það svo, eins og oft vill verða fyrir þessum hv. þm., að hann hafi farið of langt, farið einu feti of langt til þess að geta staðið við það, sem hann sagði. Ágreiningurinn liggur alls ekki í þessu, heldur í því, hvort lækka eigi framlög ríkissjóðs til atvinnuveganna og verklegra, framkvæmda. Það er því of vægt að kalla slíkan málflutning sem þennan fleipur, þar sem hann er beinlínis þvaður af lélegasta tægi, og hreint ekkert annað.

Ég býst við, að allir hv. hlustendur kannist við Jón sterka í Skugga-Sveini, hinn innantóma og huglausa grobbara. Þegar hv. þm. G.K. reisti sig hér í gær og sagðist hafa kveðið í kútinn alla andstæðinga sína, datt mér sannarlega í hug þessi persóna Matthíasar í Skugga-Sveini. Þar sem hann stendur upp á leiksviðinu, eftir að Haraldur hefir kastað honum niður, hristir af sér ruslið og segir: „Sáuð þið hvernig ég tók hann, piltar?“

Hvað snertir tekjuhalla fjárlaganna, þá vildi stj. vinna að því að bæta úr honum, og það hefir hún gert, en ekki með því að auka útgjöldin um 5 millj., heldur aðeins um eina millj. Sömuleiðis hefir stj. viljað vinna að því að fá greiðslujöfnuð við útlönd, hvernig það tekst, skal ekkert fullyrt um nú, en útlitið er ekki gott þar sem verð á öllum útflutningsvörum okkar hrynur niður svo að segja dag frá degi.