06.03.1936
Efri deild: 17. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

19. mál, eyðing svartbaks

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég heyri mér til mikillar undrunar, að hv. þm. Dal. er mjög mótfallinn þessari till. Ég hafði satt að segja vænzt þess, að hann væri svo fullur af ábyrgðartilfinningu gagnvart afkomu ríkissjóðs, að hann vildi flest til vinna til þess, að henni mætti halda í lagi. Það má segja um hann eins og svo marga aðra menn, að þeir eru fúsir til þess að vera með öllum útgjaldatillögum og leggja skatta á ríkissjóðinn og koma svo heim í héruðin og hrósa sér af því, að þeir hafi getað útvegað þetta eða hitt. En svo standa þessir sömu menn á móti því, að ríkissjóður afli sér tekna. Þetta er undarleg afstaða, en þannig er það samt. Það er venjulega svo, að þeir, sem eru skeleggastir í því að standa á móti því, að ríkissjóður fái tekjur, eru líka skeleggastir í því að gera til hans kröfur. Það getur verið, að þetta geti litið nógu laglega út í augum þeirra, sem ekki hafa sett sig inn í málið og geta ekki dæmt um afstöðu þessara þm., en það gæti skeð að það færi af þeim riddaramennskan, þegar athuguð væri afstaða þeirra til fjáraflatillagna, sem komið hafa fram fyrir ríkissjóðinn. (MJ: Hvernig er það með fiskimálan.?) Ég vil benda hv. þm. á það, að fiskimálan. er ekki, til umr. núna. En þó að hún væri lögð niður, þá verður ekki breytt kostnaðinum við störf n., heldur yrði kostnaðurinn færður yfir á fiskimennina sjálfa. En það mál er ekki til umr. hér.

Þá var hv. þm. Dal. að kvarta undan afstöðu minni til Dalasýslu. Ég veit ekki betur en að ég hafi stutt hann til þess að fá fullkomlega eðlileg fjárframlög til Dalasýslu við afgr. fjárlaganna. (ÞÞ: Við sjáum til á þessu þingi). Ég held, að hv. þm. þurfi ekki að kvarta eða vera með skæting til Múlasýslna, því þær munu þola samanburð, ef tekið er tillit til tekna hverrar sýslu fyrir sig. Hv. þm. ætti að bíða með hnútur sínar, þangað til séð verður, hvernig afstaða mín og hans verður til till., sem fram hafa komið.

Ég ætla svo ekki að fara lengra út í að ræða þetta mál, en ég verð að halda fast við það, að ég get ekki séð sérstaka ástæðu til þess að setja á ríkissjóð nokkurn hluta af þessum kostnaði. Ég verð að líta svo á, að þeir, sem eiga að hafa not af þessum ráðstöfunum, eigi að bera kostnaðinn, en það eru hlutaðeigandi héruð.